Útskriftarathöfn Listaháskóla Íslands 2022 fór fram með hátíðlegum hætti í Eldborg Hörpu þann 24. júní. Útskrifaðir voru 157 nemendur.

Ávarp rektors

Fríða Björk Ingvarsdóttir, fjallaði um í ávarpi sínu ástand heimsins eins og hann stendur í okkar hvikula samtíma. Lesa má ávarp rektors hér fyrir neðan. 
Ávarp rektors utskrift 2022.jpg
 

Hátíðarræða

Hátíðarræðumaður í ár var Ísold Uggadóttir kvikmyndagerðakona en 17. júní síðastliðinn hlaut hún heiðurinn að vera valinn borgarlistamaður Reykjavíkurborgar. Í haust fer af stað í fyrsta sinn á Íslandi nám í kvikmyndagerðalist á háskólastigi. Það er mikið gleðiefni og veitti Ísold útsriftarefnum innblástur í ræðu sinni og óskaði þeim velfarnaðar. 
ÍU hátíðarræða 22.jpg
 

Klæðnaður rektors 2022

Skapast hefur hefð fyrir því að rektor klæðist hönnun eftir útskriftanema í fatahönnun. Í ár var Tekla Sól Ingibjartsdóttir heiðursins aðnjótandi að klæða Fríðu Björk Ingvarsdóttur. Tekla Sól var ein þriggja nemenda frá Listaháskólanum sem voru valin úr hópi alþjóðlegra umsækjenda frá fremstu fatahönnunarskkólum í heimi til þess að taka þátt í vinnustofu á vegum Balenciaga. Fatnaðurinn var sýndur á safni hans á Spáni,  Þar voru þau í hópi efnilegustu fatahönnunarnema á heimsvísu að mati safnis. 
Fríða Björk og Tekla Sól.jpg
 
Frekari myndir, upptaka og fréttir berast eftir helgina á vef skólans.

 

