Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands verða afhent við hátíðlega athöfn á Bessastöðum 29.janúar. Verðlaunin eru veitt þeim námsmönnum sem hafa unnið framúrskarandi starf við úrlausn verkefna sem styrkt voru af Nýsköpunarsjóði námsmanna árið 2019. Stjórn sjóðsins hefur valið fimm öndvegisverkefni en aðeins eitt þeirra hlýtur viðurkenninguna. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhendir verðlaunin en þau voru fyrst veitt árið 1996 og eru því nú veitt í tuttugasta og fimmta sinn. 
 
Verkefnin sem tilnefnd eru sem öndvegisverkefni eiga það sameiginlegt að vera vel unnin og frumleg en eru afar ólík innbyrðis og sýna vel þá fjölbreytni sem einkennir verkefni sem sjóðurinn veitir styrki til. Þessi fjölbreytni endurspeglar ennfremur það frjóa og margbreytilega starf og nám sem háskólanemar á Íslandi leggja stund á. Verkefnin sem tilnefnd eru til verðlaunanna eru:
 
Litun sjávarleðurs úr íslenskum plöntum
Möguleikar melgresis (Leymus arenarius)
Notendahugbúnaður Wave
Nýjar afurðir þörunga
Tengsl óeðlilegs blóðhags við bráða fylgikvilla og langtíma útkomu eftir skurðaðgerðir
 
Það gleður okkur að tvö af þessum verkum voru unnin í Listaháskólanum Litun sjávarleðurs úr íslenskum plöntum og Möguleikar melgresis.
Þar að auki eiga hollnemarnir í Genki Instruments tilnefningu fyrir verkefnið Notendahugbúnaður Wave
 
Hér má lesa nánar um verkefnin.

Litun sjávarleðurs úr íslenskum plöntum

Mikil mengun og sóun tengist sútun og litun á leðri í heiminum í dag. Rannsóknarverkefnið fjallar um möguleika jurtalitaðs sjávarleðurs úr fiskroði, sem vistvæns valkostar við framleiðslu á lúxusvarningi. Sjávarleður hentar mjög vel í slíka framleiðslu en það er létt og sterkt og hægt að nota á ýmsa vegu. Verkefnið er hluti af stóru alþjóðlegu og þverfaglegu rannsóknarverkefni sem heitir FISHSkin sem er styrkt af RISE Horizon 2020 rannsóknaráætlun Evrópusambandsins.  Það miðar að því að gera sjávarleður að umhverfisvænum valkosti við framleiðslu á lúxusvarningi og er unnið að framförum í öllum stigum framleiðslunnar, allt frá fiskeldi, sútun og litunaraðferðum til lokafrágangs og markaðssetningar.

Hráefnið er afgangsafurð matvælaframleiðslu og er lögð á áhersla á vistvænar aðferðir í öllu litunarferlinu. Í verkefninu var litið til notkunar íslenskra plantna til litunar en jurtalitun er lítt þekkt við litun á sjávarleðri. Lykilatriði verkefnisins var því að kanna möguleika á jurtalitun á sjávarleðri og leggja grunn fyrir áframhaldandi rannsóknir á aðferðinni. Lagt var mat á hvaða jurtir kæmu best til greina með vísan til fyrirliggjandi heimilda. Verkefnið byggir á menningarsögu og endurliti til eldri hefða en segja má að með því að rýna í menningararfleifðina hafi fundist vegvísar að framtíðarmöguleikum vistvænna vinnsluaðferða sem mögulegt er að bæta enn með nútímatækni. Ákveðnu úrtaki af þessum plöntum var safnað og gerðar voru prufur á minni skala til að kanna hvort aðferðin gengi upp og hvaða liti plönturnar gæfu frá sér. Niðurstöður verkefnisins voru jákvæðar, það hentar vel að lita sjávarleður með íslenskum plöntum og var lagður grunnur að íslensku litaspjaldi. Markmiðið er að koma af stað íslenskri framleiðslu á jurtalituðu sjávarleðri nú þegar fyrir liggur hvaða plöntur henta vel til framleiðslu hér á landi. Nýsköpun sem leið að umhverfisvænni framleiðslu er allra hagur ásamt því að vera atvinnuskapandi og dýrmæt útflutningsvara.
___________________________________________________________________________

Möguleikar melgresis (Leymus arenarius)
 

