Harpa Ósk Björnsdóttir syngur aríur eftir W. A. Mozart, Leonard Bernstein og Gustave Charpentier ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands á tónleikunum Ungir einleikarar sem fram fara í Eldborg Hörpu, 17. janúar 2019. Harpa er einn fjögurra ungra tónlistarmanna sem báru sigur úr býtum í keppni sem fram fór í október síðastliðnum en allir sigurvegararnir koma fram á fyrrnefndum tónleikum. Tónleikarnir eru samstarfsverkefni Listasháskóla Íslands og SÍ. Stjórnandi á tónleikunum verður hin brasilíska Ligia Amadio.

Samhliða söngnámi hefur Harpa stundað nám í rafmagnsverkfræði og mun útskrifast með B.Sc gráðu frá HÍ í febrúar næstkomandi. Hún stundar bakkalárnám á söngbraut LHÍ og segist hlakka til að fá tækifæri til að einbeita sér alfarið að söngnum þessa önnina. Harpa svaraði nokkrum spurningum um tónlistarbakgrunninn og efnisskrána sem hún flytur á tónleikunum 17. janúar.

Tónlistarnámið

Ég byrjaði að æfa á fiðlu 3 ára og svo á píanó 4 ára í Suzukiskólanum hjá Lilju Hjaltadóttur og Kristni Erni Kristinssyni. Svo færði ég mig yfir í Tónlistaskóla Kópavogs og lærði þar á píanó til 18 ára aldurs, fyst hjá Julian Hewlett og síðan hjá Unni Jensdóttur.

Ég hef sungið í ýmsum kórum, byrjaði hjá mömmu (Heiðrúnu Hákonardóttur) í Kór Snælandsskóla og fór svo yfir til Jónsa (Jóns Stefánssonar) í Gradualekórinn 14 ára. Þar fékk ég fyrst áhuga á söngnum og prófaði að mæta í söngtíma hjá Þóru Björnsdóttur í kórskóla Langholtskirkju. 

Ég fór svo yfir í Söngskólann í Reykjavík til Ólafar Kolbrúnar Harðardóttur þegar ég var sautján og var þar hjá henni þangað til ég útskrifaðist úr Söngskólanum 2018, en hún er einn fjögurra kennara minna í Listaháskólanum.  Þar stunda ég bakkalárnám undir leiðsögn Ólu, Þóru Einarsdóttur, Hönnu Dóru Sturludóttur og Kristins Sigmundssonar. Mér fannst erfitt að sleppa takinu á Ólu við útskriftina frá SR svo það er gott að geta ennþá notið leiðsagnar hennar í Listaháskólanum.

Ég hef alltaf verið í miklu kórstarfi samhliða píanónáminu og má segja að þar hafi áhuginn kviknað. Það var svo í Gradualekórnum sem ég fékk fyrst að prófa að mæta í söngtíma og þá var ekki aftur snúið. Þar af leiðandi minnkaði hins vegar áhuginn á píanóinu hægt og rólega og þegar ég var 18 ára valdi ég sönginn fram yfir píanóið þegar kröfurnar voru orðnar þannig að ég þurfti að velja á milli. Ég sé svo sannarlega ekki eftir því í dag.

Vinnudagurinn

​Ég tel almennt ekki tímann sem fer í æfingar, það er svo ótrúlega mismunandi og fer auðvitað algjörlega eftir verkefnum og önnum.

Það má kannski ekki segja að ég sé hinn hefðbundni söngnemandi þar sem ég hef alla ævi stundað akademískt nám samhliða söngnum, en ég útskrifast núna í febrúar með B.Sc. gráðu í rafmagnsverkfræði frá Háskóla Íslands. Þó hefur mér alltaf tekist að sinna báðu vel en ég verð að viðurkenna að ég hlakka til að fá í fyrsta skipti að einbeita mér alfarið að söngnum þessa önnina.

Núna þessa dagana hef ég verið að undirbúa tónleikana og því ekki gefist mikill tími í æfingar fyrir annað en prógrammið mitt í Ungum einleikurum. Það hefur verið mjög skemmtilegt ferli og það verður gaman að fá að vinna með Sinfóníuhljómsveitinni í næstu viku.
 

Eftirlætin

Mér þykir erfitt að velja á milli tónskálda því þau eru jafn mörg og þau eru ólík. Ég hef alltaf verið veik fyrir rússneskri tónlist, sérstaklega held ég upp á rússneska kórtónlist og er uppáhalds kórverkið mitt The Mysterious Nativity (Странное Рождество видевше) eftir Sviridov. Ég á líka mörg íslensk uppáhaldstónskáld og er Jórunn Viðar efst á lista. Einnig má nefna Debussy, Sibelius, og auðvitað Mozart og Bach.

Ég á mér svo sem engan einn uppáhalds flytjanda, en þær söngkonur sem ég hef mest fylgst með eru Diana Damrau og Elsa Dreisig, það væri gaman að fá að hlusta á þær á sviði einn daginn.

 

 

Efnisskráin

Ég ákvað að velja þær aríur sem mér þætti skemmtilegast að syngja, en ég vildi líka hafa þær ólíkar svo mér tækist að sýna fleiri en eina hlið. Þetta eru allt verk sem ég hef sungið áður á sviði en ég er ótrúlega spennt að fá að flytja efnisskrána með Sinfóníuhljómsveitinni í Eldborg.

Depuis le jour (eftir Charpentier) er uppáhalds arían mín, ég kunni fyrst almennilega að meta hana þegar ég vann hana í vikulöngum masterclass í Austurríki sumarið 2017 og ég hef reglulega sungið hana og vaxið með henni síðan. Ég veit um fátt skemmtilegra en að syngja aríu Kúnígúndar, Glitter and be gay (eftir Bernstein), þar sem ég fæ að túlka mikinn tilfinningarússíbana hennar, og það verður gaman að ljúka mínum hluta á aríu Næturdrottningarinnar.
 

Áskoranirnar

Þetta hefur verið þroskandi ferli. Ég hef fengið að vinna verkin bæði með mínum kennurum og með erlendum kennurum og það hefur verið lærdómsríkt. Ég var svo heppin að hitta kennara sem heimsóttu LHÍ í haust sem sérhæfðu sig í mismunandi tónlist, m.a. hitti ég Ryan Driscoll, kennara frá NYU sem sérhæfir sig í söngleikjatónlist og Claire Rutter, bresk óperusöngkona sem hefur sungið mikið bel canto, og því gaman að fá allt öðruvísi endurgjöf frá þeim en ég hafði áður fengið.