Miðstöð hönnunar og arkitektúrs hefur undanfarnar vikur tilkynnt um tilnefningar til Hönnunarverðlauna íslands 2022 en sex einstök verkefni hlutu tilnefningu að þessu sinni. Öll verkefnin eiga það sameiginlegt að huga að endurnýtingu efna, samfélagslegri ábyrgð, umhverfi, samstarfi, náttúru og nýsköpun.

Verkefnin sem hljóta tilnefningu í ár eru:
 
Snert á landslagi eftir Tinnu Gunnarsdóttur.
Snert á landslagi er vinnutitill yfirstandandi doktorsverkefnis Tinnu Gunnarsdóttur, þar sem áhersla er lögð á að virkja fagurferðilega upplifun í landslagi sem afl til umbóta. Hugtökin landslag og fagurfræði eru mun dýpri og yfirgripsmeiri en þau virðast við fyrstu sýn. Þau fjalla ekki einungis um ásýnd heldur raunverulega snertingu okkar við heiminn, þar sem maður og landslag mætast og hafa áhrif hvort á annað. Þungamiðja verkefnisins er áralöng tilviksrannsókn í Héðinsfirði á norðanverðum Tröllaskaga, þar sem Tinna beitir fjölbreyttum aðferðum hönnunar í þeim tilgangi að skapa snertifleti þar sem þessum tengslum er veitt sérstök athygli.
 
Tinna sem er vöruhönnuður og fyrrum prófessor við hönnunardeild Listaháskóla Íslands sinnir einnig stundakennslu við skólann. Hún nýtir hönnunarrannsóknir og nytjahluti hversdagsins til að skoða umhverfi sitt, hvort sem það á við um einkarými heimilisins eða náttúrulegt samhengi. Hún setur efni og tækni í óvæntar aðstæður og skapar þannig ný sjónarhorn, útvíkkaða upplifun, kynlegt samhengi. Íslenskt landslag hefur haft mikil áhrif á meðvitund hennar og rýmisskilning, sem hún svo miðlar í gegnum efnislæga hluti.
 
tinna.png
 

 

Áríðandi tilraunir á raunveruleikanum eftir Sól Hansdóttur
Áríðandi tilraunir á raunveruleikanum er frumraun Sólar Hansdóttur eftir útskrift úr Central Saint Martins. Fatalínan kannar aðstæður til framleiðslu á nútímafatalínu, með áherslu á nýtingu auðlinda hérlendis. Verkefnið er framhald af fyrri rannsókn og útskriftarlínu hönnuðar við Central Saint Martins háskóla í London vorið 2021. Línan var unnin í samstarfi í Textílmiðstöð Íslands, Ístex og Glófa með sérstakri áherslu á að nýta íslensku ullina sem hráefni. Markmið er að efla textílþróun og framleiðslu fatnaðar á Íslandi ásamt því að nýta innlendar auðlindir.
 
Sól er hollnemi frá fatahönnunarbraut og núverandi stundakennari við Listaháskóla Íslands þar sem hún kennir meðal annars nýsköpun í textíl. Hún útskrifaðist með meistaragráðu í Womenswear Fashion Design frá Central Saint Martins í London árið 2021. Sól hlaut mikið lof fyrir útskriftarlínu sína sem veitti henni meðal annars útskriftarverðlaunin „L’oréal Creative Awards.“ Hönnuðurinn frumsýndi haustlínu á London Fashion Week í febrúar 2022.
 
sol.png
 
 
Hljóðhimnar eftir Þykjó
Hljóðhimnar er upplifunarrými fyrir börn og fjölskyldur á jarðhæð Hörpu - staður til að uppgötva töfraheim hljóðs og tóna. Hljóðhimnar er afmælispakki frá Hörpu og íbúum hennar til allra barna, verkefni sem unnið var á 10 ára afmælisári hússins 2021 og opnaði vorið 2022. Í rýminu er hægt að uppgötva tóna tengda íbúum Hörpu, bæði stórum og smáum, allt frá tónelsku músinni Maxímús Músíkús til Sinfóníuhljómsveitar Íslands, frá Íslensku óperunni til Stórsveitar Reykjavíkur.
 
Þykjó skipa Sigríður Sunna Reynisdóttir, búninga- og leikmyndahönnuður sem hefur sinnt stundakennslu við sviðslistadeild Listaháskóla Íslands, Ninna Þórarinsdóttir, barnamenningarhönnuður, Erla Ólafsdóttir, arkitekt og Sigurbjörg Stefánsdóttir, klæðskeri og fatahönnuður.
 
hljodhimnar.png
 

 

Plastplan eftir Björn Steinar Blumenstein og Brynjólfur Stefánsson
Plastplan er hönnunarstudio og plastendurvinnsla stofnuð árið 2019 af vöruhönnuðinum Birni Steinari Blumenstein og Brynjólfi Stefánssyni. Markmið Plastplan er að stuðla að fullkominni hringrás plastefna og með því sýna fram á mikla möguleika sem felast í hráefninu. Plastplan hefur frá árinu 2017 byggt, þróað og hannað vélar fyrir plastendurvinnslu til að efla úrvinnslu. 
 
