Í dag, föstudaginn 27. mars er Alþjóðlegur dagur leiklistar.

 
Sviðslistasambönd um allan heim birta ávörp í tilefni dagsins. Sviðlistasamband Íslands hefur fengið Margréti Bjarnadóttur danshöfund til þess að gera íslenska ávarpið en eins og áður á þessum degi eru hér birt tvö ávörp listamanna, eitt frá Íslandi og annað alþjóðlegt. Það alþjóðlega að þessu sinni er eftir Shahid Nadeem leikskáld frá Pakistan.
 
VIð óskum öllu sviðslistafólki og unnendum sviðslista til hamingju með daginn. 
 
Hér má lesa ávörpin tvö
 

Ávarp á alþjóðadegin leikshússins - Margrét Bjarnadóttir, danshöfundur 

Þegar leikhúsinu er lýst er oft talað um að það sé aðeins til í núinu. Leiklist og dans eru þau listform sem reiða sig á núið, raungerast þegar leikari eða dansari mætir áhorfanda og við öndum að okkur sama loftinu. Í dag veit aftur á móti heimurinn allur að það er varasamt að anda að sér sama loftinu. Að sitja í myrkvuðum sal, í miklu návígi við annað fólk, í nokkra klukkutíma er í besta falli bannað og í versta falli lífshættulegt. Árið 2020 er Alþjóðlega leiklistardeginum fagnað um allan heim á meðan leikhúsin standa tóm.
Það sem hefur alltaf heillað mig mest við leikhúsið eru áhorfendur sem kaupa miða, taka frá tíma, skipta jafnvel um föt, mæta á svæðið og ganga inn í algjöra óvissu en með von í brjósti og beina síðan óskiptri athygli sinni og einbeitingu að því sem fram fer á sviðinu. Í áhorfandanum birtist eftirvænting, forvitni og örlæti. — Í sameiningu hlaða flytjendur og áhorfendur salinn af orku.
Leiklist getur sýnt okkur hluti sem við höfum sjálf upplifað eða hluti sem aðrir hafa upplifað og við vitum að við munum aldrei í lífinu þurfa að reyna á eigin skinni – eða eitthvað sem við gætum mögulega átt eftir að ganga í gegnum síðar. Dans getur sýnt okkur eitthvað sem við vissum kannski ekki að byggi innra með okkur. – Eitthvað sem erfitt er að útskýra með orðum og verður ekki skilið með heilanum. Hvort tveggja, leiklistin og dansinn, eiga rætur í fórnum og fornum helgisiðum og e.t.v. er það þess vegna sem við förum í leikhús – af því að leikhúsið felur enn í sér möguleikann á tilfinningalegri útrás og hreinsun. Þegar vel tekst til þá bræðir leikhúsið íshelluna innan í okkur eins og Franz Kafka orðaði það – brýtur frosin úthöfin innra með okkur með exi – þannig að frumur sem legið hafa í dvala vakna á ný.
En það er sannarlega ekki alltaf gaman í leikhúsi. Leikhúsinu getur líka fylgt leiði sem þegar verst – eða best – lætur, getur látið mann ferðast út úr líkamanum. Rannsóknir benda til þess að manninum hafi aldrei leiðst jafn mikið eins og undanfarin ár. Á móti kemur að flóttaleiðirnar hafa aldrei verið fleiri. Undir eins og leiðinn birtist grípum við til allra þeirra tækja og tóla sem í boði eru til að dreifa athyglinni; við erum á stöðugum hlaupum undan leiðanum og teljum okkur jafnvel trú um að okkur leiðist bara alls ekki neitt. Við þurfum því æ sjaldnar að sitja með leiðanum, hlusta á hann og heyra hvað hann hefur að segja okkur. Það er ekkert mál að labba út í miðri bíósýningu, ganga fram hjá myndlistarverki eða leggja frá sér bókina. Raunar er leikhúsið einn af fáum stöðum sem eftir eru í samfélagi okkar þar sem við getum raunverulega upplifað leiða, ótrufluð, í nokkra klukkutíma. Það er ótrúlega mikið vesen að ætla út í miðri leiksýningu ... að klöngrast fram hjá sætaröðinni í rökkrinu, láta aðra standa upp fyrir sér og vekja á sér óþarfa og neikvæða athygli sem truflar bæði fólkið á sviðinu og í salnum.
En þegar leiðinn læðist að okkur og engin flóttaleið er í boði er eins og tilvist okkar sé stungið í samband við magnara. Og þá er ekki annað hægt en að leggja við hlustir.
Þetta er dýrmætt á okkar dögum. Leiðinn er mikilvægt afl, liggur mér við að segja. Afl sem má beisla og nýta til góðs. Leiði er ekki neikvæð tilfinning; það er ekkert rangt við að leiðast. Leiði er bara ástand og hann felur gjarnan í sér gagnlegar vísbendingar. Hann er mikilvæg tilvistarleg reynsla sem býr til pláss fyrir íhugun og endurskoðun. Það eru tækifæri í leiðanum, tækifæri til umbreytinga. Leiði er lognið á undan sköpun og húmor.
Einn af mörgum töfrum leikhússins er rýmið sem það opnar í hugum áhorfenda. Hvort sem sýningin vekur hlátur, grátur, reiði eða leiða þá komum við út reynslunni ríkari, vegna þess að leikhúsið hægir á tímanum og býr til pláss. Nú er þetta löngu farið að hljóma eins og ég sé einhver sérfræðingur í leiða – það er ég alls ekki – en ég get þó sagt að með honum hef ég átt mörg af mínum gjöfulustu og fyndnustu augnablikum. Á þessum ótrúlegu tímum sem við lifum, hef ég tekið eftir því að fyrir utan áhyggjur af kórónaveirunni og afleiðingum hennar hefur fólk haft töluverðar áhyggjur af því að því muni leiðast í sóttkvínni. – Á tímabili mátti vart á milli sjá hvort fólk óttaðist meira, veiruna eða leiðann.
Það er eins og við séum á risastórri leiksýningu – þeirri fjölmennustu í sögunni. Og rétt eins og í leikhúsinu er engin flóttaleið. Það eru allir í heiminum með hugann við það sama. Hver og einn speglar sig í aðstæðum og fréttum en jafnframt er komið gat á frosna íshelluna hið innra og nú sem aldrei fyrr leita tilfinningar og hugsanir sem legið hafa í dvala upp á yfirborðið. Við vitum nú þegar að við munum ekki ganga söm út af þessari leiksýningu.
Ég stend hér á auðu sviði fyrir framan mörg hundruð auð sæti. Um allan heim; milljónir auðra sæta. Nú gefst tóm til þess að velta upp spurningunni: hvers vegna leikhús? Þegar við stígum út úr þessu tímabili munum við sjá betur hvers við söknuðum. Hvað viljum við taka með okkur og hvað skiljum við eftir? Eins og staðan er núna bjóða öll auðu svið heimsins ekki upp á neitt – nema endalausa möguleika.
 
