Á dögunum fór fram stofnfundur Tónlistarmiðstöðvar í Hörpu. Stjórn Tónlistarmiðstöðvar var kynnt á fundinum en formaður stjórnar miðstöðvarinnar er Einar Bárðarson.

Stjórnina skipa auk Einars þau Sólrún Sumarliðadóttir, Ásmundur Jónsson, Guðrún Björk Bjarnadóttir, Gunnar Hrafnsson, Páll Ragnar Pálsson og Sigrún Grendal. Varamenn í stjórn verða Arna Kristín Einarsdóttir, Baldur Þórir Guðmundsson, Sölvi Blöndal, Bragi Valdimar Skúlason, Margrét Eir Hönnudóttir, Bergrún Snæbjörnsdóttir og Aron Örn Óskarsson.

„Þetta er mikill gleðidagur og einstaklega mikilvægur áfangi fyrir tónlist og
tónlistarfólk hér á landi. Þetta er löngu tímabært skref sem mun styrkja tónlistargeirann til framtíðar. Tónlistarmiðstöðin getur orðið einn af hornsteinum tónlistarlífs og -iðnaðar og það er mín von og trú að tónlistarsenan hér á landi muni blómstra sem aldrei fyrr,“ sagði menningar- og viðskiptaráðherra við tilefnið. Stofnaðilar Tónlistarmiðstöðvar eru STEF, Félag hljómplötuframleiðenda, Félag íslenskra hljómlistarmanna, Félag kennara og stjórnenda í tónlistarskólum og Tónskáldafélag Íslands auk menningar- og viðskiptaráðherra f.h. ríkissjóðs. Öll félögin eiga fulltrúa í stjórninni. Tónlistarmiðstöð starfar samkvæmt nýjum tónlistarlögum, nr. 33/2023.

Hornsteinn í íslensku tónlistarlífi

Tónlistarmiðstöð er stofnuð með það að markmiði að verða einn af hornsteinum íslensks tónlistarlífs og -iðnaðar. Á árunum 2023-2025 er ráðgert að samtals 600 milljónir renni af fjárlögum til stofnunar Tónlistarmiðstöðvar og til eflingar sjóða tónlistar til viðbótar við þau framlög sem renna nú þegar til tónlistar.
Hingað til hefur vinnuumhverfi tónlistarfólks hér á landi einkennst af fjölmörgum eyjum sem mynda óreiðukenndan klasa. Tónlistarmiðstöðin hefur það dýrmæta hlutverk að byggja brýr á milli þessara eyja og setja upp upplýsingaskilti. Þarna verður allt undir sama hatti; styrkjasjóðir, ráðgjöf, nótnasafn, þróunarvinna, stefnumótun og síðast en ekki síst faglegt samtal. Ávinningurinn er mikilvægur fyrir samfélagið allt, ekki bara þau sem starfa við tónlistina, heldur einnig öll sem hlusta á tónlist á degi hverjum” segir Páll Ragnar Pálsson, aðjúnkt við tónlistardeild Listaháskóla Íslands situr í stjórn Tónlistarmiðstöðva. 
 

Uppbygging tónlistariðnaðar

Tónlistarmiðstöðin mun bæði sinna fræðslu og stuðningi við tónlistarfólk og tónlistartengd fyrirtæki, styðja við uppbyggingu tónlistariðnaðarins, kynna íslenska tónlist og tónlistarfólk á erlendri grundu og vera nótnaveita fyrir íslensk tónverk. Tónlistarmiðstöð mun styðja við uppbyggingu sprota og hlúa að ferli listafólks og verður áhersla lögð á að tryggja fjölbreytni og grósku og að starfsumhverfið verði nútímalegt og hvetjandi fyrir íslenskt tónlistarlíf.

Með stofnun Tónlistarmiðstöðvar er stigið stórt skref í áttina að því að veita listgreininni aukið vægi og til að greiða leið íslensks tónlistarfólks, innan lands sem utan.
Tónlistarmiðstöð er sjálfseignarstofnun sem rekin er á einkaréttarlegum grunni með sjálfstæðri fjárhagsábyrgð og starfar samkvæmt sérstakri skipulagsskrá sem stjórn setur og staðfestir.