Útskriftarathöfn Listaháskóla Íslands vorið 2021 fór fram með hátíðlegum hætti í Eldborg Hörpu þann 12. júní. 

Það eru alls 146 nemendur sem útskrifuðust: 14 í arkitektúr, 33 í hönnun, 18 í listkennslu, 24 í myndlist, 25 í sviðslistum og 32 í tónlist.

Enigma

Videoverkið Enigma eftir Sigurð Guðjónsson tók á móti gestum. Sigurður er aðjúnkt við myndlistardeild skólans og er fulltrúi okkar Íslendinga á Feneyjartvíæringnum á næsta ári. 
enigma.jpg
Enigma eftir Sigurð Guðjónsson

 

,,Stórar vélar og fjölþætt tækjanotkun, fyrirferðarmiklir innviðir og hinar margvíslegu eftirlits- og greiningaraðferðir, sem tækni nútímans býr yfir, gera mannsauganu fært að skoða afskekktustu kima efnisheimsins. Verkið Enigma flytur okkur á óljóst landsvæði, þar sem áhorfandi leggur upp í rannsóknarleiðangur í gegnum kolefni með hjálp rafeindasmásjár. Umhverfið gæti virst kunnuglegt en er að sama skapi dularfullt tilsýndar og minnir um margt á landslag plánetna á borð við Mars, eða myndir úr djúpum sprungum á hafsbotni. Þessi sýn væri ekki möguleg án lofttæmis rafeindasmásjárinnar þar sem rýmið er snautt af loft- og gastegundum, og tímalaust. Má því leiða líkur að því að innan rýmis verksins skapist tími sem líði líkur framvindu í ólínulegri, torskilinni frásögn. Tími verksins ákvarðast af sjónrænni framsetningu sem samanstendur af sveiflum og takti í minnsta hugsanlega skala, nánast í dularveröld. Hið gríska esoterikos er notað um það sem tilheyrir innsta hring, lýsir „innstu kimum, fráteknum fyrir meistarana“ og lýsir nákvæmlega framsetningu hins leynda sem filman afhjúpar. Enn og aftur beitir listamaðurinn tækninni til að veita aðgang að þeim kimum eðlisheimsins sem alla jafna eru huldir. Þrátt fyrir nákvæmnina sem er nauðsynleg í tilrauninni virðist sem listamaðurinn vildi gjarna sjálfur sleppa hendinni af listaverkinu og taka að sér hlutverk áhorfanda.“
 
Texti frá Mónicu Bello, sýningarstjóra, birt með leyfi myndlistarmanns.

Fríða Björk Ingvarsdóttir, rektor, fjallaði um sannleikan í ávarpi sínu.

,,...hvort sem sannleikurinn er fólginn í forminu, hugmyndinni, útfærslunni, afstöðunni eða jafnvel afstöðuleysi.
Í umfjöllun um skáldskap er iðulega vísað til þess að hið skáldaða sé sannara en raunveruleikinn, því raunveruleikinn er svo óræður. Oftast byggist hann á takmörkuðu sjónarhorni, viðhorfi eða dómgreind fárra, eða með öðrum orðum á þeim fáu breytum sem okkur eru aðgengilegar hvort heldur sem einstaklingar eða sem hluti af stærri heild. Raunveruleikinn - og sá sannleikur sem í honum felst -  er því jafn misleitur og við erum mörg. 
 
Skáldskapurinn hins vegar, byggir á þeirri kjörnuðu reynslu sem höfundur dregur saman úr sameiginlegu minni mannsanda allra tíma og meitlar í listaverk með einarðri listrænni sýn. Það er vegna þessa eðlismunar á afstöðu listanna til sannleikans - eða raunveruleikans -  sem listin hefur sig upp úr hversdeginum og birtist sem jafn mótandi afl inn í heimsmyndina og raun ber vitni, í gegnum árþúsundin.  “
Fríða í ræðustól.jpeg

Fríða Björk Ingvarsdóttir, rektor

Sjá má ávarp rektors í fullri lengd hér að neðan.

 

Kristín Þorkelsdóttir var hátíðarræðumaður í ár.

