Útskriftarathöfn Listaháskóla Íslands vorið 2020 fór fram með hátíðlegum hætti í Eldborg Hörpu þann 19. júní. Útskrifaðir voru 124 nemendur, 84 á bakkalárstigi og 40 á meistarastigi.

Fríða Björk Ingvarsdóttir, rektor, fjallaði um breytta heimsmynd í kjölfar heimsfaraldurs og byltinga í ávarpi sínu.

„...á tímum heimsfaraldurs og hugmyndafræðilegrar byltingar er mikilvægt að muna að það ekki bara mannfyrirlitning, fordómar, ranglæti og eiginhagsmunir sem rótast upp þegar mikið reynir á. Heldur einnig dirfska, samstaða, skilningur, vísindi, menning og listir. Allt það besta í mannlegu atgervi sem heimsbyggðin hefur notið og þroskast með í gegnum árþúsundin“.

FBI útskrift 2020.jpg

Fríða Björk Ingvarsdóttir rektor Listaháskólans 

Mennta- og menningarmálaráðherra frú Lilja Dögg Alfreðsdóttir var hátíðarræðumaður í ár.

Í ávarpi sínu hvatti hún útskriftanemana til þess að fylgja innsæi sínu. Hún hrósaði þeim, rektor og öðru starfsfólki skólans fyrir þrautseigju, hugsrekki og styrk að hafa tekist á við námið á þessu erfiðu tímum sem fylgdu Covid. Einnig vék hún að húsnæðisvanda skólans og minnist þess þegar nemendur gengu á fundi við þá flokka sem voru í framboði 2017 og hvöttu þau til aðgerða. Sú aðgerð og framganga rektors og stjórnenda skólans á stóran þátt í því að húsnæðisvandinn verði leystur. Hún sagðist vera bjartsýn á að bráðlega fari að bera til tíðinda og vonandi í náinni framtíð verði farið af stað í byggingu á nýju húsnæði fyrir skólann. 
LDA MMR á útskrift 2020.jpg
Lilja Dögg Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra 

Marmarabörn 

Hin margrómuðu og verðlaunuðu Marmarabörn fluttu tvö brot úr verki sínu Eyður, en verkið og aðstandendur þeirra hlutu 3 Grímuverðlaun nú fyrr í vikunni, en sýningin var tilnefnd til alls 10 verðlauna. Marmarabörn er hópur listamanna sem vinnur með samsköpunaraðferðir og hefur áhuga á leiksviðinu sem stað þar sem ómögulegum verkefnum er fagnað.
Í verkinu Eyðum nálgast hópurinn öldugang sögunnar en þar gera fimm strandaglópar á eyðieyju atlögu að því að skapa sér nýja veröld eftir minni.
Marmarabörn útskrift 2020.jpg

Marmarabörn fluttu brot úr verkinu Eyður. 

 

Hefð er fyrir því að fulltrúar nemenda flytji ræðu fyrir hönd samnemenda sinna í hverri deild. Fulltrúar nemenda í ár voru; Guðrún Helena Kristjánsdóttir og Malgorzata Kowasz fyrir hönd hönnunar- og arkitektúrdeildar, Ingunn Elísabet Hreinsdóttir fyrir hönd listkennsludeildar, Gréta Jónsdóttir og Hugo Llanes fyrir hönd myndlistardeildar, og Kurt Uenala fyrir hönd tónlistardeildar.
 

Við óskum útskriftarárgangi vorið 2020 innilega til hamingju með áfangann.

//

Ávarp rektors

Ávarp Fríðu Bjarkar Ingvarsdóttur, rektors.
Háttvirtur mennta-og menningarmálaráðherra, samstarfsfólk, góðir gestir - og síðast en samt allra helst; kæru útskriftarnemar!
 
