Nemendur á öðru ári við hönnunar- og arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands unnu nýverið þverfaglegt verkefni í samstarfi við hjúkrunarheimilið Droplaugastaði með það að markmiði að auka lífsgæði og ánægju íbúa og starfsfólks. Verkefnunum var ætlað að hafa jákvæð áhrif á umhverfi, menningu og samfélag heimilisins.

 
Verkefnin voru öll hluti af þverfaglegu námskeiði sem námsbraut í grafískri hönnun, fatahönnun, vöruhönnun og arkitektúr standa sameiginlega að og nefnist Together. Auk nemenda frá Listaháskólanum tóku þátt 5 nemendur frá samstarfsskólum á Norðurlöndum og í Eystrarsaltsríkjunum og var námskeiðið kennt á ensku. Kennarar í námskeiðinu voru þau Massimo Santanicchia, Búi Bjarmar Aðalsteinsson, Eva María Árnadóttir, Julia Hecthman, Phoebe Anna Jenkins og Sinéad Mccarron.
 
Nemendum var skipt niður í sex hópa sem unnu sjálfstætt að verkefnum með ólíkum upphafspunktum, tveir hópar voru í tengslum við starfsfólk, tveir við aðstandendur og tveir við íbúa. Hér fyrir neðan má lesa nánar um verkefnin:
 
Fiskisaga 
Nemendur söfnuðu sögum sem tengdust sjómennsku og hafinu frá íbúum Droplaugastaða og gerðu úr því bókverk. Bókverkið samanstendur af smásögum og frásögnum íbúanna af tengingu sinni við hafið. Starfsfólk hefur tekið upp á því að lesa úr bókinni fyrir íbúa við mikla gleði viðstaddra þar sem þeir minnast gamalla tíma.
 
Lífs leið
Með Lífs leið var unnið með orðaleiki, orðarugl og orð sem áreiti. Nemendur unnu orð á segla sem voru hugsaðir til að skapa umræður og búa til leik að orðum. Orðaseglar eru kveikjur að því að raða saman orðum svo úr verði setningar og orðatiltæki.
 
Plöntuhótelið Dropi 
Svalir á einni hæð Droplaugarstaða gengust undir breytingar og var breytt í gróðurhús. Náttúran var þannig færð nær íbúum, starfsfólki og gestum.
 
Nánd 
Andstæða einmanaleika er nánd. Nemendur vildu skapa vettvang fyrir nánd og vinskap og útbjó hópurinn spilastokk með spurningum sem gætu orðið upphafið að spjalli milli einstaklinga. Með stokknum mátti finna kveikju að umræðu þar sem fólk gæti deilt reynslu sinni, skoðunum og draumum með öðrum.
 
VIT 
VIT er askja með nuddolíu, nuddhring, grjónapoka, augngrímu, regnstaf, reykelsi og te. Öskjunni er ætla að geta breytt hvaða rými sem er í griðarstað slökunar og kyrrðar.
 
VOR -vertu með okkur 
Verkefnið er hugmynd að kynningarherferð sem ætlað er að vekja athygli (sérstaklega ungs fólks) á því hvað það er gefandi og áhugavert að vinna á hjúkrunarheimili. Enn fremur að opna augu fólks fyrir mikilvægi umönnunar aldraðra. Nemendur safna reynslusögum starfsmanna auk þess að búa til heimasíðu, Instagram síðu og nýta fjölbreytta möguleika miðlunar til að vekja athygli á umönnunarstörfum.
 
Á heimasíðu námskeiðisins Together er hægt að kynna sér hvert og eitt verkefni nemenda betur. Á heimasíðu Reykjavíkurborgar er einnig fjallað um verkefnið og upplifun starfsfólks á Droplaugastöðum af því, fréttina á heimasíðu Reykjavíkurborgar má finna hér.
 
Hönnunar- og arkitektúrdeild vill nýta tækifærið til að þakka Jórunni Ósk Frímannsdóttur Jensen forstöðumanni, Ingu Kolbrúnu Hjartadóttur hjúkrunarstjóra og Hólmfríði Margréti Konráðsdóttur umsjónarmanni félagsstarfa á Droplaugastöðum fyrir stuðning og trú á hönnunarferlið á meðan Together stóð, án þeirra hefðu námskeiðið ekki getað orðið að veruleika.