Útskriftarathöfn Listaháskóla Íslands haustið 2021 fór fram með hátíðlegum hætti á bókasafni skólans þann 30. September síðastliðinn.
Að þessu sinni voru 16 nemendur útskrifaðir: 9 í sviðslistum, 3 í tónlist, 3 í listkennslu og 1 í hönnun.
 
Fríða Björk Ingvarsdóttir, rektor, ávarpaði samkomuna ásamt því að Iva Marín Adrichem, útskriftarnemandi tónlistardeildar, söng fyrir viðstadda.
 
Í ávarpi sínu gerði Fríða áhrifamátt listanna á samfélagið sem heild að umtalsefni sínu.
 
„Sem hugmyndafræðilegur brimbrjótur skapa listirnar iðulega upplausn um sinn með nýjum hugmyndum, framsækinni sýn og ögrandi framsetningu. En þær koma líka reiðu á raunveruleikann, með því að afhjúpa innsta kjarna flókins veruleika í gegnum sitt frumlega og skáldaða sjónarhorn.“
 
Við óskum útskriftarnemendum haustið 2021 innilega til hamingju með áfangann!
 
 
img_5111.jpeg
 

 

Ávarp rektors

 
Kæru útskriftarnemar, kæru gestir. 
 
I
Það þarf ekki að benda ykkur sem hér útskrifist í dag á þá staðreynd að listin gegnir lykilhlutverki í heimsmyndinni. Þið vitið sem er, að upplifun okkar af heiminum væri tæpast til nema sem sjónhverfing, ef listirnar gerðu hana ekki sýnilega. Tónlistin, ritlistin, sjónlistin og sviðslistin - allt eru þetta birtingarmyndir sögu, tíma, rýmis og upplifunar mannskepnunnar frá örófi alda. 
 
Tíminn hefur einnig sannað að hugmyndir eru fyrsta forsenda breytinga, að án hugrekkis ríkir stöðnun. Auk vísindanna, eru listirnar, sem byggja að meginuppistöðu á hugmyndum og hugrekki, þannig einn helsti farvegur umbreytinga sem sjá má stað í framþróun liðanna tíma, rétt eins og í samtímanum. 
 
Sem hugmyndafræðilegur brimbrjótur skapa listirnar iðulega upplausn um sinn með nýjum hugmyndum, framsækinni sýn og ögrandi framsetningu. En þær koma líka reiðu á raunveruleikann, með því að afhjúpa innsta kjarna flókins veruleika í gegnum sitt frumlega og skáldaða sjónarhorn. Sjónarhorn sem verður til í hverfipunkti greinandi aðferða listanna og innsæis sköpunargáfunnar í hverju einstöku listaverki. 
 
 
II
Það sem bíður ykkar að lokinni útskrift er því veigamikið hlutverk þess sem byggir upp og mótar eitthvað alveg nýtt, með ykkar persónulegu sýn, þekkingu og gagnrýnu hugsun. Sum ykkar munu jafnframt skapa öðrum slík tækifæri fyrir tilstilli menntunar á forsendum skapandi aðferða listanna, á öllum skólastigum. 
 
Það er því í ykkar höndum að gera veruleika okkar samtíma skil. Og ég efast ekki um að þið eruð fullfær um að koma þeim púlsi sem er sterkastur til skila með merkingarbærum hætti. Því samtíminn hverju sinni felur í sér nýja fagurfræði, nýjar aðferðir og ný viðmið um tilgang og þekkingu sem þið eruð sannarlega fær um að staðfæra og skilgreina í verkum ykkar. 
 
Við skulum heldur ekki gleyma því að þekkingarleitinni lýkur aldrei - ykkar rannsókn á aðferðum og athöfnum listanna er rétt að hefjast. 
 
 
III
Og þá að undirliggjandi aðstæðum síðustu mánuða: Þrátt fyrir að þið hafið hlotið ykkar menntun hér við Listaháskóla Íslands að stórum hluta til á tímum heimsfaraldurs og við þær krefjandi aðstæður sem heimsbyggðin öll hefur þurft að takast á við, tel ég víst að sú þekking sem þið öfluðuð ykkur á námstímanum muni verða ykkur gott veganesti í ykkar persónulegu vegferð. 
 
Það þarf mikla seiglu og úthald til að komast á áfangastað í því árferði sem þið hafið upplifað. Og það eitt og sér færir mér sannfæringu fyrir því að þið, sem hingað eruð komin á útskriftardegi, munið halda ykkar ferli áfram með þau fjölmörgu verkfæri sem ykkur voru færð og nýta þau til að setja ykkar mark á heiminn - og jafnvel breyta lögun hans og eðli ef slagkraftur ykkar er mikill. 
 
 
 
IV
Finally just a few words in English, since we are here today celebrating the graduation of some of our international students. It is a major achievement to have come such a long way, under the extraordinary circumstances of the pandemic. 
 
In spite of these difficult circumstances, you as artists, have focused on your projects from a broad perspective, rather than from within the restrictions that have moulded our lives for the last 18 months. You've focused on intellect, intuition, theory and a willingness to let a creative process break through, to form something that is beyond the mundane and beyond the limitations we've had to face. 
 
Your graduation is a certainly something that we are very proud of. 
 
I would like to congratulate you all on this very special day - og jafnframt að lokum óska ykkur öllum hjartanlega til hamingju með áfangann. 

 

img_4961.jpeg