 
Kristínu Þorkelsdóttur má sannarlega kalla brautryðjanda á sviði grafískrar hönnunar hérlendis en hún á að baki langan og aðdáunarverðan feril. Kristín hefur hannað umbúðir um matvæli, auglýsingar, bókakápur og þjóðþekkt merki sem mörg hafa verið notuð í yfir fimmtíu ár. Það verk Kristínar sem hvað flestir þekkja mun líklegast vera íslensku peningaseðlarnir sem hún hannaði ásamt hönnuðinum Stephen Fairbairn.
 
Orð Kristínar til útskriftaefnanna voru hvatning til þess að hætta aldrei að leita og skapa. Þessum tímamótum má líkja við brumknapp, upphaf með lögum sem hægt er að fletta í sundur og leita að innbælstri, hann má finna alls staðar sér í lagi í náttúrunni. 

 

_mg_7922.jpeg
Kristín Þorkelsdóttir
 
 

Kristínu Þorkelsdóttur má sannarlega kalla brautryðjanda á sviði grafískrar hönnunar hérlendis en hún á að baki langan og aðdáunarverðan feril. Kristín hefur hannað umbúðir um matvæli, auglýsingar, bókakápur og þjóðþekkt merki sem mörg hafa verið notuð í yfir fimmtíu ár. Það verk Kristínar sem hvað flestir þekkja mun líklegast vera íslensku peningaseðlarnir sem hún hannaði ásamt hönnuðinum Stephen Fairbairn.

Orð Kristínar til útskriftaefnanna voru hvatning til þess að hætta aldrei að leita og skapa. Þessum tímamótum má líkja við brumknapp, upphaf með lögum sem hægt er að fletta í sundur og leita að innbælstri, hann má finna alls staðar sér í lagi í náttúrunni.

 
 
KP Hyllt 2021.jpeg
Nemendur, starfsfólk og gestir hylltu Kristínu í lok ávarps hennar.
Í lok ávarps hennar stóð allur salurinn á fætur henni til heiðurs og klappaði ákaft enda er ferill hennar einstakur og hún fyrirmynd þeim sem á eftir koma.
 
Hér má sjá umfjöllum um Kristínu. 
 

KOK

 
Brot úr óperunni KOK var flutt við mikin fögnuð viðstaddra. Hanna Dóra Sturludóttir er fagstjóri söngs við tónlistardeild skólans og flutti ásamt þeim Katei Buckley hörpuleikara og Unu Sveinbjarnadóttur fiðluleikara. Videoverk Sigurðar Möllers Sívertssonar skapaði einstaklega fallega umgjörð um flutninginn sem og búningar Steinunnar Eyju Halldórsdóttur en hún er Hollnemi útskrifuð frá hönnunardeild sem fatahönnuður. Leikstjóri verksins er Kolfinna Nikulásdóttir en hún er einnig hollnemi, er útskrifaður sviðshöfundur frá sviðslistadeild skólans. 
KOK2021.jpeg
KOK, Hanna Dóra Sturludóttir, Katie Buckley og Una Sveinbjarnadóttir, videoverk Sigurður Möller Síverstsen
 
Óperan KOK er eftir Þórunni Grétu Sigurðardóttur og er byggð á samnefndri ljóðabók Kristínar Eiríksdóttur sem kom út árið 2014. Verkið fjallar á óvenju beinskeyttan hátt um samband og sambandsleysi, ást og andúð, þrá og skeytingarleysi þar sem mannlegt eðli er afhjúpað í öllum sínum dýrlega breyskleika.  Verkið var sýnt í Borgarleikhúsinu í maí síðastliðnum. 
 
 
 

Ávörp nemenda

 
Hefð er fyrir því að fulltrúar nemenda flytji ávarp fyrir hönd samnemenda sinna í hverri deild. Meðal þess sem þau komu inn á í ávörpum sínum voru áhrifin sem heimsfaraldurinn höfðu á nám þeirra og upplifun, hversu dýrmætir samnemendur þeirra eru, þakklæti til alls samfélagsins sem býr í Listaháskólanum, sú seigla sem þarf til að nema og reka listnám í ekki stærra landi en Ísland er og stolt yfir því að tilheyra þessum glæsilega hóp. Fulltrúar nemenda í ár voru; Vignir Eyþórsson fyrir hönd arkitektúrdeildar,  Berglind Ósk Hlynsdóttir fyrir hönd hönnunardeildar, Sandra Ómarsdóttir fyrir hönd listkennsludeildar, Fríða Katrín Bessadóttir fyrir hönd myndlistardeildar, Hákon Örn Helgason fyrir hönd sviðslistadeildar og þær Sigríður Salvarsdóttir og Una María Bergmann fyrir hönd tónlistardeildar.
 
