Samkeppni ungra einleikara fór fram í Nóvember síðastliðinn. Fjórir þátttakendur þóttu hlutskarpastir í keppninni í ár en þau koma fram í Eldborgarsal Hörpu þann 20.maí ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands.
Við fáum að kynnast einleikurunum fjórum í stuttum viðtalsfréttum fram að keppni. Söngkonan Marta Kristín og básúnuleikarinn Jón Arnar hafa nú þegar svarað spurningum varðandi keppnina, undirbúninginn og bakgrunn þeirra í tónlist en nú er komið að fiðluleikaranum Johönnu Brynju Ruminy. 

johanna_brynja_ruminy.jpg
 

Johanna Brynja hóf suzukienám í fiðluleik við Tónskóla Sigursveins aðeins fimm ára að aldri. Þá hafði Johanna verið hugfangin af hljóðfærinu frá þriðja aldursári eftir að hafa séð leikið á fiðlu í sjónvarpinu og þá var ekki aftur snúið.
Aðalheiður Matthíasdóttir var leiðbeinandi hennar til ellefu ára aldurs en fram að sextán ára aldri sótti Johanna ýmis námskeið í fiðluleik, bæði innanlands sem utan. Þá lærði hún hjá Auði Hafsteinsdóttir í um fjögur ár eða til tvítugs. Það voru einstaklega lærdómsrík ár að sögn Johönnu en hún tók til að mynda nokkrum sinnum þátt í Nótunni, uppskeruhátíð tónskólanna, og sigraði með glæsibrag ásamt Jóhanni Erni Thorarensen árið 2016. Þá lék hún einleik með Sinfóníuhljónsveit áhugamanna sem og Sinfóníuhljómsveit Tónskólanna. Helga Þórarinsdóttir stjórnaði kammer- og hljómsveitastarfi sem að Johanna tók virkan þátt í, bæði sem hljómsveitarmeðlimur en einnig sem einleikari.
Árið 2018 lá leiðin til Þýskalands þar sem Johanna Brynja hóf nám við tónlistarháskólann í Trossingen undir leiðsöng Winfried Rademacher en hún lýkur sínu þriðja ári í vor. Námsárin í Þýskalandi hafa verið einstaklega lærdómsrík að sögn Johönnu en hún hefur ferðast víða um Þýskaland með ungmennahlhjómsveitum skólans og komið fram í mörgum af helstu tónleikahúsum landsins.

Johanna Brynja Ruminy á framtíðina fyrir sér. Hún er björt og hæfileikarík ung kona með einstaka útgeislun sem skilar sér svo sannarlega í tónlistarflutningi hennar.
Hún hefur svarað nokkrum spurningum um keppnina sjálfa, undirbúninginn og framtíðina. 
 

Hvaða verk munt þú flytja og afhverju varð það fyrir valinu?

Ég mun flytja Fiðlukonsert í e-moll eftir Felix Mendelssohn. Ég æfði hann síðastliðna önn með kennara mínum og fannst alveg tilvalið að flytja hann í keppninni. Mér og kennara mínum fannst konsertinn henta mér og spilamennsku minni vel. Mér þykir mjög vænt um þetta verk og hef sterk tilfinningaleg tengsl við það og er virkilega spennt fyrir því að fá að flytja konsertinn með Sinfóníuhljómsveitinni.

Hvað varð til þess að þú tókst þátt í keppninni Ungir einleikarar og hvernig hefur ferlið reynst þér?

Ég hef lengi stefnt að því að taka þátt í keppninni Ungir einleikarar, alveg frá því ég var í Tónskóla Sigursveins. Að taka þátt í keppni eins og þessari heldur manni við efnið og hvetur mann áfram.Ferlið hefur verið mjög þroskandi og skemmtilegt. Það hefur auðvitað verið mjög sérstakt nú á tímum Covid þar sem maður hitti ekki aðra keppendur og hefur þannig ekki fundið fyrir samkeppninni eins og annars. Mér fannst hins vegar mjög stressandi að undirbúa mig undir keppnina þar sem árið hefur verið strembið í ljósi aðstæðna.

Hvaða tækifæri sért þú fyrir þér að keppnin geti haft í för með sér?

Það er alveg einstakt tækifæri að sigra keppnina og fá að spila með Sinfóníuhljómsveitinni sem ég hef fylgst með og litið upp til í mörg ár. Þetta verður mjög þroskandi og góð reynsla fyrir mig sem tónlistarkonu og vonandi opnast enn fleiri dyr inn í tónlistarheiminn eftir tónleikana í maí.

Hvað er framundan?

Ég mun halda áfram námi í Þýskalandi og stefni á að taka þátt í keppni í Tónlistarháskólanum mínum, ef Covid leyfir. Svo stefni ég á að taka þátt í prufuspilum í helstu ungmennahljómsveitum í Þýskalandi og Evrópu. En annars er ég opin fyrir þeim tækifærum sem bjóðast.

Þrátt fyrir ungan aldur hefur Johanna Brynja hlotið mikla og haldbæra reynslu í tónlist. Hún á sér marga og stóra drauma og stefnir á að ná langt í sínu fagi. Við spurðum Johönnu hvort að hún vilda bæta einhverju við að lokum og hún svarar;

„Ég er ótrúlega spennt fyrir tónleikunum í maí og vonast til að sjá sem flesta. Ég hlakka til að flytja fiðlukosnsert Mendelssohns í Hörpu og fá að hlusta á Írisi Björk, Jón Arnar og Mörtu Kristínu flytja sín verk. Það er mikill heiður að fá að taka þátt í svona skemmtilegu verkefni."

Við þökkum Johönnu Brynju Ruminy kærlega fyrir viðtalið og óskum henni góðs gengis í undirbúningnum fyrir stóru stundina þann 20.maí.