Fjölbreytileg tónlist af ólíkum toga mun hljóma á útskriftartónleikum tónlistardeildar LHÍ sem haldnir verða dagana 25. apríl til 8. maí. Í vor munu tæplega 30 tónlistarnemar útskrifast af ýmsum brautum tónlistardeildar, söngbraut, hljóðfærabraut, skapandi tónlistarmiðlun, tónsmíðabraut, hljóðfærakennarabraut og úr meistaranámi útskrifast nemar af tónsmíðabraut og NAIP – sköpun, miðlun og frumkvöðlastarfi. 

Hilma Kristín Sveinsdóttir ríður á vaðið með útskriftartónleikum úr tónsmíðum í Stúdíó Sýrlandi, Vatnagörðum, fimmtudagskvöldið 25. apríl kl. 20 þar sem flutt verður verk hennar „ég segi þér bara meira seinna“ en á meðal flytjenda eru Hallveig Rúnarsdóttir, Ingibjörg Turchi og Þórdís Gerður Jónsdóttir. 

Á þrennum tónleikum í Tjarnarbíói miðvikudaginn 1. maí munu Sara Blandon, Árni Freyr Jónsson og Davíð Sighvatsson Rist flytja útskriftarverkefni sín frá skapandi tónlistarmiðlun þar sem saman renna ýmsar listgreinar, vídeó, dans, leiklist og myndlist við tónlistina og á meðal þeirra sem fram koma eru Sóley Stefánsdóttir, Ingi Garðar Erlendsson og Rósa Ásgeirsdóttir. Fyrr þennan sama dag heldur Andrés Þór Þorvarðarson, tónsmíðanemi, sína útskriftartónleika í Gerðarsafni, Kópavogi þar sem flutt verður verk hans „gangatúr“ fyrir fjóra flytjendur.  Þorvaldur Örn Davíðsson, mastersnemi í tónsmíðum, stjórnar sönghópnum Hljómeyki og Miðbæjarkvartettnum á útskriftartónleikum sínum í Langholtskirkju 5. maí kl. 17.

Flestir útskriftartónleikar tónlistardeildar LHÍ 2019 fara svo fram í Salnum í Kópavogi en dagana 30. apríl – 8. maí verða þar haldnir alls fjórtán tónleikar þar sem tónlist úr öllum áttum hljómar. Útskriftartónleikar söngbrautar fara fram dagana 30. apríl – 3. maí, þriðjudaginn 30. apríl koma Solveig Óskarsdóttir, Alicia Achaques og Snæfríður María Björnsdóttir fram, fimmtudaginn 2. maí þær Una María Bergmann og María Sól Ingólfsdóttir og föstudaginn 3. maí þær Eliška Helikarová, Sandra Lind Þorsteinsdóttir og Sigríður Salvarsdóttir en allar eru þær af útskrifast af söngbraut og munu flytja tónlist úr ólíkum áttum eftir tónskáld svo sem Megas og Mozart, George Crumb og Alban Berg, Leonard Bernstein og Cindy Lauper, Jórunni Viðar og Clöru Schumann svo örfá séu nefnd.  Með þeim spila píanóleikarnir Aladár Rácz, Helga Bryndís Magnúsdóttir, Kristinn Örn Kristinsson og Matthildur Anna Gísladóttir.

Útskriftartónleikar hljóðfærabrautar og hljóðfærakennarabrautar fara fram dagana 4. - 7. maí í Salnum þar sem þær Anna Þórhildur Gunnarsdóttir, píanó, Agnes Eyja Gunnarsdóttir, fiðla, Steina Kristín Ingólfsdóttir víóla og Sigrún Mary McCormick, víóla flytja efnisskrár sem samanstendur af tónlist eftir Bloch, Martinu, Brahms, Ravel, Rameau, Piazzolla, Rebeccu Clarke og fleiri en með þeim spilar píanóleikarinn Richard Simm.

