Í dag, 21. september, eru liðin tuttugu ár síðan stofnað var til Listaháskóla Íslands með undirritun skipulagsskrár skólans og staðfestingu þáverandi menntamálaráðherra Björns Bjarnasonar. Staðfestingin gilti sem formlegt starfsleyfi fyrir Listaháskólann. Í kjölfarið var fyrsti stjórnarfundur skólans haldinn þar sem ákveðið var að auglýsa stöðu rektors lausa til umsóknar. Í frétt Morgunblaðsins frá þessum tíma segir m.a.: "Nýr kafli í íslenskri listmenntunarsögu er þar með hafinn, hið eiginlega mótunarstarf Listaháskólans." Jafnframt kemur fram í fréttinni að: "Ef semst við ráðuneytið um yfirtöku húsnæðisins á Laugarnesvegi 91, í daglegu tali nefnt SS-húsið, gæti skólinn verið kominn undir eitt þak seinni hluta árs 2000."

Pétur Einarsson, sem átti sæti í fyrstu stjórn skólans, segir í frétt Morgunblaðsins, að "þrátt fyrir að listamenn hafi, sem betur fer, skiptar skoðanir um listmenntun, hafi þeir staðið saman um stofnun Listaháskóla. „Það er von mín að þeir beri gæfu til þess að halda áfram að skiptast á skoðunum og standa saman um Listaháskóla íslands."" Hjálmar H. Ragnarsson, þáverandi formaður Bandalags íslenskra listamanna sem síðar varð fyrsti rektor Listaháskólans, tók í sama streng: „Það hefur verið tekist á í þessu máli en nú þegar rekstrarfyrirkomulagið liggur fyrir er nauðsynlegt að listamenn standi saman að baki þessari stofnun - ekki bara fjárhagslega, heldur líka hugmyndafræðilega."

Opinbert starfsleyfi fékk skólinn tæpu ári síðar, eða þann 10. júní 1999 og var í kjölfarið settur í fyrsta sinn þann 10. september sama ár, en þeim tímamótum hefur verið fagnað þegar afmæla Listaháskóla Íslands er minnst. Í setningarræðu sinni fyrir þetta fyrsta skólaár spurði Hjálmar H. Ragnarsson m.a.: "Fyrir hvern er þessi stofnun, Listaháskóli Íslands? Því er nauðsynlegt að svara, ekki bara núna við stofnun skólans heldur alltaf og ekki síst þegar skólinn fer að renna sitt skeið. - Er hann uppeldisstofnun fyrir ungt fólk sem sakir ástar sinnar á listum og ódrepandi löngunar til listsköpunar sér sér ekki aðra braut færa í lífinu en listabrautina? Vissulega er hann fyrir slíkt fólk og gagnvart því ber hann mikla ábyrgð. – Er hann fyrir listamennina í landinu? Já, það er að segja ef hann ber gæfu til að nýta sköpunarkraft þeirra og verða um leið brunnur frjórra hugmynda og aflvaki skapandi hugsunar. – Er hann fyrir almenning í landinu? Já, bæði beint og óbeint því að án öflugrar listmenningar þrífst engin þjóðmenning í landinu.

Í mínum huga er þó skólinn ekki síst og kannski frekast fyrir listsköpunina sjálfa, já, listsköpunina sjálfa, það er: það að búa til tónlist úr þögninni; það að gefa orðunum merkingu: að skapa sjónarspil úr hreyfingum líkamans; að forma hugsun í stein og að fanga ástríður í léreft; - eða með öðrum orðum: það að búa til eitthvað úr engu."

 

Myndin sem fylgir fréttinni var birt í Morgunblaðinu 22. september 1998 þegar Björn Bjarnason, fyrrverandi menntamálaráðherra, undirritaði bréf til staðfestingar skipulagsskrár Listaháskóla Íslands að viðstöddum Pétri Einarssyni, Þórunni Hafstein, Stefáni Pétri Eggertssyni og Sigurði Nordal.