Bandaríska kvikmyndatónskáldið Miriam Cutler og raftónlistarmaðurinn, blásarinn og tónskáldið Tómas Manoury heimsóttu tónsmíðanema Listaháskóla Íslands fyrr í mánuðinum og héldu áhugaverð hádegiserindi með stuttu millibili. 

Meðfylgjandi eru upptökur af erindum þeirra beggja.

Miriam Cutler í málstofu tónsmíðanema, 5. október 2018
 

Bandaríska kvikmyndatónskáldið Miriam Cutler á að baki litríkan feril en hún hefur samið tónlist við ótal rómaðar heimildamyndir auk þess að hafa starfað sem fyrirlesari, meðlimur í dómnefndum og ráðgjafi svo fátt eitt sé nefnt. 

Á meðal heimildamynda sem Cutler hefur samið tónlist við má nefna myndirnar The Hunting Ground (2015), Ethel (2012), Kings Point (2012), Poster Girl (2010), Ghosts of Abu Ghraib (2007) og Lost in La Mancha (2002). Hún hlaut tilnefningu til Emmy-verðlauna fyrir tónlist við heimildamyndarinnar The Desert of Forbidden Art (2010).

Á meðal nýjustu mynda Cutler má nefna Love, Gilda (2018) um gamanleikkonuna Gildu Radner og RBG (2018) um bandaríska hæstaréttadómarann Ruth Bader Ginsburg. 

 

 

Tómas Manoury í málstofu tónsmíðanema, 12. október 2018

Tómas Manoury er fransk/íslenskur tónlistarmaður sem flutti nýlega til Íslands eftir margra ára búsetu í Brussel. Hann spilar á alls kyns blásturshljóðfæri svo sem saxófón, túbu, munnhörpu, og mörg fleiri en auk þess syngur hann og hefur sérhæft sig í yfirtóna- og barkasöng. Ásamt því að vera hjóðfæraleikari og tónskáld, spilar Tómas einnig raftónlist sem byggist á hljóðvinnslu á tónum og hljóðum í rauntíma. Hann þróar tilraunakennd rafeindahljóðfæri og notar óhefðbundin viðmót með gagnvikni og lifandi spilamennsku í huga.

Hann vinnur um þessar mundir við svítu fyrir saxafón og tölvuvinnslu.