Hér má finna upptöku frá fyrirlestri Unu Bjargar Magnúsdóttur myndlistarkonu sem fór fram föstudaginn 5. mars síðast liðinn. Athugið að fyrirlesturinn er á ensku. 

Una Björg lauk B.A.-gráðu í myndlist við Listaháskóla Íslands 2014 og stundaði síðar M.A. nám í myndlist við École cantonale d’art de Lausanne í Sviss, þaðan sem hún útskrifaðist 2018. Una Björg hefur verið virk á sýningarvettvangi hérlendis frá því að hún lauk námi, hlotið styrki, listamannalaun og átt frumkvæði að áhugaverðum samsýningum og uppákomum á myndlistarsviðinu.

Una Björg vinnur með ýmsa muni og uppstillingar í verkum sínum sem oft á tíðum eru hreyfanleg eða gefa frá sér hljóð. Hið ofurkunnulega birtist oft í innsetningum hennar, skúlptúrískum sviðsetningum og myndverkum, um leið og afbygging á sér stað er ögrar og afhjúpar.