,,Það virðist sem hinn alþjóðlegi tónlistarbransi hafi búist við ákveðnum hljóðheimi frá íslensku tónlistarfólki og ef eitthvað annað kom, þá varð það fyrir vonbrigðum.  Það er ljóst að þessi sterka ímynd íslenskrar tónlistar getur haft jákvæð áhrif þegar tónlistarfólk er að reyna að fá athygli erlendis. Hins vegar getur hún haft neikvæð áhrif þar sem áheyrendur og blaðafólk vill aðeins fá mjög afmarkaða tegund af íslenskri tónlist, sem fellur að ímyndinni. Slíkt getur einnig haft í för með sér þrýsting á tónlistarfólk að skapa ákveðinn hljóðheim, eða stíl, og haga sér á ákveðinn hátt". 

 
Segir Þorbjörg Daphne Hall en hún fjallaði um ímynd íslenskrar tónlistar í doktorsverkefni sínu. Þorbjörg er fagstjóri fræða og dósent í tónlistarfræðum við tónlistardeild Listaháskóla Íslands þar sem hún hefur starfað frá 2010. Sjálf var hún nemandi við skólann og útskrifaðist með bakkalárgráðu í hljóðfæraleik árið 2006. Þorbjörg hlaut síðar meistaragráðu í tónlist frá Háskólanum í Nottingham en hún lauk doktornámi frá Háskólanum í Liverpool fyrir skömmu.
 
Þorbjörg er iðulega með mörg járn í eldinum en samhliða störfum sínum hjá LHÍ sinnir hún fjölþættum störfum og verkefnum sem flest eiga það sameiginlegt að tengjast heimi tónlistar á einn eða annan hátt.
Ritstjórn, rannsóknir, skrif fræðigreina og flutningur fyrirlestra eru aðeins brot af þeim verkefnum sem rata inn á borð Þorbjargar.
Doktorsverkefni hennar hefur vakið mikla athygli og umhugsun og snýr að hugmyndum um íslenskan hljóðheim í dægurtónlist 21. Aldar. Þar virðist sem sjálfsmynd þjóðar, ímyndir, landslag og náttúra skipa lykilhlutverk. Þorbjörg hefur fallist á að svara nokkrum spurningum og leyfa lesendum að skyggnast inn í líf doktorsins en fyrst segir hún frá bakgrunni sínum í tónlist.

 

,,Ég var lítil þegar ég hóf sellónám við Tónskóla Sigursveins. Ég fór síðar meir í Tónlistarskólann í Reykjavík og svo í Listaháskóla Íslands þar sem ég hélt sellónáminu áfram en var með áherslu á tónlistarfræði. Þaðan útskrifaðist ég vorið 2006. Árið eftir útskrift úr tónlistardeild tók ég kennsluréttindi í tónlist frá Listkennsludeild LHÍ og kenndi á selló og tónfræðigreinar í Tónskóla Sigursveins og tónlist í Laugalækjarskóla samhliða því.

Haustið 2007 fór ég til Bretlands í meistaranám í tónlist og varð tónlistardeildin í Háskólanum í Nottingham fyrir valinu. Þar kynntist ég fræðilegum skrifum um samband tónlistar og staða og lokaverkefni mitt var um hlutverk tónlistar í því að móta gagnmenningarlegt rými (e. countercultural space) í Kristjaníu í Kaupmannahöfn. Ég hóf störf við tónlistardeild LHÍ haustið 2010 en á sama tíma byrjaði ég í meistaranámi í menningarfræðum sem var samstarf milli Háskóla Íslands og Háskólans á Bifröst. Þar fjallaði ég áfram um samband tónlistar og staða og skoðaði samband Reykjavíkurborgar við tónlistarhátíðina Iceland Airwaves. Haustið 2012 hóf ég svo doktorsnám við Háskólann í Liverpool".

 

Afhverju var Háskólinn í Liverpool fyrir valinu?
 