Björn Steinar er hollnemi og stundakennari við hönnunardeild Listaháskóla Íslands og hefur á undanförnum árum einblínt á umhverfis- og samfélagstengd verkefni. Sem dæmi má nefna; Skógarnytjar – þróun húsgagna úr íslenskum við, Catch of the day – þróun vodka úr aflögu ávöxtum frá matvælainnflytjendum og plastendurvinnslustöðin Plastplan.
 
Brynjólfur hefur starfað við rannsóknir og uppbyggingu í tengslum við plastendurvinnslu frá árinu 2018. Fyrir það hefur hann sankað að sér þekkingu úr ýmsum áttum og hefur meðal annars lagt stund á tölvunarfræði og vélaverkfræði samhliða rekstri Plastplan.
 
plastplan.png
 

 

Universal Thirst eftir Kalapi Gajjar og Gunnar Vilhjálmsson
Universal Thirst er letursmiðja sem sérhæfir sig í leturgerðum fyrir indverskt og latneskt ritunarkerfi. Hún var stofnuð árið 2016 af Gunnari og Kalapi Gajjar sem hafa síðan þá verið í samstarfi við fyrirtæki og stofnanir á borð við Google, Falcon Enamelware, The Gourmand, Icelandair, Frieze Art Fair, Dhaka Art Summit, HönnunarMars og Dishboom. Teymi Universal Thirst samanstendur af sérfræðingum í leturgerð sem vinna frá höfuðstöðvunum í Reykjavík og Bangalore auk fleiri staða víða um Evrópu og Indland.

Gunnar Vilhjálmsson er hollnemi í grafískri hönnun frá Listaháskóla íslands og sinnir nú stundakennslu við hönnunardeild ásamt því að hafa starfað um hríð í hönnunargeiranum í Reykjavík. Eftir að hafa lokið Mastersnámi í leturhönnun frá Reading háskóla á Englandi vann hann hjá Monotype í London við hönnun á leturgerðum fyrir alþjóðleg vörumerki.

Kalapi Gajjar-Bordawekar er leturhönnuður sem starfar við hönnun og þróun á leturgerðum fyrir Indversk stafróf. Eftir að hafa lokið Mastersnámi í leturhönnun frá Reading háskóla á Englandi starfaði Kalapi hjá letursmiðjunni Dalton Maag í London.

gunni.png
 
 
Laufskálavarða eftir Stáss arkitekta
Markmiðið í hönnun þjónustuhúsins við Laufskálavörðu var að færa þessa nauðsynlegu þjónustu við þjóðveginn upp á hærra plan. Í byggingunni tvinnast saman ólíkir notkunarmöguleikar þ.e. salernisaðstaða, útsýnispallur, þvottaaðstaða, hvíldarbekkur og aðstaða fyrir hjólreiðafólk. Allir þessir ólíku þættir er samtvinnaðir í eina heild. Sú krafa er gerð til arkitektúrsins að vera ekki einungis rammi um aðstöðu heldur einnig órjúfanlegur hluti af umhverfi sínu og færi náttúruupplifun notandans upp á hærra plan, sem samræmist staðnum, náttúrunni og útsýninu.
 
STÁSS Arkitektar er stofnað árið 2008 af þeim Árnýju Þórarinsdóttur og Helgu Guðrúnu Vilmundardóttur. Árný útskrifaðist sem MA, Master of Arts in Architecture frá Arkitektskolen i Aarhus í júní 2007 af deildinni “Arkitektúr og fagurfræði” Helga Guðrún útskrifaðist sem MA, Master of Arts in Architecture frá Det Kongelige kunstakademiet arkitektskole í janúar 2008 af deildinni ”Arkitektúr/þróun byggðar í borgum”.
 
laufskalavarda.png
 

 

 
Dómnefnd Hönnunarverðlauna Íslands skipa þau Sigríður Sigurjónsdóttir, hönnuður og safnstjóri Hönnunarsafns Íslands sem er formaður dómnefndar, María Kristín Jónsdóttir, hönnuður og varaformaður, Ragna Fróðadóttir, hönnuður, Þorleifur Gunnar Gíslason, hönnuður, Arna Sigríður Mathiesen, arkitekt og fulltrúi frá Listaháskóla Íslands, Margrét Kristín Sigurðardóttir fyrir Samtök Iðnaðarins og Daniel Byström, hönnuður og stofnandi Design Nation.
 
Við óskum þeim sem hlotið hafa tilnefningu til Hönnunarverðlauna Íslands 2022 innilega til hamingju. Afhending verðlaunanna fer fram fimmtudaginn 17. nóvember næst komandi í Grósku en þar verða ásamt Hönnunarverðlaunum Íslands 2022 veitt Heiðursverðlaun Hönnunarverðlauna Íslands og viðurkenning fyrir bestu fjárfestingu í hönnun á árinu sem er að líða.
 
Þar sem sætafjöldi á verðlaunaafhendinguna er takmarkaður býður Miðstöð hönnunar- og arkitektúrs gestum að skrá sig hér
 
Listaháskólinn er stoltur samstarfsaðilli Hönnunarverðlauna Íslands.