screenshot_2022-09-06_at_10.28.49.png
 

Tónlist er fyrir alla 

Ráðstefna tónlistarkennara í Hörpu dagana 8.-9.september 2022.
Ráðstefnan er unnin í samstarfi við Listaháskóla Íslands, Samtök tónlistarskólastjóra og Félag íslenskra hljómlistarmanna.

 

Um ráðstefnuna

Ráðstefnan „Tónlist er fyrir alla“ verður haldin í Hörpu dagana 8.-9.september. Ráðstefnan er vettvangur fyrir kennara og stjórnendur tónlistarskóla til að koma saman, deila reynslu og þekkingu og rækta fagleg tengsl við starfsfélaga. Yfirskriftin gefur tóninn fyrir vítt svið viðfangsefna ráðstefnunnar. Í brennidepli verða áskoranir og tækifæri í tónlistarkennslu og tónlistarnámi, nýbreytni og nýsköpunarverkefni og lifandi umræður um málefni sem snerta tónlistarkennslu á breiðum grunni. Fjallað verður um tónlist og tónlistarnám sem samfélagslega fjárfestingu, hvað sé svona sérstakt við tónlist í því samhengi, og horft á afurðir tónlistarskólakerfisins með víðtækum hætti þar sem skilningur á siðferðilegri og samfélagslegri ábyrgð er til grundvallar. Stefnumiðið er að styrkja tónlistarkennslu og tónlistarmenntun, að veita þátttakendum innblástur og næringu fyrir komandi skólaár og að tónlist og tónlistarnámi verði gert hærra undir höfði í þágu sjálfbærni og velferðar.
 
Hér má nálgast dagskrá ráðstefnunnar í heild sinni.
 

Þátttakendur og viðfangsefni

Tæplega fjörtíu einstaklingar taka þátt í dagskrárliðum ráðstefnunnar sem samanstanda af fyrirlestrum og kynningum, vinnustofum, pallborðsumræðum og samtali. Tónlistardeild LHÍ á fjölmarga fulltrúa á ráðstefnunni. Þau Tryggvi M. Baldvinsson, deildarforseti tónlistardeildar LHÍ, og Elín Anna Ísaksdóttir, fagstjóri hljóðfærakennslu á grunn- og framhaldsstigi, eru meðal lykilfyrirlesara ráðstefnunnar en þau flytja erindið „Horft fram á veginn“. Deildarforseti Listakennsludeildar, Kristín Valsdóttir mun leiða umræðutorg varðandi nýjar leiðir og markhópa tónlistarnáms. Þar að auki munu hinir ýmsu starfskraftar, nemendur og hollnemar tónlistardeildar flytja fyrirlestu, stjórna umræðum eða vinnustofum og flytja tónlist á ráðstefnunni. Botninn í ráðstefnuna slær bandaríski tónlistarmaðurinn Rick Beato en hann hefur gert garðinn frægan á Youtube.

Hér má sjá yfirlit og upplýsingar um alla fyrirlesara og þátttakendur ráðstefnunnar.

Á vef ráðstefnunnar Tónlist er fyrir alla má fræðast enn frekar um fyrirlesara og aðra þátttakendur, viðfangsefni þeirra og nálgast annan fróðleik um verkefnið.