Eru þá ótaldir útskriftartónleikar tónsmíðanema frá LHÍ. Tónleikar með tónsmíðum þeirra Christian Öhberg og Svetlönu Veschaginu verða haldnir sunnudaginn 5. maí kl. 17 þar sem CAPUT flytur verk þeirra en bæði hafa Christian og Svetlana stundað mastersnám í tónsmíðum við LHÍ. Lokatónleikar þessarar útskriftartónleikahrinu verða svo miðvikudaginn 8. maí í Salnum í Kópavogi þar sem flutt verða útskriftarverk þeirra Bjarka Hall, Emilíu Ófeigsdóttur, Magna Freys Þórissonar og Björns Jónssonar sem öll eru að útskrifast með BA-gráðu af tónsmíðabraut tónlistardeildar nú í vor.

Fimmtudaginn 2. maí munu þeir Bragi Árnason og Arnold Ludvig verja meistaraverkefni sín úr Sköpun, miðlun og frumkvöðlafræði en varnirnar fara fram í Skipholti 31. 

Útskriftartónleikar tónlistardeildar  eru hluti af útskriftarhátíð LHÍ 2019. Aðgangur á tónleikana er ókeypis og öll hjartanlega velkomin.

Útskriftartónleikar LHÍ vorið 2019 - yfirlit:

Fimmtudagur 25. apríl í Stúdíó Sýrlandi, Vatnagörðum
20:00 Hilma Kristín Sveinsdóttir, tónsmíðar (BA)

Þriðjudagur 30. apríl í Salnum í Kópavogi
18:00 Solveig Óskarsdóttir, söngur (B.Mus)
19:30 Alicia Achaques, söngur (B.Mus)
21:00 Snæfríður María Björnsdóttir, söngur (B.Mus)

Miðvikudagur 1. maí í Gerðarsafni, Kópavogi
17:00 Andrés Þór Þorvarðarson, tónsmíðar (BA)

Miðvikudagur 1. maí í Tjarnarbíói
19:00 Árni Freyr Jónsson, skapandi tónlistarmiðlun (BA)
20:00 Davíð Sighvatsson Rist, skapandi tónlistarmiðlun (BA)
21:00 Sara Blandon, skapandi tónlistarmiðlun (BA)

Fimmtudagur 2. maí í LHÍ, Skipholti 31
10:00 Arnold Ludvig, NAIP
11:15 Bragi Árnason, NAIP

Fimmtudagur 2. maí í Salnum í Kópavogi
18:00 Una María Bergmann, söngur (B.Mus)
20:00 María Sól Ingólfsdóttir, söngur (B.Mus)

Föstudagur 3. maí i Salnum í Kópavogi
17:30 Eliška Helikarová, söngur (B.Mus)
19:00 Sandra Lind Þorsteinsdóttir, söngur (B.Mus) 
20:30 Sigríður Salvarsdóttir, söngur (B.Mus)

Laugardagur 4. maí í Salnum í Kópavogi
17:00 Sigrún Mary McCormick, víóla (B.Mus.Ed)
20:00 Anna Þórhildur Gunnarsdóttir, píanó (B.Mus)

Sunnudagur 5. maí í Langholtskirkju
15:00 Þorvaldur Örn Davíðsson, tónsmíðar (MA)

Sunnudagur 5. maí í Salnum í Kópavogi
17:00 Christian Öhberg & Svetlana Veschagina, tónsmíðar (MA)
20:00 Agnes Eyja Gunnarsdóttir, fiðla (B.Mus)

Þriðjudagur 7. maí í Salnum í Kópavogi
20:00 Steina Kristín Ingólfsdóttir, víóla (B.Mus)

Miðvikudagur 8. maí í Salnum í Kópavogi
20:00 Bjarki Hall, tónsmíðar (BA)
Emilía Ófeigsdóttir, tónsmíðar (BA)
Magni Freyr Þórisson, tónsmíðar (BA)
Björn Jónsson, tónsmíðar (BA)