Útskriftarhátíð Listaháskóla Íslands er efalaust með stærri listviðburðum ársins og einn af hápunktum menningarlífsins á höfuðborgarsvæðinu. Á hátíðinni í ár eru yfir 70 viðburðir, 160 nemendur að útskrifast og þá má áætla að á yfir 30.000 þúsund gestir sæki viðburðina eða um 10% þjóðarinnar.

“Sérstaða þessara listviðburða er kannski sú að þarna er svo skemmtilegur þverskurður af þjóðinni, foreldrar, systkini, makar og vinir, fólk úr öllum áttum, en ekki einungis þeir sem alla jafna sækja menningarviðburði, þótt þeir komi auðvitað líka. Útskriftarhátíðin er því sannarleg mikilvægt tækifæri til að miðla mætti lista og hönnunar sem víðast, sýna fram á mikilvægi þessara grunnstoða mennskunnar í samfélagsgerðinni og stækka mengi umræðu um vægi lista, menningar og skapandi greina meðal almennings.” segir Fríða Björk Ingvarsdóttir, rektor Listaháskóla Íslands.  

Hátíðin sjálf hófst formlega þann 20. apríl sl. með tónleikum  útskriftarnema úr tónlistardeild skólans og hafa þeir verið nánast daglega víðsvegar um borgina síðan og munu standa til 14. Maí. Um er að ræða alls 52 nemendur sem meðal annars eru að útskrifast úr tónsmíðum, söng, hljóðfæraleik, söng- og hljóðfærakennslu, skapandi tónlistarmiðlun og frumkvöðlastarfi í tónlist svo óhætt er að búast við afar fjölbreyttum tónlistarviðburðum. 
 
Tískusýning útskriftarnema fatahönnunardeildar LHÍ var í Norðurljósasal Hörpu þann 29. Apríl sl. Á sýningunni kynna nemendur útskriftarverkefni sín eftir þriggja ára nám við skólann. Lokaverkefni nemenda í fatahönnun eru einstaklingsverkefni sem samanstendur af frjálsri rannsókn, hönnun og útfærslu á fatalínu undir handleiðslu leiðbeinenda. Hægt er að horfa á streymi frá sýningunni hér.  

Útskriftarsýning BA útskriftarnema úr arkitektúr, grafískri hönnun, vöruhönnun, fatahönnun og myndlist er fastur liður hjá mörgum á vorin og er með stærri sýningum ársins hjá Listasafni Reykjavíkur og hana sækja ótal gestir, jafnt fagfólk sem áhugasamir. Þar er hægt að skoða verk tilvonandi hönnuða og listamanna framtíðarinnar og gefur sýningin góða mynd af því sem koma skal. Í ár eru nemendurnir sem sýna á sýningunni um 72 talsins og verk þeirra fjölbreytt eftir því. 

Sýningin í Hafnarhúsinu ber heitið Rafall. Rafall er ummyndandi fyrirbæri; breytir vélrænni orku í straum sem líður fram á við. Sýningarheitið inniheldur bæði flæði og hreyfingu; gefur til kynna ólíkar einingar sem raðast upp og mynda heild. Rafall er líka táknmynd fyrir hömlulausan einstakling, orkumikinn, getumikinn og ákveðinn.  Nemendurnir spretta úr hamlandi aðstæðum heimsfaraldri, en sýna seiglu vélarinnar sem vinnur til framtíðar. ¡BANG!  Rafall fagnar lokasprengingu nemenda LHÍ áður en þeir taka stökkið út í umheiminn og verða sköpunarkraftar morgundagsins. ¡BOOM! 

Sýningastjórar eru Arnar Ásgeirsson (myndlist), Rúna Thors (vöruhönnun), Þórunn María Jónsdóttir (fatahönnun), Adam Flint (grafísk hönnun), Dagur Eggertsson og Hjördís Sóley Sigurðardóttir (arkitektúr). Sýningin í Hafnarhúsinu stendur til mánudags 29. maí og er aðgangur ókeypis á meðan sýningunni stendur.   

 Sýning fimm meistaranema í hönnun við LHÍ er haldin í gömlu áburðarverksmiðjunni í Gufunesi sem nú heitir Slökkvistöðin. Sýningin ber titilinn 
„The Relative Size of Things in a Landscape“ og vísar til stuttmyndarinnar „Powers of Ten“ sem kannaði hlutfallslegan mælikvarða alheimsins í stuðlinum tíu. Bæði hvað fjarlægð varðar sem og stærð. Titillinn gefur til kynna að gestir sýningarinnar geti búist við að sjá verk sem ögra tengslum þeirra við umhverfið í kringum sig. 
Sýningin opnar 12. Maí og stendur til 20. Maí og er sýningarstjóri Johanna Seeleeman.  

Sýning sjö meistaranema í myndlist í LHÍ er haldin í Nýlistasafninu í ár og ber heitið Athöfn. Útskriftarsýningin tekur sér stöðu á tímum þar sem aðgerðir mæta doða og afstaða mætir undankomuleiðum. Með verkunum kanna listamennirnir leiðir í gegnum þessa póla og bregðast við umhverfi sínu og samhengi, hver á sinn hátt, með verkum sem kalla á viðbragð og næmni. 
Sýningin opnar þann 13.maí og stendur til 4.júní og er Sunna Ástþórsdóttir sýningarstjóri.  

 
Listkennsludeild Listaháskóla Íslands stendur fyrir útskriftarviðburði dagana 12. og 13. Maí. í Menningarhúsinu Gerðubergi. Viðburðurinn er hluti af útskriftarhátíð Listaháskóla Íslands og þar kynna verðandi kennarar lokaverkefni sín með fjölbreyttum hætti. Börn ásamt aðstandendum eru sérstaklega boðin velkomin. 

Nám í listkennsludeild Listaháskóla Íslands miðar að því að þjálfa leiðtogafærni í kennslu þar sem fólk úr ýmsum greinum vinnur saman og samhliða að kennslufræðilegum úrlausnarefnum, með áherslu á aðferðafræði lista. Nemendur útskrifast með kennsluréttindi á öllum skólastigum. 

 

Sýning meistaranema í arkitektúr við LHÍ verður haldin í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg. Sýningin sýnir lokaverkefni nemenda í meistarnámi í arkitektúr við LHÍ. Um er að ræða verkefni sem eiga það sameiginlegt að líta á arkitektúr sem mikilvægt rannsóknarferli, farartæki sem eykur félagslega vitund, verkfæri ímyndunaraflsins og efla dagskrárvald félagslegs réttlætis og sem samfstarfsverkefni sem miðar að því að við getum öll búið saman í sátt. Það ríkir mikil tilhlökkun að fá að halda sýninguna í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg. 
Sýningin opnar þann 4.júní og stendur til 11.júní.  

 

Þess má geta að sviðslistadeild LHÍ útskrifar ekki nemendur þriðja hvert ár og því eru nemendur í þeirri deild ekki þátttakendur Útskriftarhátíðarinnar í ár.  

Hér má finna alla dagskrá og upplýsingar um Útskriftarhátíð Listaháskóla Íslands 2023.  Allir viðburðirnir eru ókeypis.