Hönnunarsjóður úthlutaði í byrjun vikunnar 26 styrkjum til hönnunar- og arkitektúrverkefna. Alls bárust 126 umsóknir til sjóðsins en það er metfjöldi umsókna og ljóst að ástandið í kjölfar Covid 19 hefur haft þar áhrif. Auk þess úthlutaði sjóðurinn 19 ferðastyrkjum í fyrstu úthlutun 2020, en síðari úthlutun mun fara fram 15. október 2020.
 
Þrjú verkefni á vegum fastráðinna starfsmanna við Listaháskóla Íslands hlutu styrk og að auki hlutu þrír starfsmenn við hönnunar- og arkitektúrdeild ferðastyrk.
 
Bryndís Björgvinsdóttir lektor og Birna Geirfinnsdóttir fagstjóri í grafískri hönnun hlutu 1.000.000 kr styrk fyrir verkefnið Ferill og störf Kristínar Þorkelsdóttur en til stendur að setja saman bók um feril og störf grafíska hönnuðarins Kristínar Þorkelsdóttur sem hefur hannað mörg þekkt íslensk merki, eins og sjá má í mynd sem fylgir fréttinni. Kristín er hvað þekktust fyrir hönnun sína á íslensku peningaseðlunum.
 
Litten Nystrøm umsjónaraðili á prentverkstæði hlaut 800.000 kr styrk fyrir verkefnið Fields
 
Thomas Pausz lektor við hönnunar- og arkitektúrdeild hlaut 500.000 kr styrk fyrir verkefnið Non Flowers Book. Bókin mun endurspegla ferli og samstarf í tengslum við verkefnið Non Flowers for a Hoverfly ásamt því að innihalda myndir frá verkefninu sem var unnið í samstarfi milli Indlands, Helsinki og London. Innihald bókarinnar verða rit um möguleika og aðferðir til þess að nýta aðferðir hönnunar fyrir aðrar dýrategundir en manninn, hönnunarstofan Studio Kvika kemur til með að hanna bókina. Hægt er að lesa meira um verekfnið hér.
 
Þau sem hlutu ferðastyrk eru Massimo Santancchia fagstjóri í arkitektúr, Anna María Bogadóttir lektor í arkitektúr og Sigrún Birgisdóttir prófessor í arkitektúr.
 
Fjöldi hollnema LHÍ frá ólíkum fögum hönnunar og arkitektúrs hlutu styrki, bæði fyrir verkefnum og í formi ferðastyrkja. Þá fékk Halldór Úlfarsson, fyrrum starfsmaður hönnunar- og arkitektúrdeildar 1.200.000 kr styrk til að þróa hljóðfæri sitt Dórófón fyrir tónlistardeild Listaháskóla Íslands.
 
Listaháskólinn óskar styrkþegum innilega til hamingju.
 
merki-kristin.jpg
Nokkur af þekktustu merkjum Kristínar Þorkelsdóttur

Forsíðumynd fengin frá Hönnunarsjóði, Rán Flygering teiknaði.