Ákveðið hefur verið að framlengja umsóknarfrest í MA í sýningargerð til og með 15. júní 2020. Um er að ræða nýja námsleið í sýningagerð á meistarastigi við myndlistardeild Listaháskóla Íslands. Þessi nýja námsleiðverður kennd samhliða meistaranámi í myndlist og þannig sköpuð tækifæri fyrir nemendur til að þróa verkefni sín og hugmyndir í nánu sambandi við fagumhverfi myndlistar.

 

Á námsbrautinni er litið á sýningagerð sem valkost innan myndlistar og námið er vettvangur þar sem hvatt er til að leita nýstárlegra leiða til að skilgreina og miðla sýningagerð og listsköpun í víðu samhengi í samtímanum. Námið er einstaklingsmiðað og megináhersla lögð á að þróa og þroska listræna sýn nemenda, og veita þeim tækifæri til að raungera hugmyndir sínar, og rými til tilrauna og rannsókna innan sýningagerðar.

 

Nemendur fá tækifæri til að setja verkefni sín og vinnu í fræðilegt og þverfaglegt samhengi og taka þátt í kraftmiklu jafningjasamfélagi þar sem skapandi einstaklingar úr ólíkum fögum mætast. Námið hverfist um spurningar og viðfangsefni sem tengjast hlutverki listarinnar í ólíku samhengi og um sýningagerð sem listrænt ferli þar sem tekist er á við pólitíska, siðferðislega og umhverfistengda þætti, spurningar og áskoranir. Hér er ekki litið á sýningagerð sem grein er einskorðast við myndlist heldur leið til að stofna til samtals við fræðasvið lista almennt, sem og önnur svið kunnáttu og sérfræðiþekkingar. Námið getur því hentað nemendum með bakgrunn í ólíkum fögum og greinum.

 

Hanna Styrmisdóttir hefur verið ráðin prófessor í sýningagerð við þessa nýju námsleið. Hanna hefur víðtæka reynslu á sviði listrænnar stjórnunar og sýningagerðar, meðal annarrs var hún listrænn stjórnandi Listahátíðar í Reykjavík frá 2012-2016 og stýrði á því tímabili fjórum hátíðum með aðkomu fjölda liststofnana og framkvæmdaaðila innanlands og alþjóðlega ár hvert. Í starfinu lagði Hanna áherslu á frumflutning og tilurð nýrra verka, nýstárlegar leiðir í sýningagerð á öllum sviðum, og beindi m.a. sérstaklega sjónum að höfundarverki kvenna og réttindabaráttu almennt. Meðal annarra sýningargerðarverkefna Hönnu eru HA (Sara Björnsdóttir í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsi, 2012); Stjórnarskrá Lýðveldisins Íslands (Libia Castro & Ólafur Ólafsson með Karólínu Eiríksdóttur, Hafnarborg og RÚV (2011); Lóan er komin (Steingrímur Eyfjörð í Íslenska skálanum á 54. Feneyjatvíæringnum 2007); Kúlan, sýningaröð í Listasafni Reykjavíkur, Ásmundarsafni (2003); Matthew Barney í Nýlistasafninu (2003) og Pólýfónía, hljóðlistahátíð í Nýlistasafninu (2001).

 

Sótt er um rafrænt og finna má umsóknina hér.