Tvö verkefni úr hönnunar- og arkitektúrdeild eru meðal fimm öndvegisverkefna sem tilnefnd eru til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands. Verðlaunin eru veitt þeim námsmönnum sem hafa unnið framúrskarandi starf við úrlausn verkefnis sem styrkt var af Nýsköpunarsjóði námsmanna síðastliðið. sumar.
 
Lúpína í nýju ljósi, lífrænt hráefni í umhverfisvæna afurð er annað þessara verkefna, unnið af Elínu Sigríði Harðardóttur og Ingu Kristínu Guðlaugsdóttur, nemendum í grunnnámi vöruhönnunar við Listaháskóla Íslands. Leiðbeinendur voru Magnús H. Jóhannsson, sviðsstjóri þróunarsviðs Landgræðslu ríkisins og Thomas Pausz, lektor við Listaháskóla Íslands. Hitt verkefnið er Trippi – Tveir ótamdir hönnuðir kanna nýtingarmöguleika íslenskra hrosshúða sem var unnið af fatahönnuðinum Kristínu Karlsdóttur og vöruhönnuðinum Valdísi Steinarsdóttur. Þær eru báðar nýútskrifaðar frá Listaháskóla Íslands. Umsjónamenn verkefnisins voru þær Linda Björg Árnadóttir, lektor í fatahönnun við Listaháskóla Íslands og Rúna Thors, fagstjóri í vöruhönnun við Listaháskóla Íslands.
 
Lúpína í nýju ljósi
Í verkefninu Lúpína í nýju ljósi, lífrænt hráefni í umhverfisvæna afurð voru tilraunir gerðar með eiginleika og styrkleika lúpínunnar. Markmið rannsóknarinnar var að komast að því hvort hægt væri að vinna á einfaldan hátt, efni úr lúpínu án allra íblöndunarefna, sem væri þá algjörlega niðurbrjótanlegt í náttúrunni. Efni sem væri nýtanlegt í einhvers konar áframhaldandi framleiðslu.
 
Náttúrutrefjar eru hráefni sem vonir eru bundnar við í þróun á umhverfisvænum efnum, hráefni sem gæti komið í stað plasts og gerviefna sem hafa verið notuð undanfarna áratugi og stofna náttúrunni í hættu. Alaskalúpína er belgjurt sem hefur mikinn lífmassa og finnst víða í náttúru Íslands. Hún er áhugaverð vegna eiginleika sinna til að framleiða nitur, þannig sér hún sjálfri sér fyrir næringu og er þar af leiðandi sjálfbær þegar hún hefur fest rætur. Plantan hefur nær eingöngu verið notuð sem uppgræðslujurt.
 
Megintilraunirnar í verkefninu voru að pressa plötur úr rótum og stönglum plöntunnar og gera samanburð á afurðunum, annars vegar á plöntuhlutum og hins vegar á mismunandi vaxtarskeiði hennar. Sýnishorn voru unnin með það að markmiði að gera styrkleikaprófanir svo hægt væri að kanna styrk efnisins og áætla hvort og þá hvar væri hægt að staðsetja það í flokki byggingarefna, miðað við þá vinnsluaðferð sem notuð var í rannsókninni. Gerð voru beygjubrotþolspróf og metin orkuþörf við framleiðslu á efninu. Að auki voru gerðar tilraunir með aðra plöntuhluta, s.s. blómin. Niðurstöður verkefnisins renna stoðum undir þá tilgátu, að lúpínan sé frambærilegt hráefni til vöruþróunar. Stofnuð var vefsíða sem fjallar um verkefnið á myndrænan hátt, lupineproject.com.
 

 

Trippi
Verkefnið Trippi – Tveir ótamdir hönnuðir kanna nýtingarmöguleika íslenskra hrosshúða gekk út á að rannsaka og gera tilraunir með íslenskar hrosshúðir í því skyni að búa til úr þeim hönnunarvöru, með áherslu á nýstárlega nálgun á hráefnið. Höfundum fannst mikilvægt að vinna með náttúrulegum eiginleikum hráefnisins, svo sem ójafnri þykkt, í stað þess að stríða gegn þeim. Um er að ræða hliðarafurð af kjötframleiðslu, sem nú til dags er mestmegnis vannýtt hér á landi, en lítill hluti íslenskra hrosshúða er sútaður hérlendis. Þeim er að stórum hluta fargað eða þær sendar utan til frekari vinnslu.
 
Verkefnið fór fram í þremur þrepum. Fyrsta stig verkefnisins var eigindleg rannsókn á því með hvaða hætti og að hvaða marki íslenskar hesthúðir eru nú þegar nýttar hérlendis, m.a. með könnun á núverandi framboði af vörum úr hrosshúðum, sem og rannsóknarferðum á Sauðárkrók og til Hjalteyrar. Annað stig þess var nánari rannsókn og vinna með loðnar hrosshúðir, til dæmis sútun á loðinni hrosshúð frá grunni. Auk þess gerðu höfundar tilraunir með þekktar aðferðir við jurtalitun og þróuðu út frá þeim eigin aðferð við litun loðinna hrosshúða með náttúrulegum hætti. Lokastig verkefnisins var hugmyndavinna, hönnun og framleiðsla frumgerða af ýmiss konar hönnunarvöru úr loðnum hrosshúðum.
 
Meginniðurstaða verkefnisins er sú að ómæld verðmæti eru falin í íslenskum hrosshúðum ef unnið er með þær af þekkingu og alúð, og að fjölbreyttar vörur úr íslenskum hrosshúðum eigi fullt erindi jafnt á innlendan sem og erlendan markað. Til að mynda sjá höfundar möguleika í framleiðslu á pelsum, aukahlutum og ýmiss konar innanstokksmunum. Rík áhersla var lögð á það frá byrjun að varan væri vönduð að hönnun og gerð, í því skyni að leggja áherslu á gæði hráefnisins og samkeppnishæfni þess við hefðbundnari loðvöru úr dýrum sem e.t.v. hlutu illa meðferð.
Nýsköpunarverðlaunin

Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands verða afhent við hátíðlega athöfn á Bessastöðum, fimmtudaginn 1. febrúar nk. Stjórn sjóðsins hefur valið fimm öndvegisverkefni sem unnin voru sumarið 2017 en aðeins eitt þeirra hlýtur viðurkenninguna. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhendir verðlaunin. Á vef Rannís segir að verkefni sem tilnefnd séu sem öndvegisverkefni eigi það sameiginlegt að vera vel unnin og frumleg. „Þau eru ólík innbyrðis og sýna vel þá fjölbreytni sem einkennir verkefni sem sjóðurinn veitir styrki til. Þessi fjölbreytni endurspeglar enn fremur það frjóa og margbreytilega starf og nám sem háskólanemar á Íslandi leggja stund á.“

Það er mikið fagnaðarefni að nemendur hönnunar- og arkitektúrdeildar séu svo áberandi á verðlaununum en verkefnin tvö tengjast bæði nýsköpun í nýtingu íslenskra afurða.