Sellóleikarinn Hjörtur Páll Eggertsson er einn fjögurra einleikara sem fram koma á tónleikum með Sinfóníuhljómsveit Íslands fimmtudagskvöldið 17. janúar nk. og spilar þá einleik í hinum magnaða sellókonserti Edwards Elgars. Konsertinn á aldarafmæli í ár, frumfluttur af sellistanum Felix Salmond og London Symphony Orchestra í október 1919 og fékk þá vægast sagt hrikalega útreið. Ástæðan mun fyrst og fremst hafa verið hinn naumi æfingatími sem hljómsveitin fékk til að æfa verkið. Rúmum fjórum áratugum síðar skaut samlanda Elgars, enski sellóleikarinn Jacqueline Du Pré verkinu upp á stjörnuhimininn í hljóðritun sem kom út hjá EMI 1965. 

Einfaldar laglínur en á sama tíma fullar af trega og sorg er eitt af því sem Hjörtur Páll nefnir þegar hann er spurður hvað heilli hann við verkið. Við báðum Hjört Pál um að svara nokkrum spurningum um tónlistarnámið og konsertinn.

 
Af hverju selló?

Ég var 5 ára gamall þegar ég byrjaði að læra á selló. Ég átti upprunalega að læra á fiðlu eins og systkini mín, en þegar ég uppgötvaði geisladisk með sellistanum Pablo Casals í safni pabba míns var ekki aftur snúið. Mig langaði til þess að læra á selló.

Kennararnir

Fyrsti kennarinn minn var Örnólfur Kristjánsson en ég lærði síðar hjá Gunnari Kvaran og Sigurgeiri Agnarssyni, ásamt því að hafa lært hjá Liv Opdal þegar ég bjó í Noregi í eitt ár. Nú læri ég hins vegar hjá Morten Zeuthen í Kaupmannahöfn.

Hinn dæmigerði vinnudagur

Ég reyni að æfa mig í alla vega 4 - 5 tíma á hverjum degi. Það er hins vegar breytilegt eftir því hvað ég hef mikinn tíma á hverjum degi fyrir sig. Stundum get ég æft mig meira, en aðra daga er ég mjög upptekinn og næ ekki að æfa mig eins lengi.

Uppáhaldstónskáldin og -hljóðfæraleikarnir

Ég á það til að taka tímabil þar sem ég tek fyrir ákveðin tónskáld. Núna eru t.d. tónskáldin Gérard Grisey og Sofia Gubaidulina í mikilli hlustun hjá mér. Ég get samt hlustað á Bach, Mozart, Shostakovich og Bartók endalaust.

Ef ég ætti að velja einn flytjanda þá væri það rússneski sellistinn Mstislav Rostropovich.

Af hverju Elgar 

Mig hefur alltaf langað til þess að spila konsertinn, alveg síðan ég heyrði hann fyrst og það hefur verið virkilega gaman en á sama tíma erfitt að takast á við verkið. Ég finn þó strax að ég hef lært ótrúlega mikið af þessu ferli, bæði að læra heilan konsert utan að og að undirbúa hann fyrir keppni og tónleika.

Hvað er mest gefandi/krefjandi við konsertinn?

Það sem mér finnst langerfiðast en á sama tíma mest heillandi við verkið eru laglínur Elgars. Honum tekst á einhvern magnaðan hátt að skrifa laglínur sem eru mjög einfaldar en á sama tíma svo fullar af trega og sorg. Að gera grein fyrir jafnvæginu þar á milli, á sama tíma og maður einbeitir sér að tæknilegum smáatriðum, er mjög erfitt en ótrúlega gefandi.