I
Það er allur heimurinn undir - eins og við sáum hér á sviðinu fyrir augnabliki. Það er bókstaflega allur heimurinn undir þetta vor - og þvílíkt vor!
Marmarabörnin, sem í dag sýna okkur brot úr marg-Grímuverðlaunaðri sýningunni sinni Eyður, vísa í leik sínum með hnöttinn í Einræðisherra Chaplins.  Kvikmynd sem árið 1940, í upphafi heimsstyrjaldar, sýndi hugrekki hans sem listamanns í beittri ádeilu á firringu einvaldsins Hitlers.
Eins og Chaplin, afhjúpa Marmarabörnin heiminn sem leiksopp sjálfhverfra afla sem í oflæti sínu tefla tilvist okkar allra í voða. Áhorfendur, í það minnsta þeir sem sáu sýninguna í heild sinni í Þjóðleikhúsinu í vetur, skynja vel þá undirliggjandi ógn sem liggur í þessum leik, enda afhjúpar hann hvernig litlu má skeika til að forsendur lífsins kollvarpist.
Í Eyðum Marmarabarnanna er þessi vísun í fortíðina áhrifaríkt tæki til að tala til samtímans um heiminn og stöðu mannsandans í víðu samhengi sem varðar okkur öll. Og það leið ekki langur tími frá frumsýningunni á Eyðum þar til þetta samhengi sagði til sín og heimurinn nánast stöðvaðist. Ekki á hringferð sinni um sólu reyndar, heldur var það heimi siðmenningarinnar sem hlekktist alvarleg á. Allt það sem tilheyrir okkur mannskepnunni og okkur hættir til að líta á sem eina tilgang tilvistarinnar, hægði á sér að því marki að gruggið af gjörðum okkar settist í heimshöfunum og í myrkustu mengunarborgum sást skyndilega til sólar.  
Heimskreppan sem við göngum nú í gegnum í heimsfaraldrinum felur því í sér sömu áminningu og sviðsverk Marmarabarnanna. Hún er áminning um ábyrgð okkar allra á velferð hvors annars í stóru sem smáu. Hún er áminning um hlutdeild okkar sjálfra í þeim kerfum sem viðhalda heildinni. Áminning um samstöðu, um nauðsyn undirstöðukerfa á sviði heilbrigðis og menntunar - áminning um að draga úr mengun, brenna ekki upp gjafir jarðar að nauðsynjalausu og skilja eitthvað eftir til framtíðarinnar sem er þess virði að eiga það.
 
II
Heimskreppan er líka vitundarvakning. Vakning um mátt okkar til að  rétta siðmenninguna af - um máttinn til að hverfa frá fordómum og valdakerfum sem þjóna forréttindum fyrst og fremst. Hún er árétting um að það er bara til eitt mannkyn og við tilheyrum því öll með sama hætti, burt séð frá útliti, uppruna, kyni eða kyngerfi. Burt séð frá þjóðerni, þjóðfélagsstöðu, ríkidæmi eða fátækt.
Í dag 19. júní er þess minnst að þrælahaldi lauk árið 1865 í Bandaríkjunum. Núna 155 árum síðar hefur jafnrétti ekki enn verið náð. Hreyfingin Black Lives Matter, sem náð hefur athygli allrar heimsbyggðarinnar undanfarnar vikur, er krafa um brýna endurskoðun á siðmenningunni. Endurskoðun á manngerðum meinum í lífsviðhorfum og gildum sem í tímans rás hafa verið notuð til að lyfta einum hópi til valda og áhrifa á kostnað annarra, með tilheyrandi þjáningum og ranglæti.
Í dag, 19. júní, er líka kvenréttindadagurinn. Hann er jafnréttisdagur sem okkur ber öllum að fagna því kvenréttindi eru mannréttindi sem varða ekki bara konur heldur einnig karla. Við megum ekki gleyma því að í samhengi sögunnar eru kvenréttindi nánast nýtilkomin. Til marks um það má nefna að síðasta vígið sem stóð í vegi fyrir því að allar konur í Evrópu fengju að kjósa, féll ekki fyrr en 1991 í Sviss og að í Sádi Arabíu fengu konur ekki kosningarétt fyrr en 2011.
Ég tek þessi dæmi vegna þess að þau sýna hversu mikilli andspyrnu mannréttindi geta mætt í manngerðum kerfum - hverju nafni sem þau heita og hvar á hnettinum sem þeim er beitt - ef framfarir eru ekki skýlaust leiðarljós.
Við hljótum því öll að þurfa að svara því brýna kalli Black Lives Matter að ekki einungis jafnrétti, heldur einnig jöfn tækifæri og jöfn virðing, sé grundvallarþáttur í öllum samfélögum. Og jafnframt eina leiðin til að tryggja hverju mannsbarni sanngjarna hlutdeild í hugmyndafræðilegum og efnislegum auðæfum okkar viðkvæma hnattar.
 