Blóm - Hafdís2021.jpeg
Sviðið var einstaklega fallega skreytt eftir hirðblómaskreyti Listaháskólans Hafdísi Harðardóttur

 

Við óskum útskriftarárgangi vorið 2021 innilega til hamingju með áfangann.

Ljósmyndir: Eygló Gísladóttir
 
//

Ávarp rektors

Kæru útskriftarnemar, kæra samstarfsfólk og aðrir góðir gestir!
 
I
Á þessum tímamótum í lífi ykkar, sem að lokinni þessari athöfn gangið út sem listamenn, langar mig til að ávarpa eitt hvikulasta hugtak heimsmyndarinnar - sjálfan sannleikann. 
 
Því glíma listanna við sannleikann er í einhverjum skilningi glíma hvers samtíma við ástand mannsandans. Þá gildir einu hversu afstæð listsköpun er, hún er alltaf að fást við þá sömu glímu - hvort sem sannleikurinn er fólginn í forminu, hugmyndinni, útfærslunni, afstöðunni eða jafnvel afstöðuleysi. 
 
II
Í umfjöllun um skáldskap er iðulega vísað til þess að hið skáldaða sé sannara en raunveruleikinn, því raunveruleikinn er svo óræður. Oftast byggist hann á takmörkuðu sjónarhorni, viðhorfi eða dómgreind fárra, eða með öðrum orðum á þeim fáu breytum sem okkur eru aðgengilegar hvort heldur sem einstaklingar eða sem hluti af stærri heild. Raunveruleikinn - og sá sannleikur sem í honum felst -  er því jafn misleitur og við erum mörg. 
 
Skáldskapurinn hins vegar, byggir á þeirri kjörnuðu reynslu sem höfundur dregur saman úr sameiginlegu minni mannsanda allra tíma og meitlar í listaverk með einarðri listrænni sýn. Það er vegna þessa eðlismunar á afstöðu listanna til sannleikans - eða raunveruleikans -  sem listin hefur sig upp úr hversdeginum og birtist sem jafn mótandi afl inn í heimsmyndina og raun ber vitni, í gegnum árþúsundin.  
 
III
Ef við getum lagað okkur að þeirri hugmynd að sannleikurinn búi í skáldskapnum þá vitum við líka að hann er ekki algildur - og að honum eru margar leiðir. Hann er óstöðugur og síbreytilegur. 
 
Í verki sem ber þann dásamlega (og óþýðanlega) titil "Species of Spaces and Other Pieces", eftir franska rithöfundinn, Georges Perec, segir hann frá tilraunum okkar til að lýsa heiminum og skapa nýja heima. Og rými verður til, segir hann " [...] með orðum einum saman, með merkjum sem dregin eru á auða síðu, til þess að lýsa rýminu: til að nefna rýmið, draga það upp, líkt og siglingakortagerðarmenn fyrri tíðar gerðu þegar þeir mettuðu strandlengjurnar af nöfnum á höfnum, höfðum og víkum, þar til ekkert nema þéttriðinn borði orða, greindi landið frá hafinu." (tilvitnun lýkur)
 
Það sem Perec afhjúpar í þessari lýsingu sinni á tilurð rýmisins er auðvitað fyrst og fremst kraftur sköpunarinnar; kraftur til þess að búa eitthvað til úr engu - en einnig afstæði sannleikans. Því auðvitað getur kort af heiminum aldrei verið heimurinn sjálfur, sama hversu nákvæmlega maður skoðar, rýnir, yrðir og greinir frá.  
 
Eða hvað?
 
Ég hreinlega veit það ekki. Þið munið sjálf eyða lífinu í að kljást við þessa spurningu, við þennan hvikula sannleika -  sem engin leið er að fanga. Eina haldreipið er sú staðreynd að í hverju og einu ykkar eru fólgnir óendanlegir möguleikar til að gera eins og Georges Perec. Til að eima heiminn, skynjunina, tilfinningarnar, skoðanirnar, formið, ljósið, hljóðið og litina - hreinlega allt það sem listirnar spanna, í ykkar eigin sköpun. 
 