Ég valdi Háskólann í Liverpool vegna þess að við tónlistardeildina þar starfar prófessor sem er einn fremsti fræðimaður á sviði tónlistar og staða. Ég hafði kynnst verkum hennar í meistaranáminu mínu í Nottingham og hélt svo áfram að nýta kenningar hennar í skrifum mínum í menningarfræðinni. Ég var svo heppin að ég fékk pláss hjá henni og svo hlaut ég einnig námsstyrk frá skólanum sem auðveldaði mér valið ennþá frekar. Ég hafði sótt um nokkra skóla í Bretlandi og á endanum stóð valið á milli Liverpool og Sheffield. Maðurinn minn heldur með Liverpool í ensku deildinni og það var því auðveldara að sannfæra hann um að flytjast með mér til Liverpool heldur en Sheffield.

 

Hver var kveikjan af umfangsefni doktorsritgerðarinnar?
 
Íslensk tónlist hefur verið álitin tjá eða birta í tónum eingangrun og afskekkta legu Íslands og tónlistin hefur verið talin hljóma eins og náttúran og landslag. Fyrirsagnir eins og 'Iceland’s music scene looks set to erupt’ og ‘Iceland’s music scene is as cool as a glacier’ birtast oft og greinarnar draga svo fram hvað íslensk tónlist er sérstök, stór miðað við fólksfjölda, framsækin, nýstárleg og fjölbreytt, svo ég nefni algeng lýsingarorð úr þessum greinum. Umhverfisþættir, svosem einangrun, lega landsins milli Evrópu og Norður Ameríku, dramatískt landslag, mikið myrkur og kuldi sem rekur fólk inn í æfingahúsnæði eða hljóðver eru einnig algeng sjón í erlendri umfjöllun um íslenska tónlist. Í gagnrýni á íslenskri tónlist má einnig sjá meiri áherslu á náttúru eða hvernig tónlistin er á einhvern hátt innblásin af landslagi, álfum eða öðrum staðalmyndum Íslands heldur en á tónlistina sjálfa.
Segja má að þetta hafi verið kveikjan að doktorsverkefninu. Ég var orðin þreytt á því að lesa umfjöllun eftir umfjöllun um þetta samband tónlistar við náttúru og landslag og langaði að kanna hvaða áhrif þetta hafði á tónsköpun og tónlistarfólk og hvaða þætti þau myndu draga fram sem höfuðeinkenni íslensku tónlistarsenunnar. Að mínu mati voru margir þættir sem höfðu áhrif á senuna sem ekki komust að í þessari einstrengingslegu birtingarmynd íslenskrar tónlistar í fjölmiðlum. Ég lagði því upp með að afbyggja þessar einfölduðu frásagnir um tengsl íslenskrar dægurtónlistar við náttúru og landslag sem oft hafa einkennt erlenda umfjöllun og sækja í íslenska þekkingu.

 

 
Hvað með aðferðarræði og niðurstöður rannsóknarinnar ?
 
Aðferðafræðin kemur úr ranni dægurtónlistarfræða með áherslu á kenningar um tónlist og staði. Rannsóknaraðferðin var eigindleg, þar sem ég nýtti bæði textagreiningu á fjölmiðlaumfjöllun, heimildarmyndum um íslenska tónlist, tónlistarmyndböndum og öðru kynningarefni tónlistarfólks og etnógrafíu til þess að fá sem fjölbreyttust gögn og sjónarhorn á viðfangsefnið. Tímabilið sem ég beindi sjónum mínum að var fyrsti áratugur 21. aldarinnar.
 
Í rannsókn minni kom í ljós að samband tónlistar við náttúru og landslags er mjög oft ein af fyrstu spurningum sem tónlistarfólk fær þegar það er í viðtali við erlenda miðla. Sem dæmi má nefna spurningar á borð við þetta:
 
„Hvers vegna kemur svona tónlist frá Íslandi, er það vegna hinnar fallegu náttúru“
eða
„er það kraftur náttúrunnar, elds og íss sem skapar þetta?“
 
Tónlistarfólk upplifir þessar spurningar oft sem klisjur og hafa tamið sér ólíkar leiðir til þess að takast á við þær. Sumir afneita þessum tengingum, á meðan aðrir vilja geðjast viðmælendum og svara á þann hátt sem viðmælandinn er að leita eftir. Þriðja leiðin er að beita húmor og/eða kaldhæðni og gera grín að þessari nálgun viðmælenda. Það er rétt að benda á það að ekki allir viðmælendur mínir vildu þó afneita áhrifum umhverfis á þeirra listsköpun en fæstir vildu þó kannast persónulega við þessa beinu tengingu við landslag og náttúru sem hafa orðið allsráðandi í ímyndinni.
 