//
 

Boðskapur á alþjóðlega leiklistardeginum 27. mars 2020 eftir Shahid Nadeem, Pakistan

 

Leikhúsið sem helgiskrín.

Mér er það mikill heiður að semja boðskap Alþjóðlega leiklistardagsins 2020. Tilfinningin er fyrst og fremst auðmýkt, en einnig spenningur þar sem Alþjóða leiklistarsambandið, sem er áhrifamesta og virtasta leiklistarsamband heims, hefur viðurkennt pakistanskt leikhús og Pakistan almennt. Þessi heiður er einnig virðingarvottur við Madeeha Gauhar[1], leikhúsfrömuð og stofnanda Ajoka leikhússins[2]. Hún var jafnframt lífsförunautur minn og lést fyrir tveimur árum. Leið Ajoka leikhópsins var löng og torfær, bókstaflega af götunni og inn í leikhús. En svo sannarlega er saga margra leikhópa þannig. Það er aldrei eins og að sigla lygnan sjó. Alltaf barátta.
Ég er frá landi þar sem múslímsk gildi ríkja, þar sem nokkrar herforingjastjórnir hafa stjórnað með harðri hendi, - árásir trúarlegra ofstækishópa voru tíðar og við háðum þrjár styrjaldir við nágrannaland okkar Indland. Enn í dag lifum við í ótta við að stríð brjótist út við tvíburaland okkar og nágranna jafnvel kjarnorkustríð þar sem bæði lönd búa yfir kjarnorkuvopnum.
Stundum segjum við í spaugi: „Erfiðir tímar eru góðir tímar fyrir leikhúsið“. Það er enginn hörgull á alls kyns áskorunum sem við þurfum að horfast í augu við, þverstæðum sem þarf að afhjúpa, stöðnun sem þarf að kollvarpa. Leikhópur minn, Ajoka og ég höfum þrætt þennan vandfarna veg í meir en þrjátíu og sex ár. Þetta hefur svo sannarlega verið einstígi: Að halda jafnvægi milli skemmtunar og fræðslu, milli leitar og lærdóms af fortíðinni til undirbúnings framtíðinni, milli skapandi frjálsrar tjáningar og ævintýralegs uppgjörs við valdið, milli samfélagslegrar gagnrýni og fjárhagslega lífvænlegs leikhúss, milli þess að ná til fjöldans og vera framúrstefnuleg. Maður gæti sagt að til þess að geta unnið í leikhúsi þurfi fólk að vera töframenn. Í Pakistan hefur aðgreining hins trúarlega og hins veraldlega verið afar skýr. Hið veraldlega hefur ekkert pláss fyrir trúarlegar vangaveltur, og hið trúarlega leyfir hvorki opinskáar rökræður né nýjar hugmyndir. Íhaldsamar stofnanir álíta listir og menningu vera á bannsvæði vegna sinna „heilögu leika.“ Þannig að leiksvæði sviðslistafólks hefur verið eins konar hindrunarhlaup. Það verður fyrst að sanna að þau séu góðir múslimar og hlýðnir borgarar og reyna svo að semja um að dans, tónlist og leiklist sé „leyfð“ í islam. Margir trúræknir múslimar hikuðu þess vegna við að leyfa sviðslistir þótt dans, tónlist og leiklist væru fastir liðir í lífi þeirra. Og þá urðum við að jaðarmenningu og gátum sett hið heilaga og hið veraldlega á sama leiksvið.
Ajoka var stofnað á níunda áratugnum þegar herforingjastjórn ríkti í Pakistan. Það var hópur ungra listamanna sem mótmæltu einræði með samfélagslegu og pólitísku andófsleikhúsi. Þau fundu tilfinningum sínum, reiði og angist óvæntan farveg hjá súfaskáldinu[3] Bulleh Shah sem var uppi fyrir þrjúhundruð árum. Ajoka uppgötvaði að með hjálp skáldskapar hans gæti það mótmælt spilltu yfirvaldi og hræsnisfullri trúarelítu af ógnarlegum sprengikrafti. Yfirvöld gátu bannað okkur og hrakið okkur burt en ekki virt og vinsælt