Undanfarnar vikur hafa sjálfboðaliðar úr hópi fólks með stöðu hælisleitenda á Íslandi sótt skapandi tónlistarsmiðjur við tónlistardeild LHÍ. Afraksturinn af verkefninu gaf að heyra fimmtudaginn 21. febrúar í Flyglasal í Skipholti 31. Þar frumfluttu hælisleitendur og Listaháskólanemar lög og texta sem höfðu orðið til í smiðjunum undir stjórn Gunnars Benediktssonar, aðjúnkts og fagstjóra Skapandi tónlistarmiðlunar við tónlistardeild LHÍ.

Samstarfsverkefni Skapandi tónlistarmiðlunar við LHÍ og Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar

Verkefnið sprettur úr samstarfi námsbrautarinnar Skapandi tónlistarmiðlunar og Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar. Velferðarsvið auglýsti eftir áhugasömum úr hópi hælisleitenda til að taka þátt í tónlistarsmiðjum sem haldnar yrðu þrisvar sinnum, tvær klukkustundir í hvert skipti og þeim myndi ljúka með tónleikum þar sem þátttakendur myndu syngja og spila frumsamið efni. Öll velkomin og tónlistarbakgrunnur alls ekki skilyrði. Úr varð að átján manns frá ótal heimshornum sóttu smiðjurnar.

Eitt af verkefnunum sem unnið var með var að allir veldu sér orð sem hljómaði fallega eða tengdist einhverju fallegu. Orðin fléttuðust fallega inn í frumsömdu tónlistina sem flutt var á tónleikunum 21. febrúar þar sem sungið var á arabísku, urdu, kúrdísku, spænsku, rússnesku, rúmensku, frönsku og fleiri tungumálum.