Útskriftarathöfn Listaháskóla Íslands vorið 2023 fór fram í Silfurbergi Hörpu þann 16.júní. Þar voru útskrifaðir 162 nemendur frá sex deildum skólans; arkitektúrdeild, hönnunardeild, listkennsludeild, myndlistardeild, sviðslistadeild og tónlistardeild.
Fríða Björk Ingvarsdóttir, rektor, var á heimspekilegum nótum í ávarpi sínu. Þetta var í síðasta sinn sem Fríða Björk útskrifar frá Listaháskólanum en tíu ára ráðningafestu hennar líkur í sumar.
“Listin er því ekki pólariseruð í eðli sínu og það er ykkar að standa vörð um þau eigindi hennar. Þvert á móti skapar listin skilning á því hvað felst í mennskunni og mótar skynjun okkar á samhengi tilvistarinnar. Hún sprettur úr okkar innra manni, úr tilfinningum okkar og reynslu, samhliða því að vera tjáningarmáti sem hægt er að beita jafnt við sjálfsskoðun og til samfélagslegra áhrifa.”
- úr ávarpi Fríðu Bjarkar, rektors. Það má lesa ávarpið í heild sinni hér að neðan.
Á athöfninni komu fram þeir Peter Maté píanóleikari og Kristinn Sigmundsson söngvari og fluttu verkin Langt er síðan lagt var af stað og Vornótt. Kyrrð. Og nú sofa úr ljóðaflokknum “Á þessum kyrru dægrum” eftir Tryggva M Baldvinsson og ljóð eftir Hannes Pétursson úr ljóðabókinni Haustaugu.
Björk Guðmundsdóttir var sæmd heiðursdoktorsnafnbót Listaháskóla Íslands. Þetta er í annað sinn í sögu skólans sem nafnbótin er veitt. Á útskriftarathöfninni voru flutt tvö verk eftir Björk. Annars vegar Atopos í flutningi Murmura og hins vegar tabula rasa í flutningi viibra. Hér er frétt um heiðursdoktorsnafnbótina.
Nemendur er fluttu ræðu fyrir hönd sinnar deildar á athöfninni voru:
16.06.26
Kæru gestir, samstarfsfólk, heiðursgestur og síðast en allra helst; kæru útskriftarnemar!
I
Undanfarin misseri hefur umræða um stöðu lýðræðisins verið töluvert í deiglunni, ekki síst á alþjóðavettvangi. Öfgar í stjórnmálahreyfingum og stjórnmálamenn sem byggja fylgi sitt á popúlisma hafa litað heimsmál síðasta áratugar á vesturlöndum. Afleiðingarnar eru hatrammir flokkadrættir sem ýta undir sundrungu og hnútukast, frekar en samstöðu og samvinnu. Jafnvel opinber orðræða um hversdagslegustu mál hvort heldur sem er á samfélagsmiðlum eða í fjölmiðlum byggir of oft á átökum gagnstæðra póla þar sem okkur er gert að skipa okkur í fylkingar eða vera dæmd ómarktæk ella.
Slík pólarisering felur í sér skort á skilningi allra þeirra ólíku flata sem fólgnir eru í rófinu á milli öfganna. Skort á mikilvægri hæfni til að meta margbreytni veruleikans, skoðanna, tilfinninga og síðast en ekki síst sjónarhorna, líkt og einn helsti heimspekingur samtímans, Youval Harari, bendir á.
Pólarisering lýsir umfram allt skorti á umburðarlyndi og um leið á hæfileikanum til að gera málamiðlanir, heildinni til heilla. Málmiðlanir eru grunnþáttur í lýðræðinu og í raun kjölfestan í viðgangi lýðræðislegrar umræðu. Það er nefnilega ekkert lýðræðislegt við það að knýja sitt fram í trássi við aðra, þegar hægt er komast að niðurstöðu sem þjónar hag allra, eða er í það minnsta ásættanleg fyrir flesta þegar kemur að grunngildum og viðmiðum í samfélagsmyndinni.
II
Ég nefni þetta vegna þess að svo virðist sem lýðræðinu stafi umtalsverð ógn af þeim flokkadráttum sem í pólariseringunni liggja - ógn sem hægleg gæti leitt til mikilla umskipta á þeirri samfélagsgerð sem tryggir t.d. hvað mest frelsi til tjáningar. Hvern hefði t.d. grunað að árás yrði gerð á þinghús Bandaríkjanna fyrir tilstilli slíkra afla? Eða að stríð í Úkraínu myndi magnast upp í þá eyðileggingu sem nú er orðin, með hrikalegum afleiðingum á stríðhrjáðum svæðum, en einnig fyrir heimsbyggðina alla sem á tímum mikillar alþjóðavæðingar reiðir sig á samvinnu um matvælaframleiðslu, orkunýtingu, fólks- og vöruflutninga. Þá eru ótalin óafturkræf umhverfisspjöll stríðsrekstursins á þeim viðkvæma hnetti sem við eigum í sameiningu.
