Útskriftarathöfn Listaháskóla Íslands vorið 2018 fór fram í Silfurbergi Hörpu, 9. júní. Þar voru útskrifaðir 144 nemendur frá öllum deildum skólans. 

Athöfninni var streymt á vef skólans og er streymið aðgenginlegt hér: Streymi frá útskrift. 

Fríða Björk Ingvarsdóttir, rektor Listaháskóla Íslands, nefndi í ávarpi sínu að “að þótt höggvið hafi verið á hnút vegna einnar byggingar Listaháskólans, þá er bráðavandi okkar langt í frá leystur. Samningar um aðrar vinnustöðvar eru að renna út og ef ekkert er aðhafst án tafar við uppbyggingu framtíðarhúsnæðis, verður sú starfsemi á götunni innan örfárra missera.

Það er uppsveifla í íslensku samfélagi í dag. Samt sem áður sjá stjórnvöld sér ekki fært að fjárfesta í innviðum þeim sem við þó vitum að munu marka gæfuspor fram á veginn. Listirnar eru það sem stenst tímans tönn, þær eru það sem nærir mannsandann og mennskuna - sem ég nefndi hér í upphafi - styrkja getu okkar til að takast á við þessa óljósu og stundum ógnvekjandi framtíð.”

Fram komu á athöfninni The Post Performance Blues Band, skipað Álfrúnu Helgu Örnólfsdóttur, Sögu Sigurðardóttur, Hrefnu Lind Lárusdóttur og Guðrúnu Heiði Ísaksdóttur, og Guðný Guðmundsdóttir, fiðluleikari, komu fram á athöfninni.

Guðný Guðmundsdóttir hlaut jafnframt heiðursprófessor nafnbót við þetta tilefni en hún lætur af störfum eftir áratugastarf við tónlistardeild Listaháskóla Íslands. 

Heiðursræðumaður á útskriftarathöfninni var Katrín Ólína Pétursdóttir, hönnuður og stofnandi námsbrautar í vöruhönnun við Listaháskóla Íslands. 

Nemendur er fluttu ræðu fyrir hönd sinnar deildar á útskrift voru:

Magnús Dagur Sævarsson, meistaranemi í listkennslu.
Svanhildur Halla Haraldsdóttir og Þorsteinn Eyfjörð, nemendur í myndlist.
Kristín Guðmundsdóttir, nemandi í arkitektúr.
Elísa Elíasdóttir, nemandi í hljóðfæraleik.
Matthías Tryggvi Haraldsson, nemandi á sviðshöfundabraut.

 

Ávarp rektors á útskrift 2018:

Kæru útskriftarnemar, ágæta samstarfsfólk og aðrir gestir!

 

I

Á tímamótum sem þeim er við fögnum hér í dag er okkur eiginlegt að hugsa til framtíðar. Ekki vegna þess að við, frekar en aðrir, vitum hvað framtíðin ber í skauti sér, heldur vegna þess að við höfum tamið okkur að leita bæði bjargráða og framfara í hugmyndinni um framtíðina. Hæfileiki okkar til að hugsa um framtíðina er grunnþáttur í mennskunni og einn þáttur í því sem við vísum til sem "mannsandans" í tilraun til að greina okkur frá öðrum skepnum jarðar.

Samt sem áður er þessi framtíð ákaflega óræð og engin trygging er fyrir því að óskir okkar og væntingar rætist. Skilgreiningar á framtíðinni - sjálfri merkingu orðsins - eru óljósar. Við lifum í "núinu";  á mótum fortíðar og framtíðar þar sem gjörðir okkar sem einstaklinga og viðburðir í umhverfinu nær og fjær, skapa orsakasamhengi - merkingabæra upplifun á meðan hið síkvika og óendanlega stutta augnablik "núsins" þeytir okkur í gegnum tímans rás.

