Föstudaginn 23. nóvember hélt Hekla Dögg Jónsdóttir stórskemmtilegan fyrirlestur um verk sín og vinnuaðferðir í fyrirlestrarsal Listaháskólans að Laugarnesvegi 91.

Hekla Dögg Jónsdóttir kynnti nokkur leiðarstef og einkenni verka sinna ásamt því að fara í gegnum vinnuferilinn.

Verk Heklu Daggar hafa gjarnan einhverja virkni og eru knúin áfram af áhuganum á augnabliki ummyndunar og efnahvarfa. Hún hefur áhuga á því óræða millirými sem verður til við yfirfærslu, til dæmis þegar hún notar aðgengilega nytjahluti og framandgerir þá með því að færa þá yfir í annað samhengi. Virkni og efniseiginleiki skarast á við töfra og andlega þætti. Hekla bæði fangar og býr til aðstæður fyrir þessar heillandi ummyndanir sem listin gefur svo frjálst og opið rými.

Hekla Dögg Jónsdóttir (f. 1969) stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1991 – 1994. Hún sótti skiptinám við Listaháskólann í Kiel í Þýskalandi og viðbótarnám við Staatliche Hochschule für Bildende Künste í Frankfurt am Main. Að loknu námi í Þýskalandi hélt Hekla til Bandaríkjanna til náms við Listaháskólann í Kalíforníu, California Institute of the Arts þaðan sem hún lauk MFA prófi árið 1999. Allt frá útskrift hefur Hekla verið virk í sýningarhaldi og hefur sýnt í söfnum og á öðrum sýningarstöðum bæði hér heima og erlendis, meðal annars í Listasafni Íslands, Listasafni Reykjavíkur, Tate Modern safninu í London og Truck samtímalistamiðstöðinni í Calgary í Kanada.
Hekla hefur gegnt stöðu prófessors í myndlist við Listaháskóla Íslands frá árinu 2012 og var einn af stofnendum gallerí Kling & Bang árið 2003.