III
En: á tímum heimsfaraldurs og hugmyndafræðilegrar byltingar er mikilvægt að muna að það er ekki bara mannfyrirlitning, fordómar, ranglæti og eiginhagsmunir sem rótast upp þegar mikið reynir á. Heldur einnig dirfska, samstaða, skilningur, vísindi, menning og listir. Allt það besta í mannlegu atgervi sem heimsbyggðin hefur notið og þroskast með í gegnum árþúsundin.
Í kjölfar efnhagshrunsins árið 2008 skrifaði bandaríski heimsspekingurinn og baráttukonan Rebecca Solnit bók sem helguð var rannsóknum hennar á hverskonar hamförum og hörmungum. Bókin, A Paradise Built in Hell, er greining hennar á því hvernig ófarir og hörmungar, draga ekki einungis fram veikleikana í hverju samfélagi heldur einnig styrkleikana. Hún tekur dæmi sín víða úr heimssögunni, t.d. af jarðskjálftunum sem rústuðu San Fransisco 1906, af Helförinni í seinni heimsstyrjöldinni og fellibylnum Katrinu sem reið yfir New Orleans árið 2005 með hrikalegum afleiðingum, einkum fyrir íbúa af afrískum uppruna. Í öllum þessum hamförum var harmleikurinn yfirþyrmandi, en á móti reis bylgja fórnfýsi og ómælds hugrekkis sem bjargaði mannslífum og mótaði samfélögin - stór sem smá - með varanlegum og uppbyggilegum hætti.
Solnit heldur því fram að áföll og ögurstundir verði til þess að fólk finni fyrir æðri tilgangi og samheldni. Að áföllin geti orðið til þess að þau öfl víki, sem halda aftur af þeim jákvæðu kröftum sem búa í manninum. Að áföll geti orðið til þess að hann komi loks auga á útópísk gildi sem alla jafna liggja í láginni í hversdagslífinu. Þannig öðlist fólk, sem lifir erfiða tíma, skilning á þeim valdeflandi kröftum sem varða leiðina að betri heimi fyrir tilstilli samvinnu eða fórna, sjálfri siðmenningunni til heilla.  
 
IV
Kæru útskriftarnemar. Þið haldið nú út í lífið með splunkunýja þekkingu og vel brýnda hugsun. Þetta eru ykkar verkfæri og vopn í listinni til að skoða og skapa, breyta og bylta. Þið eruð boðberar nýrra tíma og nýrrar hugsunar.
Það er auðvelt að missa móðinn á tímum þar sem á móti blæs. Við finnum það öll sem stóðum í auga þess storms sem hér fór um í vetur og fram á vor. En það er líka hægt að nýta umrót slíkra tíma til að endurmeta og leggja sitt af mörkum í þágu mannréttinda, breyttra lífshátta og endurnýjaðs gildismats.
Þið hafið lifað ótrúlegt vor. Vor þar sem heimurinn stóð á öndinni í einangrun og óvissan var alltumlykjandi. Þið hafið í raun glímt við heimssögulegar aðstæður á ykkar lokaönn í námi og með því ekki bara sannað þrautseigju ykkar og seiglu heldur einnig afl ykkar til að næra sköpunarkraftinn þótt á móti blási.
Það er enn óvissa framundan því hugsanlega sitjum við hér í svikalogni heimsfaraldursins. En ef Rebecca Solnit hefur rétt fyrir sér mun hvað svo sem gerist geta orðið ykkur afl til umbóta - ef markmiðin eru nægilega háleit og hugrekkið virkjað.
Ég óska ykkur velfarnaðar frammi fyrir þeim áskorunum sem bíða ykkar - og hvet ykkur til að taka hverri þeirra fagnandi þannig að listirnar- með sínum mikla samfélagslega slagkrafti - verði áfram það greinandi og uppbyggilega afl sem skýtur stoðum undir menningu okkar og vitund.
 
Ég get ekki látið staðar numið hér í dag án þess að þakka ykkur öllum; nemendum, starfsfólki Listaháskólans, og vitaskuld mennta-og menningarmálaráðherra, ykkar framlag til starfsins í vetur. Fyrir að gefast ekki upp og halda ótrauð út í óvissuna. Við erum ekki bara reynslunni ríkari fyrir vikið, heldur einnig ríkari fyrir sem fræðasamfélag. Samstaðan var engu lík enda skiluðu þær fórnir sem voru færðar þeim árangri sem hvað skírast birtist í ykkur öllum sem eruð að útskrifast hér í dag. Það hafa allir þurft að mæta óvæntum og umfangsmiklum áskorunum með lausnarmiðuðu hugarfari og hugrekki til þess að starfið gengi upp.
Fyrir ykkar þátt í því að gera hið ómögulega mögulegt í vetur, er ég óendanlega þakklát.
 
Ég segi Listaháskóla Íslands vorið 2020 slitið.
Fríða Björk Ingvarsdóttir.