Í glímunni við þessa óvissu framtíð, byggjum við samt sem áður upp tilfinningu fyrir orsakasamhengi. Tilfinningu fyrir grunni til að fóta okkur á og gildum til að sameinast um. Með þessum hætti stuðlum við að velferð okkar og hamingju sem einstaklinga. Og þetta gerum við jafnvel þótt við vitum öll að hugmyndir okkar um tímann og framtíðina eru í raun fullkomlega afstæðar hugsmíðar í stóra samhengi tilvistarinnar. Vísindin hafa fyrir löngu fært sönnur á það.

 

II

Í nýlegri bók franska heimspekingsins Marc Augé, sem heitir einfaldlega Framtíðin, bendir hann á að helsta einkenni okkar samtíma sé sú kreppa sem lýðræðið stendur frammi fyrir í dag. Kreppan er afleiðing þess að orðin eru til yfirþjóðleg kerfi sem móta líf okkar meira en það lýðræði sem við kjósum staðbundið. Til samanburðar nefnir hann þá hugmyndafræðilegu kreppu sem ríkti fyrir einni öld síðan og fólst fyrst og fremst í átökum um hvaða þjóðskipulag væri best til að stuðla að hamingju sem flestra.

Augé telur m.ö.o. að þrátt fyrir að lýðræðið hafi sannað sig að mörgu leyti, þá hafi allar þær tæknilegu uppgötvanir sem markaðskerfi heimsins hafa nýtt sér til að mala gull undanfarna tvo til þrjá áratugi, orðið að helsta viðmiði okkar um velsæld í stað ríkandi hugmynda fortíðar um rétt allra til að vera hamingjusamir.

Hann leiðir líkur að því að þarfir markaðsafla heimsins hafi náð yfirhöndinni umfram það sem einstaklingar áorka í gegnum lýðræðið - að við höfum í raun afsalað okkur réttinum til hamingjunnar fyrir dót. Sumt af þessu dóti er reyndar mjög nytsamlegt en annað fullkomlega óþarft, ekki síst ef horft er til getu jarðar til að framfleyta mannkyninu um ókomna tíð.

Vitaskuld gengu hugmyndir fortíðar um hamingju öllum til handa í alræðis- og einræðisstjórnkerfum ekki upp. En hugmyndir samtímans um efnisleg gæði er byggja á gróðavon alþjóðlegrar massaframleiðslu og neysluhyggju, ganga heldur ekki upp.

 

III

Marc Augé leitar því úrræða í listinni. Í þeim aðferðum sem listræn frumsköpun byggir á - í nálgun og afurðum listanna. Niðurstaða hans er skýr: Tengslin á milli lífsins og listarinnar eru svo náin að erfitt er að greina á milli. Listin fjallar nefnilega í einhverjum skilningi alltaf um þetta margumrædda "nú"; um forsendur framtíðarinnar. Það á jafnt við um gamla list og spunkunýja, því upplifunin sem listin býður er fólgin í því augnabliki sem hennar er notið.

Í listrænni frumsköpun felst þannig opnun frekar en lokun. Listin  afhjúpar hið nýja og hið frumlega og fangar þannig framvindu tilvistarinnar - framtíðina margumræddu. Hún hefur sem slík alla burði til að vera kjarni sjálfvitundar okkar og grundvöllur hamingjunnar hvort heldur er sem einstaklinga eða stærri heilda innan samfélags manna.

 

IV

Fyrir tveimur árum síðan stóð ég hér í þessum sömu sporum og staðhæfði að list væri pólitísk. Og nú staðhæfi ég að hún sé framtíðin. Svona er listin ólíkindaleg skepna.

En á þessum tveimur árum höfum við hér við Listaháskóla Íslands - bæði nemendur og starfsfólk - talað máli háskólanáms í listum við þrjár ríkisstjórnir. Við höfum bent á mikilvægi listanna í sögulegu samhengi, í samtímanum og til framtíðar; fært góð efnahagsleg og hugmyndafræðileg rök fyrir máli okkar.

Afraksturinn er sá að við finnum fyrir sterkum meðbyr - það eru margir sem sjá þörfina og skilja nauðsyn þess að húsnæðihrakningum Listaháskólans - vöggu listsköpunar í landinu - ljúki. Og eftir þrotlausan barning undanfarið ár, hefur okkur nánast tekist að tæma versta húsnæðið og við vitum gjörla hvað þarf til að skapa listmenntun það umhverfi að hún blómstri með þeim hætti sem hún sannarlega hefur afl til.