skáld eins og Bulleh Shah. Við uppgötvuðum að líf hans var jafn dramatírkt og róttækt og skáldskapur hans sem hafði valdið honum refsingum og bannfæringu. Þá skrifaði ég „Bulha“, leikritið um líf og baráttu Bulleh Shah[4]. Bulha, eins og allir í Suður-Asíu kölluðu hann, átti rætur í hefð súfí-skálda frá Punjab sem með líferni sínu og skáldskap efuðust og ögruðu valdi keisaranna og klerkavaldsins. Þeir skrifuðu á máli alþýðunnar um von hennar og þrá. Í tónlist og dansi fundu þeir leið til að koma á beinu sambandi milli manns og guðs án trúarlegra milligöngumanna, þeim til mikillar armæðu. Þeir höfnuðu kynja- og stéttaskiptingu og litu jörðina okkar með undrun og aðdáun sem birtingarmynd hins almáttuga.
Listráðið í Lahore hafnaði handritinu með þeirri útskýringu að það væri ekki leikrit heldur ævisaga. En þegar leikritið var sýnt á „afviknum stað“ nefnilega í Goethestofnuninni, sáu áhorfendur og skildu og dáðust að táknmyndunum sem birtist í lífi og skáldskap í alþýðuskáldsins. Fólkið gat fullkomlega samsamað sig lífi og tíma skáldsins og séð samsvaranir við sitt eigið líf.
Nýtt leikhús varð til þennan dag árið 2001. Trúarleg Qawwali[5] tónlist, súfí Dhamal[6] dansar og uppbyggjandi ljóðmæli, jafnvel hugleiðandi Zikirsöngur[7] urðu hluti af leiksýningunni. Nokkrir Sikhs[8] voru staddir í borginni á punjabískri ráðstefnu og höfðu litið inn á sýninguna og í lokin stukku þeir grátandi upp á leiksviðið, föðmuðu og kysstu leikarana.
Í fyrsta sinn eftir að Indlandi var skipt upp árið 1947 sem hafði miklar samfélagslegar breytingar í för með sér í Punjab, stóðu þeir ásamt múslímskum punjabbúum[9] saman á leiksviði. Bulleh Shah var nákvæmlega jafn mikilvægur þeim og múslímskum punjabbúum vegna þess að súfar taka ekki tillit til trúarlegra landamæra.
Í kjölfar þessarar eftirminnilegu frumsýningar, hófst hin mikla ævintýraferð með Bulleh Shah sem hófst með leikferð um indverska hluta Punjab og var Bulha sýnt á öllum hugsanlegum stöðum Indlands, jafnvel á tímum gríðarlegrar spennu milli landanna og á stöðum þar sem fólkið skildi ekki orð í púnjab-málinu en naut samt sem áður hverrar sekúndu sýningarinnar. Allar dyr að pólitísku samtali og sambandi lokuðust hver á fætur annarri en hlið leikhússins og hliðin að hjörtum Indverja héldu áfram að vera opin upp á gátt. Á leikferðinni um Punjabhérað árið 2004 og að lokinni afar vel heppnaðri sýningu fyrir þúsundir áhorfenda, kom gamall maður til leikara hins mikla súfa. Í fylgd með gamla manninum var ungur drengur. „Barnabarninu mínu líður mjög illa, gætirðu veitt honum blessun þína.“ Leikarinn varð undrandi og vissi ekki hvernig hann ætti að bregðast við og sagði: „Bahaji[10] ég er ekki Bulleh Shah, ég leik þetta hlutverk bara.“ Gamli maðurinn brast í grát og sagði: „Gerðu það blessaðu drenginn, ég er viss um að þá muni honum batna.“ Við ráðlögðum leikaranum að verða við bón hans og hann blessaði unga drenginn. Gamli maðurinn varð ánægður. Áður en hann fór sagði hann: „Sonur, þú ert ekki leikari, þú ert endurholdgun Bulleh Shah, Avatar[11] hans.“ Skyndilega rann upp fyrir okkur nýtt hugtak leiklistarinnar: Endurholdgun. Leikarinn endurholdgast í persónunni sem hann eða hún eru að sýna.
