Silja Elsabet Brynjarsdóttir kemur fram ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands fimmtudaginn 17. janúar nk. í Eldborg Hörpu en Silja er einn fjögurra ungra tónlistarmanna sem báru sigur úr býtum í keppninni Ungir einleikarar sem fram fór í október síðastliðnum. Keppnin og tónleikarnir eru samstarfsverkefni LHÍ og SÍ. 

Fjölbreytt efnisskrá Silju samanstendur af ljóðum og óperuaríum eftir Barber, Bizet, Mozart, Mahler og Sibelius. Tvö síðastnefndu tónskáldin eru, ásamt Oddgeiri Kristjánssyni, á meðal eftirlætistónskálda Eyjastúlkunnar Silju Elsabetar. Við báðum hana um að segja okkur frá tónlistarbakgrunni sínum og efnisskránni sem hún flytur á tónleikunum 17. janúar.

Fyrstu skrefin

Ég hef sungið alla tíð. Mamma segir oft að þegar ég var lítil, sofandi úti í kerru, hafi ég ekki vaknað grátandi heldur syngjandi.

Ég er fædd og uppalin í Eyjum og þegar ég var sex ára tók ég þátt söngkeppni barna sem fram fór á Þjóðhátíð. Að keppni lokinni var mér boðið að gerast meðlimur í Litlu lærisveinunum, barnakór Landakirkju, og þá var ekki aftur snúið.

Á þessum tíma byrjaði ég líka að læra á píanó. Eftir langar samningaviðræður við píanókennarann minn komumst við að samkomulagi um að ég myndi reyna að spila eitt lag á píanóið í hverjum tíma og svo myndi hann spila eitt lag og ég syngja. Stuttu eftir þetta ákváðum við mamma að söngnámið hentaði mér betur.

Söngkennararnir

Ég byrjaði í barnakór hjá Helgu Jónsdóttur, og eftir það fór ég í frekara söngnám í Tónlistarskólanum í Vestmannaeyjum. Þar voru kennarar mínir Anna Alexandra, Annika Tonuri og Sólveig Ragnarsdóttir. Píanókennarinn minn, sem varð síðar meðleikari minn í gegnum námið mitt þar, var Guðmundur H. Guðjónsson, organisti.

Ég hóf nám við Söngskólann í Reykjavík haustið 2011 og stundaði nám þar í fjögur ár. Allan minn námstíma var söngkennarinn minn Elísabet F. Eiríksdóttir og meðleikari minn Elín Guðmundsdóttir.

Eftir að ég lagði land undir fót og hóf nám í London hef ég haft tvo söngkennara. Fyrsta árið mitt lærði ég hjá Mary Nelson en síðan skipti ég um kennara og hef verið að læra hjá Alex Ashworth undanfarin þrjú ár.

Hinn týpíski dagur

Hefðbundinn vinnudagur er örlítið mismunandi eftir dögum. Ég er í námi og skólinn hefst alla virka daga klukkan 9 og lýkur á bilinu 18 - 19. Ég reyni að nýta tíma á milli kennslustunda til æfinga og æfi a.m.k. tvær klst á dag. Kvöldin fara oft í verkefnavinnu, pappírsvinnu fyrir tónleika, að afla mér upplýsinga um tónverkin sem ég er að vinna með o.s.frv.

Þegar ég á frí finnst mér gaman að lesa og horfa á Netflix. En bestu fríin eru hér heima á Íslandi, þá fær maður algjört mömmudekur og þarf ekki að hugsa um neitt nema sönginn.

Uppáhaldstónskáldin

Þar sem ég hlusta á tónlist úr öllum áttum finnst mér rosalega erfitt að nefna uppáhaldstónskáld. Það skiptir mig ekki máli hvenær eða af hvaða tegund tónlistin er heldur einungis hversu djúp áhrif hún hefur á mig.  Í klassíska heiminum eru Verdi, Mahler og Sibelius efstir á lista.

Þar sem ég kem frá Vestmannaeyjum hefur Oddgeir Kristjánsson líka haft ofboðslega mikil áhrif á tónlist í mínu lífi. Það er engin önnur tónlist sem ég tengi jafn sterkt við og ristir eins djúpt í mínu hjarta.

 

 

Eftirlætisflytjendur

Sigríður Ella Magnúsdóttir hefur verið mín uppáhaldssöngkona síðan ég byrjaði í klassíska söngnáminu. Svo hrífst ég af mjög mörgum ef ekki flestum okkar frábæru flytjendum. Og fyllist alltaf þjóðarstolti þegar ég sé einhvern af okkur gera það gott.

Áhrifamikil tónverk

Það eru nokkur tónverk sem hafa haft ofboðslega sterk áhrif á mig. Þar má nefna Sinfóníu nr. 2 eftir Mahler og Carmen eftir Bizet. Í öðru en klassík hafa söngleikirnir alltaf átt stóran hluta af mér og þar má nefna Phantom of the Opera og Love Never Dies eftir Andrew Lloyd Webber.

Efnisskráin 17. janúar

Það tók mig nokkur ár að ákveða að taka þátt í Ungum einleikurum þar sem mér fannst ég aldrei vera með nógu góða efnisskrá eða „repertoire“ en loksins fann ég hana.

Habanera var fyrsta arían sem ég lærði svo hún hefur fengið að þroskast og þróast með mér. Öll hin verkin eru ný og þeim fylgja mismunandi áskoranir.

Þegar ég var að læra Urlicht eftir Mahler leið mér eins og ég ætti aldrei eftir að ná þeirri öndunnarfærni sem þarf í það ljóð. Aría Dorabellu hefur líka verið smá hausverkur þar sem hún liggur mjög hátt. En með æfingu og tækni kom þetta allt saman - held ég! Þetta eru allt verk sem að mér finnast stórkostleg og hreyfðu mikið við mér þegar ég heyrði þau í fyrsta sinn. Ég vonast til að hreyfa þannig við áheyrendum.

Mest krefjandi / mest gefandi

Mér finnst öndunin erfiðust, þegar komið er á svið og stressið farið að segja til sín er eins og öndunin gleymist. En um leið og ég næ að finna fyrir tónlistinni innra með mér þá er eins og líkaminn taki bara við og ég þarf ekkert að gera.

Það er hins vegar mest gefandi hvað tónlistin getur spilað á margar tilfinningar því tónlist er tilfinning.

Ég elska að fá að sýna áheyrandanum allan tilfinningaskalann sem ég upplifi þegar ég flyt verk. Það finnst mér einstaklega heillandi og krefjandi á sama tíma.

Verkin sem Silja Elsabet syngur ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands á tónleikunum 17. janúar:

Samuel Barber: Must the Winter Come So Soon, úr Vanessu
W.A. Mozart: Smanie implacabili, úr Cosi fan tutte
Gustav Mahler: Urlicht, úr Sinfóníu númer 2
Jean Sibelius: Var det en dröm, úr Fimm söngvum op. 37
Georges Bizet: Habanera, úr Carmen

Fleiri svipmyndir af ungum einleikurum / einsöngvurum birtast á vef LHÍ næstu daga en auk Silju munu þau Guðbjartur Hákonarson, fiðluleikari, Hjörtur Páll Eggertsson, sellóleikari og Harpa Ósk Björnsdóttir, söngkona, koma fram á tónleikum með Sinfóníuhljómsveit Íslands, 17. janúar næstkomandi. Hljómsveitarstýra er hin brasilíska Ligia Amdaio.