En þrátt fyrir að mál okkar þokist þannig í rétta átt, þá hefur ekki tekist að tryggja nein haldbær vilyrði fyrir því að slík uppbygging hefjist í fyrirsjáanlegri framtíð. Hennar er til að mynda ekki getið í fjármálaáætlun stjórnvalda þrátt fyrir góðan vilja margra bæði í ríkisstjórn og stjórnarandstöðu.

Við skulum ekki gleyma því að þótt höggvið hafi verið á hnút vegna einnar byggingar Listaháskólans, þá er bráðavandi okkar langt í frá leystur. Samningar um aðrar vinnustöðvar eru að renna út og ef ekkert er aðhafst án tafar við uppbyggingu framtíðarhúsnæðis, verður sú starfsemi á götunni innan örfárra missera.

 

Það er uppsveifla í íslensku samfélagi í dag. Samt sem áður sjá stjórnvöld sér ekki fært að fjárfesta í innviðum þeim sem við þó vitum að munu marka gæfuspor fram á veginn. Listirnar eru það sem stenst tímans tönn, þær eru það sem nærir mannsandann og mennskuna - sem ég nefndi hér í upphafi - styrkja getu okkar til að takast á við þessa óljósu og stundum ógnvekjandi framtíð.

Á þeim tímum síðustu aldar þar sem neysluhyggjan hafði ekki enn náð því tangarhaldi sem hún hefur í dag, byggðum við lykilbyggingar menningar okkar smáa samfélags af miklum stórhug, þrátt fyrir fátækt, kreppu og óstöðugt efnahagslíf. Við byggðum Háskóla íslands, Þjóðleikhús, Þjóðarbókhlöðu, Þjóðminjasafn, Kjarvalsstaði og síðar Hafnarhús, Listasafn Íslands, Borgaleikhús og Borgarbókasafn, svo dæmi séu nefnd.

Hvernig væri samfélag okkar sem byggjum Ísland í dag, ef þessara lykilstofnanna nyti ekki við, eða ef þær ættu sér engan faglegan samastað fyrir starfsemi sína? Svarið er einfalt; Ísland væri fátækt. Fátækt af öllu því sem gerir okkur að þeirri þjóð sem við viljum vera. Samfélag án þeirrar auðlegðar sem ekki verður talin til fjár, er ekki vænlegur jarðvegur fyrir komandi kynslóðir.

 

V

Marc Augé, sem sjálfur er háskólamaður, leggur til að við hættum að nota markaðsmyndlíkinguna margþvældu "fjárfesting" í menntun. Ekki einungis vegna þess að hún gefi ranga hugmynd um tilgang menntunar, heldur vegna þess að hún dregur úr vægi einstaklingsins og samfélagslegs réttar hans til að nýta hæfileika sína og getu til að höndla hamingjuna.

Hann vill að við leyfum menntuninni og listinni að njóta sín á þeim forsendum sem þeim eru eiginlegar, frekar en að vera settar undir hatt lögmála sem gera fjárhagslegan ávinning öðrum ávinningi æðri.

Á þessum tímamótadegi í ykkar lífi kæru útskriftarnemar, er það einlæg ósk mín ykkur öllum til handa að þið þurfið ekki að réttlæta getu ykkar og hæfileika út frá öðru en þeim faglegu forsendum er knýja listsköpun ykkar áfram. Að þið fáið nýtt þá þekkingu sem þið hafið öðlast hér við Listaháskólann sjálfum ykkur og framtíðinni til heilla. Að þið njótið sannmælis fyrir það sem þið standið fyrir og að skilningur á framgangi listnáms hér á landi verði nægilegur til að okkur takist loks að byggja slíku námi það varanlega skjól sem þarf til að standa undir gróskumiklu og heilbrigðu samfélagi.

Þakka ykkur öllum áheyrnina!