Ávarp rektors 2022

Kæru gestir, kæru samstarfsmenn (og allra helst;) kæru útskriftarnemar! 
Á krossgötum sem þeim, er þið útskriftarnemar standið á í dag, verður okkur öllum hugsað til framtíðarinnar. Hvert þið ætlið ykkur, hvert þið haldið og hverju þið viljið áorka í ykkar listsköpun. Listin krefst mikils af ykkur; hún er ekki einungis fagvettvangur ykkar og atvinna - hún er samofin lífi ykkar og hugmyndafræði. Listsköpun krefst ykkar persónulegu afstöðu umfram flestan annan starfa - og sem slík er hún rammpólitísk 
Í því stóra samhengi langar mig til að leggja út frá frá slagorðinu brauð og rósir. Mig langar að ávarpa stuttlega ástand heimsins eins og hann stendur í okkar hvikula samtíma á þessum hátíðlega útskriftardegi.  
Í tvö ár höfum við staðið í skugga heimsfaraldurs. Þetta vorið - meira að segja áður en við höfum gert upp reynslu heimsfaraldursins - er brostið á stríð í Evrópu. Við lifum því hvort tveggja í senn sögulega og harmræna tíma.  
Slíkri tímar krefjast mikils af okkur, mun meira en þegar allt leikur í lyndi. Efnahagskerfi raskast, viðhorf okkar breytast, lífsmátann þarf að móta upp á nýtt. Í sumum tilvikum liggja jafnvel líf að veði - líkt og hjá almenningi í Ukraínu. Á tímum sem þessum er mikilvægt að horfa til sögunnar og þeirra grunngilda sem móta siðmenninguna, lífsvilja mannsins og þroska.  
II 
Slagorðið "brauð og rósir" hefur allt frá árinu 1910 verið tengt baráttu minnihlutahópa og þeirra annarra sem minna mega sín, fyrir mannsæmandi lífskjörum og hlutdeild í andans auðlegð. Uppruna "brauðs og rósa" má rekja til þess er  Helen Todd, baráttukona fyrir kosningarrétti kvenna í Bandaríkjunum, flutti ræðu sem enn er minnst rúmri öld síðar. Todd krafðist"lífsins brauðs;" eins og hún orðaði það og skilgreindi sem "heimili, skjól og öryggi". En hún krafðist einnig "rósa lífsins", þ.e.a.s. menntunar, lista og náttúru, hverju mannsbarni til handa allt frá fæðingu.  
Líkt og allt framfarasinnað fólk vissi Helen Todd að það er ekki nóg að eiga til hnífs og skeiðar, auk þaks yfir höfuðið. Þótt hún væri að berjast fyrir fátækustu og hungruðustu stétt síns tíma, verksmiðujuverkafólk, vissi Todd að brauðið eitt dugði ekki til að skapa fólki gott líf. Því til að þrífast og þroskast verðum við einnig að njóta menntunar, hugljómunar listanna - og síðast en ekki síst náttúrunnar.  
III 
Það að baráttufólk fyrir mannréttindum árið 1910 skuli strax hafa séð fyrir þá þrjá meginþætti, sem utan brauðsins, liggja til grundvallar hamingjusömu og farsælu lífi, þ.e.a.s upplýstum anda og frelsi ímyndunaraflsins, er engin tilviljun. Allir helstu hugsuðir árþúsundanna hafa skynjað og skilið vægi þessara þátta í velferð okkar, þótt það hafi tekið langan tíma að þoka þessum kröfum áfram. Það var ekki fyrr en með velferðarkerfum síðustu aldar sem samstaða um brauðið náð fótfestu, og að mestu leyti einnig um tvær rósanna - hina andlegu næringu listanna og þroska ímyndunaraflsins fyrir tilstilli menntunar.  
En þessarar velferðar höfum við að mestu aflað okkur á kostnað þriðju rósarinnar - sjálfrar náttúrunnar. Við höfum gírað upp efnhagsleg vaxtarviðmið til að mæta þörfum sem í upphafi voru nauðsyn til að brauðfæða og mennta. Í dag er þessi krafa um áframhaldandi vöxt óraunhæf -  enda fyrst og fremst í þágu illa ígrundaðrar neyslu. Hún stuðlar að ójöfnuði á heimsvísu, gegndarlausti sókn í auðlindir jarðar og að óafturkræfum áhrifum á vistkerfin. 
Við stöndum frammi fyrir því, öll sem eitt, að þurfa að taka þátt í baráttunni fyrir náttúrunni og um náttúruna. Því náttúran er ekki einungis upphafspunktur okkar allra, heldur er hún það afl sem er stærra öllu öðru og við eigum allt okkar undir. Ef okkur tekst ekki að temja okkur virðingu fyrir náttúrunni þannig að henni verði viðhaldið, þýðir það einungis eitt: Að náttúran hristir okkur af sér og heldur síðan áfram sínu þróunarferli, án okkar.  
Jörð þar sem mennirnir hafa tortímt sjálfum sér, þýðir ekkiendalok heimsins - heimurinn mun halda áfram að snúast um sínar sólir, þenjast út og skreppa saman. En við sem erum auðvitað minni en sandkorn í því samhengi, eigum allt undir, því slík tortíming þýðir glötun allrar okkar siðmenningar.  
IV 
Það er fátt sem er betur til þess fallið að breyta viðteknum tíðaranda, viðhorfum og markmiðum en listirnar. Listirnar eru stærri en við sjálf sem mótunarafl. Fyrir tilstilli sköpunar er hægt að velta hvaða bjargi sem er og bylta öllum kerfum. Það er hægt að móta lífsandann upp á nýtt, smjúga inn í undirmeðvitundina, breyta hugsunarhætti og kasta fram nýjum hugmyndum. Það er hægt að greina sannleikann frá blekkingunni, réttlætið frá ranglætinu, hismið frá kjarnanum. Allt fyrir tilstilli ímyndunaraflsins og frumsköpunarinnar.  
Sem listamenn eruð þið alltaf með autt blað fyrir framan ykkur - tabula rasa. Stundum á ykkur eftir að takast vel upp, stundum illa. En hver einasta vegferð ykkar á vegum listarinnar er þess virði að fara hana, því hún mun leiða ykkur áfram inn sjálfstæðan heim listarinnar. Inn í heim sem stækkar inn í árþúsundin og lifir þvert á öll mæri tíma, sögu, menningar og þjóðernis - svo lengi sem siðmenningin er á annað borð til.  
Flestir sem hér eru eiga brauð - í það minnsta samkvæmt skilgreiningu Helen Todd. Og eftir nám ykkar hér við Listaháskólann eigið þið einnig rósir menntunar og listanna. Mín hvatning til ykkar í dag, er því sú að þið hlúið að þriðju rósinni, rós náttúrunnar. Að þið hefjið til vegs þá rós sem virkilega þarfnast athygli ykkar og umhyggju. Ekki einungis þannig að hún verði ykkar til að njóta, heldur einnig barnanna ykkar og barnabarna. 
Kæru útskriftarnemar; þið hafið sýnt og sannað hvers þið eruð megnug. Ég efast ekki um að kraftur ykkar, hugvit og innblástur mun vaxa. Þannig munið þið mæta kröfu tímans, um að þið deilið ykkar brauði, en ræktið fleiri rósir. Að þið snúið óheillaþróun umhverfisvárinnar yfir í þroska nýrrar hugsunar og nýrra hugmynda um mennskuna.  
Ég óska ykkur innilega til hamingju með daginn og um leið velfarnaðar á framtíðarvegum listarinnar.  
Fríða Björk Ingvarsdóttir