Í þau átján ár sem við höfum ferðast með „Bulha“ höfum við tekið eftir samsvarandi viðbrögðum hjá áhorfendum sem augljóslega voru ekki vanir sviðslistum. Sýningin er ekki einföld afþreying eða hvatning til hugsunar heldur andleg samkoma, sem snertir sálina. Leikarinn sem lék súfameistarann Bulleh Shahs, lifði sig svo inn í hlutverkið sem hafði þau djúpu áhrif á hann að hann varð sjálfur súfaskáld og hefur gefið út tvö ljóðahefti. Leikararnir sem tóku þátt í sýningunni hafa sagt frá því að þeir hafi fundið fyrir anda Bulleh Shah mitt á meðal þeirra og að leiksviðið hafi virst upphefjast á æðra plan. Indverskur fræðimaður skrifaði grein um sýninguna með titlinum „Þegar leikhús verður helgiskrín.“
Ég er veraldlegur maður og áhugi minn á súfisma er fyrst og fremst menningarlegur. Ég hef meiri áhuga á hinu leikræna og listræna í skáldskap súfa-skálda, - meir en áheyrendur mínir, sem eru ekki þröngsýnt ofstækisfólk, en kunna engu að síður að hafa einlægar trúarskoðanir. Með rannsóknum á sögum á borð við sögur Bulleh Shah – og þær eru afar margar í allri menningu - geta orðið til brýr milli okkar leikhúsfólksins og óreyndra og áhugasamra áhorfenda..
Saman getum við uppgötvað andlegar víddir leikhússins og byggt brýr á milli fortíðar og nútíðar, sem leiða inn í framtíð sem allir þrá: Trúaðir og trúlausir, leikarar og gamlir menn og barnabörn þeirra. Ástæðan fyrir því að ég deili sögunni af Bulleh Shah og reynslu okkar af eins konar súfaleikhúsi er vegna þess að þegar við stöndum á leiksviðinu hrífur oft á tíðum heimspeki okkar um leikhús okkur með sér, burt frá hlutverki okkar sem frumkvöðlar samfélagslegra breytinga og þar með náum við ekki til fjölda fólks. Þegar við tökum þátt í áskorunum samtímans sviptum við okkur möguleikanum á djúpum tilfinningum andlegrar upplifunar sem leikhúsið getur veitt okkur.
Í heimi nútímans þar sem fordómar, hatur og ofbeldi eru að aukast enn og aftur, deilur milli þjóða virðast aukast, trúaðir berjast gegn öðrum trúuðum og samfélög sá hatri gegn öðrum samfélögum ... á meðan deyja börn af vannæringu, mæður við fæðingu vegna skorts á læknishjálp og hugmyndafræði haturs er í fullum blóma.
Plánetan okkar sekkur dýpra og dýpra í loftslags- og veðurfarshörmungar og heyra má hófadyn hesta riddaranna á hinsta degi.[12] Við verðum að endurnýja andlegan styrk okkar; við verðum að berjast gegn afskiptaleysi, sleni og tómlæti, svartsýni og græðgi og berjast gegn öllum þjösnaskapnum gagnvart heiminum og jörðunni okkar. Leikhús hefur hlutverki að gegna, göfugu hlutverki, með því að styrkja og virkja mannkynið svo það rífi sig upp úr forarpyttnum sem það er að sökkva í. Það getur umbreytt leiksviði og sýningarrými í helgistað.
Í Suður-Asíu, snerta listamenn leiksviðið af lotningu áður en þeir stíga á það. Það er forn hefð frá tímum þegar hið andlega og menningarlega voru enn nátengd. Það er kominn tími til að enduruppgötva þetta samband listamanns og áhorfanda, fortíðar og framtíðar. Leiklist getur verið heilög list og leikarar geta svo sannarlega orðið avatarar hlutverkanna sem þeir leika. Leikhús lyftir list leikarans á æðra andlegt stig. Leikhús getur orðið helgiskrín og helgiskrínið orðið að leikrými.