Mínar niðurstöður sýna jafnframt að tónlistarfólk á oft í innri baráttu með samband sitt og tónlistarinnar við náttúru og landslag. Sumir styrkja þessi tengsl með listsköpun sinni og má nefna kynningarefni og tónlistarmyndbönd þar sem náttúra og landslag leika lykilhlutverk sem dæmi.
 
Tónlistarfólk nefndi að þau höfðu fengið tækifæri sérstaklega vegna þess að þau voru frá Íslandi og það er ljóst að þeir eru meðvitaðir um mátt ímyndarinnar og nýta sér hana til framdráttar.  Þessi smættun sem á sér stað á íslenskri tónlist í þessa einföldu ímynd er gagnleg þegar horft er til kynningar. Þessi einsleitni getur þó verið takmarkandi. Þeir sem falla ekki að þessari ímynd geta átt erfiðara uppdráttar en ella.
 
Hvaða möguleikar opnast með doktorsgráðunni?
 
Í raun má líta á doktorspróf sem einskonar ökuskírteini eða aðgangsheimild inn í fræðasamfélagið. Ég er búin að sýna fram á það að ég get haldið utan um rannsóknarverkefni og miðlað því á fullnægjandi hátt. Því hef ég nú t.d. möguleika á því að sækja um rannsóknarstyrki í samkeppnissjóði.  
 
Hvað er framundan? 
 
Það er ótrúlega margt framundan. Ég var komin með uppsafnaða þörf eftir öll þessi ár að vinna að nýjum rannsóknarverkefnum, þannig að allt haustið hefur farið í að skilgreina og skipuleggja næstu skref. Samhliða doktorsverkefninu vann ég að stórri rannsókn á viðtökusögu jazztónlistar á Íslandi í samstarfi við Ásbjörgu Jónsdóttur. Við erum búnar að safna gögnum um íslenska jazztónlist frá árunum 1930-1990 og erum byrjaðar að taka viðtöl við aðila tengda senunni. Þetta verkefni er langtímaverkefni sem mun ekki klárast fyrr en eftir tvö til þrjú ár.
Ég var svo að byrja á nýrri rannsókn um íslenskt hiphop í samstarfi við Kimberly Cannady sem er bandarískur tónlistarþjóðfræðing sem er starfandi á Nýja Sjálandi. Hiphop og tónlist sem er undir áhrifum frá hiphopmenningu er ein vinsælasta tónlistartegundin í dag, bæði hér heima og á mörgum stöðum erlendis. Okkur langar að skoða hvað gerist þegar tónlist sem á rætur sínar að rekja í menningu svartra í Bandaríkjunum flyst yfir til Íslands.
Þá er ég einnig að undirbúa rannsóknarverkefni um félagsleg áhrif og gildi tónlistariðkunar með ólíkum þjóðfélagshópum. Tónlistardeild LHÍ hefur frá upphafi lagt áherslu á að nemendur fari út á vettvang og vinni á skapandi hátt með fjölbreyttum hópum. Það eru tvær námsbrautir sem leggja sérstaka áherslu á þessa samfélagslegu vídd, Skapandi tónlistarmiðlun og Sköpun, miðlun og frumkvöðlastarf, og ég hef verið að taka þátt í slíkum verkefnum með þessum námsbrautum.
 
Mig langar einnig að þróa doktorsritgerðina mína í bók og ég hef verið í sambandi við Bloomsbury útgáfuna um að gefa það út og voru þau spennt fyrir efninu. Ég þarf bara að finna tíma til þess að fara í þá vinnu, því ég þarf að breyta efninu talsvert. Bæði hefur enginn áhuga á að lesa heilan kafla um aðferðafræði eða kortlagningu á fræðasviðinu í bók, sem er þó nauðsynlegt að hafa í doktorsritgerð. Þá hefur eitthvað af því sem er í ritgerðinni komið út sem fræðigrein eða bókarkafli og því þarf ég að vinna það áfram, því það er ekki hægt að gefa út sama efnið tvisvar.
 
Það verður spennandi að fylgjast með Þorbjörgu í framhaldinu og öllum hennar fjölmörgu verkefnum.
Við óskum henni innilega til hamingju með áfangann!