Styrkjum úr Rannsóknarsjóði Listaháskóla Íslands hefur verið úthlutað til fimm rannsóknarverkefna akademískra starfsmanna skólans. Er þetta í fjórða sinn sem úthlutað er úr sjóðnum. 

Hlutverk sjóðsins er að styðja við verkefni fastráðinna akademískra starfsmanna með rannsóknarhlutfall og stuðla með því að eflingu rannsókna á fagsviðum skólans. Borin er virðing fyrir ólíkri nálgun verkefna og rannsóknaraðferða, viðfangsefna og framsetningu en skilyrði er að verkefnum sé miðlað á opinberum vettvangi. 
 
Eftirtalin verkefni hlutu styrk úr sjóðnum að þessu sinni:  
  • Að spila er að semja; að semja er að spila. Valdefling flytjandans í umsjón Berglindar Maríu Tómasdóttur, prófessors í tónlistardeild,  
  • Dieter Roth: Grafísk hönnun í umsjón Birnu Gerifinnsdóttur, prófessors í grafískri hönnun, hönnunardeild,  
  • Notkun sjávarleðurs í fortíð og framtíð í umsjón Katrínar Maríu Káradóttur, dósents í fatahönnun, hönnunardeild,  
  • THIS GRACE - SALON. Kóreógrafískur klúbbviðburður undir áhrifum draumalosta í umsjón Sögu Sigurðardóttur, dósents í sviðslistadeild,  
  • Byggjum brýr með þátttöku: Áhrif og aðferðir samfélagstengdra tónlistarverkefna í umsjón Þorbjargar Daphne Hall, dósents og fagstjóra tónlistafræða, tónlistardeild.

 

Verkefni Berglindar Maríu Tómasdóttur, Að spila er að semja; að semja er að spila. Valdefling flytjandans, er starfendarannsókn sem byggir á fyrri verkefnum Berglindar sem skapandi flytjanda. Vegferð hennar sem listamanns liggur til grundvallar rannsókninni – frá því að upplifa takmarkað dagskrárvaldi sitt í hlutverki hins sérhæfða flytjanda til þess að vinna jöfnum höndum að þverfaglegri sköpun og flutningi.  
 
Rannsóknin beinir sjónum að því hvernig megi valdefla tónlistarflytjandann og endurskilgreina sem skapandi listamann sem jöfnum höndum semur og spilar eigin verk, og flytur tónlist annarra? Hver ávinningurinn sé af nálgun þar sem hefðbundin hlutverkaskipan innan samtímatónlistar er afbyggð með þessum hætti? 
Berglind leggur upp með þríþætta þriggja ára rannsókn sem mun verða miðlað á fjölbreyttum vettvangi; með viðtölum sem flutt verða í útvarpsþáttum á Rás 1, auk þess sem þau verða gefin út í bók, á alþjóðlegri tilraunatónlistarstofu sem mun leggja grunn að nýju þverfaglegu verki auk þess sem haldin verður ráðstefna þar sem umfjöllunarefnið er hinn skapandi flytjandi.  
 
 
Verkefni Birnu Gerifinnsdóttur, Dieter Roth: Grafísk hönnun leggur upp með að gera grafískum verkum Dieter skil en hingað til hefur ferill hans sem myndlistamanns verið fyrirferðarmeiri.  
Dieter Roth var lærður grafískur hönnuður og vakti fljótt athygli sem slíkur eftir að hann settist hér að árið 1957. Hugmyndir hans og nálgun við grafíska hönnun voru framsæknar og frábrugðnar þeim sem þá voru ríkjandi og verk hans höfðu mótandi áhrif á þróun grafískrar hönnunar hér á landi. Dieter kom að allt í senn að hönnun merkja, bóka og auglýsinga. Hann var auk þess mjög vel að sér í prenttækni og nýtti ólíkar og framúrstefnulegar aðferðir í þróun og framsetningu verka sinna.  
Stuttur grafískur ferill Dieter hefur lítið verið rannsakaður og ekki hefur verið gerð grein fyrir áhrifum hans á fagið hér á landi. Vonir standa til að rannsóknin veiti betri innsýn í þróun grafískrar hönnunar á Íslandi frá tímum módernismans til samtímans, í alþjóðasamhengi. Fyrri hluta rannsóknarinnar felst í sýningu sem opnuð var nýverið í Hönnunarsafni Íslands. Á næsta ári verður  birt grein um rannsóknina í The Anatomy of the Book, í ritstjórn Brad Haylock og Fraser Muggeridge, og útgáfu  hollenska forlagsins Valiz. 
birnag_dieterroth01.jpg

 Birna Geirfinnsdóttir, Dieter Roth: Grafísk hönnun

 

 

Verkefni Katrínar Maríu Káradóttur Notkun sjávarleðurs í fortíð og framtíð hverfist um rannsóknir og þróun sjávarleðurs sem vistvæns hráefnis í tískuiðnaði.
 