Framtíð okkar og velferð, að ógleymdu frelsi til tjáningar, byggir á mætti lýðræðisins og getu okkar til að styrkja það og þróa. Það er á ábyrgð okkar allra að taka þátt í því ferli uppgötvana sem fólgið er í rannsókn á viðhorfum og gildum annarra, þar sem hlustun og umburðarlyndi markar grundvöll mennskunnar og myndar sameiginlegan grunn skilnings og lífshamingju.
III
En af hverju að gerast svo margorð um lýðræðið á þeim tímamótum sem þið standið nú á? Jú, það vegna þess að listirnar eru - og hafa alltaf verið - eitthvert það sterkasta pólitíska afl sem mannskepnan býr yfir.
Í einum af sínum lykilritum, Metapolitics, heldur franski heimspekingurinn Alain Badiou, því fram að heilbrigð og uppbyggileg stjórnmálaumræða sé annars vegar afurð sannleiksleitar og hinsvegar staðfesting á jafnræði allra sem að umræðunni koma. Þessi sannleiksleit á jafnræðisgrundvelli er lykillinn að frjóu og uppbyggjandi samtali og í kjölfarið lausnum við ögrunum og áskorunum samtímans.
Það sem er þó etv. áhugaverðast í hugmyndafræði Badiou, er hversu mikið vægi hann gefur listunum við þróun mannsandans. Hann telur listirnar vera eina af fjórum grunnstoðum heimspekilegrar hugsunar, og þá ekki síst vegna óþrjótandi afls listanna í leit sinni að sammannlegum sannleika.
Hinar stoðirnar þrjár sem hann síðan nefnir eru síðan vísindin, ástin og stjórnmálin.
Ef Badiou hefur rétt fyrir sér þegar hann segir að listirnar framleiði sannleika og að þær, ásamt ástinni, vísindunum og stjórnmálunum séu efst í "stigveldi sannleiksleitarinnar" eins og hann orðar það, þá eruð þið sem hér sitjið í dag, fólkið sem á eftir að hafa hvað mest vægi við að móta lífvænlega framtíð.
Það er ykkar að vinna að samstöðu um sjálfbæra og ábyrga nýtingu auðæva jarðar í allra þágu; ykkar að krefjast framtíðar þar sem öll jarðarbörn eiga jafnt tilkall til hlutdeildar í lýðræðislegu samtali og ákvarðanatöku. "Þegar upp er staðið þarf listamaðurinn ekki á neinum að halda", að mati Badiou, líkt og svo margir aðrir í störfum sínum, því sannleiksleitin ein drífur listamanninn áfram í sínu skapandi ferli.
IV
Sannleiksleitin er því veganestið sem þið takið með ykkur inn í framtíðina að lokinni útskrift við Listaháskólann. Þannig nýtið þið listina sem það mikla og djúpstæða afl sem hún sannarlega er í öllum okkar skynræna heimi. Því þrátt fyrir að innibera sannleikann eru listirnar aldrei niðurnjörvaðar, heldur iðulega svo opnar fyrir tíðaranda og sjónarhornum að þær geta auðveldlega verið sannar þvert á árhundruðin, þvert á ólíka menningarheima og öll önnur mæri, sem alla jafna setja mannsandanum skorður.
Tengsl lista og lýðræðis eru því hvort tveggja í senn, skýr og óræð. Og þó listin geti sannarlega lagt sitt af mörkum í pólitískri orðræðu með beinskeyttum hætti, þá er listin ekki síður sundrandi form, og sem slík mikilvægt tæki til umbreytingar og framfara í pólitískri orðræðu, líkt og sannast hefur í gegnum aldirnar.
Listin er því ekki pólariseruð í eðli sínu og það er ykkar að standa vörð um þau eigindi hennar.
V
Þið með ykkar þekkingu og sköpunarkraft búið sem sagt yfir gríðarlegu hreyfiafli, sem fátt getur staðið í vegi fyrir annað en stöðnuð viðhorf og óbilgirni. Sköpunarferlið er sannur þekkingarvaki; það er rannsóknarafl og í þeim eiginleika liggur vægi náms ykkar og máttur í ykkar lífi og annarra.
Með því að vera rannsakandi, greinandi, hugrökk og tilbúin til að láta verkin leiða ykkur út í óvissuna, eruð þið að skapa ný viðmið, ný viðhorf og nýja framtíð. Þið standið á tímamótum; við straumbrotið á nýrri heimsmynd þar sem listirnar þurfa - nú, rétt eins og í gegnum árhundruðin - að vera í forystu fyrir nýja og ábyrga hugsun.
Ég þakka áheyrnina!