Með því líta til okkar nærumhverfis og finna staðbundin tækifæri til efnis- og matvælagerðar, getum við tekið skref í rétta átt og verið fyrirmyndir fyrir aðrar þjóðir. Í verkefninu Möguleikar melgresis (Leymus arenarius) var ljósi varpað á dulda möguleika við nýtingu melgresis á Íslandi. Kostir gresisins til landgræðslu eru ótvíræðir en hingað til hefur kastljósið lítið beinst að nærandi möguleikum og ávinningi þess fyrir mann og umhverfi.
Markmið verkefnisins var að kanna nýja möguleika í notkun melgresis með hugmyndavinnu og þróun á afurðum úr sjálfri plöntunni. Með því að sameina fagþekkingu og tæki úr verkfærakistu hönnunar var vonast til þess að hrinda mætti af stað vitundarvakningu um melgresi og sýna fram á gagnsemi þess í margvíslegu tilliti og þann styrk sem í því býr.
Melgresi (Leymus arenarius) vex víða, aðallega í sendnum jarðvegi, og er auðvelt að finna í íslenskri náttúru. Melgresi ber einstakan lit, er sterkt og tignarlegt á að líta. Melgresi sest að á svörtum sandi og dafnar þar vel, en það hefur þann eiginleika fram yfir aðrar tegundir að geta lifað af á svörtum foksandi. Í foksandi og á strandsvæðum landsins er lítill lífrænn jarðvegur en rætur melgresis ná að teygja sig gríðarlega langt niður í jarðveginn og ná í vatn og næringarefni sem engin önnur planta er fær um að gera. Segja má að plantan sé brú á milli svarta sandsins og samfelldrar gróðurþekju. Melgresi er mikilvægt í baráttu gegn jarðvegsrofi og eru fjölmörg svæði á Íslandi örfoka og bíða uppgræðslu. Með aukinni sáningu melgresis getur plantan gegnt stóru hlutverki við kolefnisbindingu úr andrúmslofti. Ætlum við okkur að nýta melgresið verðum við þó að tryggja áframhaldandi vöxt plöntunnar hér á landi.
Afrakstur og niðurstaða verkefnisins var hönnun á upplifun þar sem melgresi var meginhráefnið. Þeir sem áttu þess kost að njóta upplifunarinnar ímynduðu sér að þeir sætu í húsi einangruðu með melgresi, á stólum úr stilkum plöntunnar, við borð úr melgresiskvoðu. Á borðum var bæði matur og drykkur úr melgresi. Melottó úr melmjöli sem skolað var niður með bjór brugguðum úr melkorni. Að borðhaldi loknu tóku gestir lófafylli af melfræi með sér í þeim tilgangi að sá fræjunum í jörð og skila því til baka sem neytt var. Að sáningu lokinni mátti taka sér bók í hönd, prentaða á melgresispappír, og lesa sig í svefn.
Markmiðið með upplifunarhönnuninni var ekki síst að tengja upplifunina við daglegt líf fólks. Efla umhverfisvitund með því að miðla hugmyndum um aukna möguleika við staðbundna efnisgerð og matvælaframleiðslu með sjálfbærni að leiðarljósi þar sem áhersla var á að tryggja viðgang og vöxt melgresis þrátt fyrir nýtingu þess.
__________________________________________________________________________
Notendahugbúnaður Wave

Genki Instruments er ungt hátæknifyrirtæki, sem hefur það að leiðarljósi að gera samskipti okkar við tækni náttúrulega. Fyrsta vara fyritækisins er hringurinn Wave sem gerir tónlistarfólki kleift að stýra hljóði, móta það og senda skipanir með einföldum hreyfingum. Hringurinn þýðir blæbrigði mannlegrar tjáningar yfir í skipanir sem tölvur og tæki skilja, en hann nemur fínhreyfingar tónlistarmannsins og leyfir honum að hafa áhrif á sköpun sína á nýjan hátt. Að baki Genki Instruments stendur þverfaglegt teymi sem undanfarin ár hefur unnið nótt sem nýtan dag við að koma Wave á markað.

Snemma í notendaprufum Wave kom fram ósk tónlistarfólks að fyrstu kynni af hringnum yrðu betri og á sama tíma einfaldara að fara af stað við að tengja hreyfingar við hljóð. Því var sótt um styrk í Nýsköpunarsjóð námsmanna með það að markmiði að smíða sérhæfðan notendahugbúnað fyrir hringinn. Hugbúnaðurinn - sem hlotið hefur nafið Softwave - var hugsaður til að gera fyrstu kynni af Wave betri. Því átti að ná fram með því að einfalda tengingu hringsins við tölvuna og, það sem mikilvægara er, að hafa fyrirfram ákvarðaðar paranir á hljóði og hreyfingu til staðar, allt í einum pakka. Var það mat verkfræðinga Genki Instruments að hugbúnaðurinn yrði ekki fullbúinn fyrir komu Wave á markað í júlí 2019. Það stafar af því flækjustigi sem verkefnið felur í sér. Hugbúnaðurinn yrði að innihalda sérútbúna hljóðvél, samskiptalag við hringinn og notendaviðmót sem flókið yrði í útfærslu.
Þegar nemarnir tóku við verkefninu var til vísir að samskiptalagi hringsins við hugbúnaðinn og einnig hafði yfirhönnuður Genki Instruments, Jón Helgi Hólmgeirsson, hannað hráa virkni og útlit. Nemarnir tóku því við grunni sem þeir byggðu ofan á, með það að markmiði að útfæra notendaviðmótið. Verkefnið gekk vonum framar og er útkoma þess fullbúin vara sem er notuð af fjölda tónlistarfólks um allan heim. Það er ánægjulegt að segja frá því að Softwave kom út á sama tíma og Wave, langt á undan áætlun. Softwave jók bæði sölu og ánægju viðskiptavina, sem mátti glöggt sjá í ánægjukönnun sem send var út í kjölfar útgáfu.
 
Við óskum tilnefndum innilega til hamingju og hlökkum til að fylgjast með þessu flotta fólki okkar.