Unnið er sérstaklega með náttúrulega litun, prentun og ólíkar saumaaðferðir og leitast við að sýna fram á fjölbreytilega möguleika sjávarleðurs. Leitað er í rann meistara sem varðveitt hafa handverkshefðir fyrri tíma, hér og erlendis, og þær settar í samhengi við nútíma menningu og tækni. Verkefnið er sjálfstæður hluti alþjóðlegs verkefnis um sjávarleður; Developing Fish Skin as a Sustainable Raw Material for the fashion industry (FISHSkin) sem styrkt var af Horizon 2020 þróunar- og rannsóknaráætlun Evrópusambandsins. Verkefnið hefur leitt Katrínu víða, m.a. til Ítalíu og Japan, og ferlið hefur gefið af sér mikið umfang textílprufa. Styrkurinn úr Rannsóknarsjóði gerir Katrínu kleift að vinna í samstarfi við grafískan hönnuð að skrásetningu á niðurstöðum rannsóknarinnar. Þannig megi tryggja með því varðveislu mikilvægra upplýsinga um handverk og sögu, aðferðir og efnistök gera upplýsingar aðgengilegar  til framtíðar. 
 
 
Verkefni Sögu Sigurðardóttur THIS GRACE–SALON er viðburður og bræðingur af dans- og tónlistarinnsetningu og þátttökugjörningi, nokkuð sem mætti lýsa sem kóreógrefískum pönk-klúbbkabarett.
 
Verkefnið byggir á aðferðafræði sem Saga hef þróað í listsköpun sinni og kennslu, og kallar‚ Dreaming Body / Dancing Pleasure en þar eru „sæla“ eða „unaður“ (e. pleasure) og líkamlegt „dreymi“ grunnstef fyrir hreyfingu, tjáningu, form, flutning – og, þátttöku. 
Samstarfsaðilar eru Reykjavik Dance Festival og Dansverkstæðið. Afraksturinn verður fluttur á SALON í Iðnó, 19. nóvember nk. í aðdraganda að lokahófs hátíðanna Reykjavik Dance Festival og LÓKAL. Viðburðurinn verður einnig kvikmyndaður. Þá mun Saga halda opna vinnustofu fyrir alla áhugasama í hátíðarviku Reykjavik Dance Festival og verður nemendum Listaháskólans meðal annars boðið að taka þar þátt. Í vinnustofunni verður aðferðafræðin kynnt á sem aðgengilegastan hátt, nasaþefur gefinn af stúdíó-vinnunni og innsýn veitt inn í rannsóknarferlið. 
sagasig_.jpg
 

 

 
 
Verkefni dr. Þorbjargar Daphne Hall, Byggjum brýr með þátttöku: Áhrif og aðferðir samfélagstengdra tónlistarverkefna byggir á fyrri rannsóknum hennar á sviði tónlistarfræða, tónlistarfélagsfræða og tónlistarkennslufræða/þerapíu.  
 
Til eru margvísleg samfélagsmiðuð tónlistarverkefni þar sem unnið er með fjölbreyttum hópum og samfélögum, t.d. einstaklingum í haldi eða skjólstæðingum heilbrigðisstofnana, einstaklinga á ólíkum aldri, með fjöllbreytta kunnáttu og bakgrunn. Þessi verkefni endurspegla þá hugmyndafræði að tónlist og tónlistariðkun geti haft jákvæð áhrif á fólk og jafnvel breytt lífi þess til hins betra. Meginmarkmið þessa verkefnis er að meta hvort einstakingar sem eru í endurhæfingu og nemendur í háskólanámi í tónlist upplifi að þátttaka þeirra í samfélagsmiðuðum tónlistarverkefnum sé valdeflandi og geri þá að virkum og skapandi samfélagsþegnum. Þrjár hljómsveitir á Íslandi og Bretlandi verða rannsakaðar með blandaðri aðferðafræði sem byggir á þátttökuathugun, eigindlegum viðtölum, spurningakönnunum, starfendarannsókn og rannsóknarkvikmyndagerð. Niðurstöðum verkefnisins verður miðlað á margvíslegan hátt; með fræðilegum tímaritsgreinum, opinberum fyrirlestrum og á ráðstefnum, í vinnusmiðjum fyrir fagvettvang, í skýrslu og á málþingi með hagaðilum, og rannsóknarheimildamynd fyrir hagaðila og almenning. 
thorbjorg_.jpg
 

 

 
 
Stjórn Rannsóknasjóðs Listaháskóla Íslands 2022 skipuðu Anna Líndal myndlistarmaður, Steinunn Ketilsdóttir, deildarforseti sviðslista og Tryggvi M. Baldvinsson, deildarforseti tónlistar.