Nemendur á fimmta ári í arkitektúr heimsóttu Harvard háskóla í Boston dagana 8. – 12. október 2022 ásamt fagstjóra meistaranámsins og starfandi deildarforseta arkitektúrdeildar Massimo Santanicchia. Hópnum var boðið að kynna rannsóknarverkefni sitt um Reykjanes fyrir fimmta árs nemum í arkitektúr við Harvard GSD (Graduate School of Design). Það er Anna Gasco sem leiðir deildina í Harvard en hún hefur lagt mikla áherslu á Reykjanesið, rétt eins og útskriftarnemendur meistaranáms í arkitektúr við Listaháskóla Íslands gera í sínu námi.
 
Samstarf milli arkitektúrdeildar Listaháskóla Íslands og Harvard hefur staðið síðan í ágúst 2020. Deildirnar hafa haldið sameiginlegar kennslustundir og yfirferðir þvert á skólana tvo, auk þess sem nemendur hafa heimsótt hvorn skólann fyrir sig. Samstarfið mun standa út desember 2022, eða þar til útskriftarnemendur í meistaranámi í arkitektúr við LHÍ ljúka vinnustofu og hefja vinnu að útskriftarverkefnum sínum.
 
Við spyrjum Massimo Santanicchia, fagstjóra meistaranámsins út í mikilvægi samstarfsins og hvernig það samræmist kennsluþróunarstefnu arkitektúrdeildar við Listaháskóla Íslands:
 
„Markmið meistaranámsbrautar í arkitektúr við Listaháskóla Íslands er að undirbúa nemendur undir það að vera virkir ríkisborgarar í íslensku samhengi, að skilja hlutverk og áhrif hönnunar sinnar á samfélagið og víðar og ekki síst að þróa með sér skilning og færni til að skapa ný sjónarhorn og nýja þekkingu sem er nauðsynleg til að geta horfast í augu við þær áskoranir sem mannkynið stendur nú frammi fyrir. Til að geta þetta þurfa arkitektar að verða hæfari í samstarfi og betri í að nýta alla þá undursamlegu möguleika sem arkitektúrnám getur boðið upp á. Í vinnustofu okkar við Listaháskóla Íslands tala kennarar og nemendur frekar um arkitektúra heldur en arkitektúr og leggja þannig áherslu á samvinnu og heild sem hugmyndafræði:
 
Arkitektúrar eru. . .
  • ferli sem einkennast af athugun þar sem markmiðið er að læra að sjá, hlusta á og taka þátt í samtali við heiminn umhverfis okkur.
  • lærdómur sem snýst um að lýsa heiminum og túlka hann á gagnrýninn hátt svo hægt sé að ímynda sér betri heim.
  • lltaf tilbúin til að íhuga stjórnmálalegar, samfélagslegar og vistfræðilegar afleiðingar hönnunar sinnar.
  • í fleirtölu, ósamkynja, sameiginleg og aðgengileg
  • alltaf í samhengi við stað, samfélög og fólk, en um leið undir áhrifum hnattrænna afla.
  • háð innbyrðis og samtengd þeim vistfræðilegu og samfélagslegu kerfum sem móta þau.
  • án aðgreiningar og margbreytileg, ófyrirséð og heildræn, lúta að samstarfi og borgaralega sinnuð, íhugandi og aðgerðarmiðuð.“
 
 
Í samtali við nemendur kemur í ljós að þeim þótti ferðin virkilega gagnleg, það sé alltaf dýrmætt að fá að kynna verkefni sín og rannsóknir utan veggja skólans og ekki síst þegar vettvangurinn er jafn mikils metinn í háskólasamfélaginu og Harvard. Það sem nemendum þótti gefa þeim mestan innblástur var að sjá verkefni nemenda í arkitektúrdeild við Harvard. Þau hefðu verið meðvituð um að verkefni nemenda í Harvard yrðu í háum gæðaflokki og meðvitundin um það hefði ýtt á þau að gera betur sjálf, bæði í faglegu og námslegu samhengi. Endurgjöfin sem þau fengu á kynninguna frá prófessorum í Harvard hafi einnig verið mjög hvetjandi. Þá hafi umhverfið í Harvard og byggingar á háskólalóðinni verið sérlega áhugahvetjandi en margar byggingarnar eru hannaðar af heimsþekktum arktiektum.
 
Nemendurnir sem fór út ásamt Massimo Santanicchia fagstjóra og starfandi deildarforseta arkitektúrdeildar voru Davið Snær Sveinsson, Eva Johansdóttir, Katrín Heiðar, Martina Domaradzka, Griffiths, Oddur Gunnarsson Bauer, Rami A. S. Mussa Zakia.
 
Hægt er að skoða kynninguna sem þau fluttu um Reykjanesið í Harvard hér.
 

 

 
 
*Myndir frá nemendum og Massimo Santanicchia.