Thomas Pausz, hönnuður og aðjúnkt í vöruhönnun við Listaháskólann, á líflegt sumar að baki en í ágúst hélt hann vinnustofur í matjurtagörðum í London og í september sýndi hann afrakstur rannsókna sinna á túnfíflinum í Delfina Foundation í London.

Sýningargripirnir voru fíflakampavín, fíflagúmmígarður og fíflagúmmíteygjur en Thomas sló einnig upp fíflaveislu þar sem gestum bauðst að skoða garðinn og gúmmíið auk þess að gæða sér á kampavíninu, pasta með fíflapestói og fíflarótardrykk.

Verkefnið er framhald af löngum rannsóknum Thomasar á borgarbúskap í litlum görðum og gróðurhúsum þar sem ræktunaraðferðirnar hafa jákvæð áhrif á umhverfið og lögð er áhersla á hringrás efna og afurða.

Á undanförnum árum hefur Thomas og bent á öðruvísi framleiðslukosti en þá einhliða fjöldaframleiðslu nútímans þar sem hvert hráefni hefur nánast einn tilgang. Hann segir áhuga sinn á framleiðsluferlum vera menningarlegan í grunninn en samstarf og alhliða hringrásarhugsun spilar stórt hlutverk í hönnun hans á nýjum framleiðsluferlum sem stuðla samfélags- og umhverfislegum breytingum. Staðbundin framleiðsla og úthugsun á hverjum einasta lið ferlisins er þar aðalatriði. Að hans mati þurfum við að gera grundvallarbreytingar á matvenjum okkar og finna leiðir til að nota allan úrgang sem skapast við matarframleiðslu og gerð. Og einnig ættum við að leita að fegurð og merkingu í úrganginum, horfa á þessi ferli út frá menningu og möguleikum.

Thomas sýndi verkefnið Dandelion Full-Use í Delfina Foundation í London en hann bjó til garð á þaki stofnunarinnar þar sem hann ræktaði túnfífla sem innihalda gúmmí.

Hann notar túnfífilinn þannig sem dæmi um plöntu sem hægt er að rækta í þéttbýli og nýta samtímis á marga mismunandi vegu.

Thomas reynir að þurrausa fífilinn með því að búa til úr honum allar mögulegar afurðir, en með því að takmarka sig við aðeins eitt hráefni verða skilaboðin skýrari. Hann segir verkefnið samt í raun ómögulegt því hann muni aldrei geta kortlagt allar þær uppfinningar og efni sem fífillinn gæti verið efniviður í.

Thomast vekur einnig athygli á þeirri byltingu í matarmenningu sem er að eiga sér stað á Íslandi í dag. En nú er mikill áhugi fyrir vörum beint frá býli, bændamörkuðum, súrdeigsbrauðsæði hefur gripið landann og lífrænar vörur er að finna víða. Spurningin er hvort þessar innlendu vörur verði á borðum hins almenna Íslendings eða verði að fágætari lúxusvörum, eins og hefur gerst í mörgum evrópskum borgum.

Nánari upplýsingar um Delfina Foundation og sýninguna

Vefsíða Thomasar