"Sannleikurinn er land án vegvísa", sagði indverski heimspekingurinn Krishnamurti sem var mikill áhrifavaldur í endurskoðun hugsuða síðustu aldar á ríkjandi hugmyndafræði. "Þangað verður ekki komist eftir nokkrum slóða, hvorki í gegnum trúarbrögð né með samtakamætti," hélt hann áfram, því "sannleikurinn er takmarkalaus, lýtur engum lögmálum og að honum eru allar leiðir ófærar. Hann er ekki hægt að skipuleggja, og því ættu engin samtök að vera til í nafni sannleikans og enginn að gera tilraun til að þvinga hann fram." (tilvitnun lýkur)
 
Og það er í þessu landi án vegvísa sem við hittum listirnar fyrir; óháðar, óræðar, ófyrirséðar og án flokkadrátta. 
 
IV
Kæru útskriftarnemar. Það hefur verið hlutverk Listaháskólans að brýna ykkar gagnrýnu hugsun samhliða listsköpuninni í ykkar háskólanámi. Færa ykkur splunkunýja þekkingu, verkfæri og vopn til að skoða og skapa, til að breyta og bylta. Þið eruð boðberar nýrra leiða og nýrrar hugsunar. 
 
Nú þegar kemur að leiðarlokum við útskrift bíða ykkar óteljandi möguleikar. Það er ykkar að nýta þann innri kraft sem þið búið yfir til þess að skapa eitthvað merkingarbært úr lífinu, ekki bara fyrir sjálf ykkur heldur heiminn allan. Að vera í senn auðmjúk og sönn sannleikanum. Varpa ekki skugga á sannleiksleit annarra, heldur virkja krafta ykkar án fordóma. Leita ekki troðinna slóða heldur feta leiðir sem tilheyra ykkur og engum öðrum. 
 
V
Það verður vart hjá því komist að minnast á þá staðreynd að þið hafið tekist á við heimssögulegt ástand nærri helming ykkar háskólagöngu. Það verður hlutverk ykkar kynslóðar að meta ástand heimsins fyrir og eftir þetta ástand - kasta því fyrir róða sem einungis er til trafala, en halda til haga því sem við höfum lært af þessari reynslu, heiminum til hagsbóta. 
 
Þangað til skulum við þó ekki gleyma að allt tekur endi að lokum - líka hamfarir á borð við heimsfaraldur. Ég heyrði fyrir skömmu sagt frá leigubílstjóra sem lét þau fleygu orð falla að lífið væri þannig að ýmist væru rauð ljós að verða græn, eða græn ljós að verða rauð. Við höfum verið á rauðu ljósi í margvíslegum skilningi undanfarin misseri, en nú er komið grænt - í það minnsta gult - og þið farið á fljúgandi ferð út í óvissuna.
 
Ég hef sjaldan á ævinni verið stoltari en af ykkur, þessum hópi sem nú útskrifast. Það hefur verið mikill lærdómur að kynnast þrautseigju ykkar, sem birtist t.d. í þessu útskriftarverki sem ég fékk þann heiður að bera í dag og hefur eins og þið sjáið krafist ómældrar þolinmæði auk sterkrar listrænnar sýnar. 
 
Ég hef einnig dáðst að æðruleysi ykkar allra á rauða ljósinu - og þá á ég við bæði nemendur og starfsfólk Listaháskólans. Ég þakka ykkur af öllu hjarta fyrir ykkar ómældu vinnu, lausnarmiðað hugarfar og trúmennsku gagnvart okkar háleitu markmiðum og kröfum um gæði á fræðasviði listanna. Þar hefur hvergi verið slegið af, þrátt fyrir að verkefnin væru ærin og hamrarnir virtust margir ókleifir um stund. 
 
Ég óska ykkur velfarnaðar frammi fyrir þeim áskorunum sem bíða ykkar og hvet ykkur til að taka hverri þeirra fagnandi, þannig að listirnar með sínum mikla samfélagslega krafti verði áfram það uppbyggilega afl sem skýtur sterkustu stoðunum undir vitund okkar og skynjun. 
 
 
Með þökkum fyrir áheyrn ykkar allra.