Guðbjartur Hákonarson fiðluleikari er einn fjögurra ungra einleikara / einsöngvara sem fram koma á tónleikunum Ungir einleikarar sem fram fara fimmtudaginn 17. janúar 2019 í Eldborg Hörpu.

Auk Guðbjarts munu Harpa Ósk Björnsdóttir, sópran, Hjörtur Páll Eggertsson, selló og Silja Elsabet Brynjarsdóttir, mezzósópran koma fram ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands en fjórmenningarnir voru hlutskörpust í keppni sem fram fór í október síðastliðnum í Hörpu.

Á efnisskrá verður tónlist eftir Bizet, Elgar, Mahler, Mozart, Sibelius og fleiri en tónleikarnir eru samstarfsverkefni Listaháskóla Íslands og Sinfóníuhljómsveitar Íslands.

Guðbjartur Hákonarson stundar nám í Bandaríkjunum um þessar mundir og á tónleikunum 17. janúar flytur hann fiðlukonsert Jean Sibeliusar ásamt SÍ. Hann svaraði nokkrum spurningum um tónlistarbakgrunn sinn og viðfangsefni þessa dagana en við birtum svipmyndir af einleikurunum / einsöngvunum næstu daga á vef LHÍ. 

Af hverju fiðla og hvernig hefur fiðlunáminu verið háttað?

„Ég var fimm, að verða sex, þegar ég byrjaði að læra á fiðlu. Ég man skýrt eftir því að hafa setið við eldhúsborðið heima þegar mamma spurði mig upp úr þurru hvaða hljóðfæri ég vildi læra á og taldi upp nokkra valkosti. Ég man svo sem ekkert hver hin hljóðfærin voru, en ég man skýrt eftir því að hafa bara sagt fiðlu án mikillar umhugsunar.“ 

„Ég var heppinn, því að ég held að ég hefði örugglega aldrei endað sem fiðluleikari ef ég hefði ekki byrjað að læra hjá Gígju Jóhannsdóttur í Tónmenntaskólanum í Reykjavík. Eftir að hafa lært hjá Gígju lærði ég hjá Ara Þór Vilhjálmssyni, í Tónlistarskólanum í Reykjavík, Guðnýju Guðmundsdóttur í LHÍ, Sigurbirni Bernharðssyni í IU Jacobs og nú í vor klára ég bakkalárnámið mitt undir leiðsögn Mauricio Fuks.“

Er til hefðbundinn vinnudagur?

„Núna þessa dagana er ég bara að nýta tímann sem best í að undirbúa tónleikana. Úti æfi ég mig hins vegar á milli tónfræðitíma, hljómsveitar- og kammeræfinga.

Ég er ekki sérlega hrifinn af því að leggja of mikla áherslu á hversu marga klukkutíma fólk æfir sig, því fólk lærir mishratt og æfir sig líka misvel. Fyrir mér er mikilvægt að nýta tímann sem best þegar ég æfi mig, en það skiptir einnig máli hvað gerist fyrir utan æfingaherbergið. Ég reyni þess vegna alltaf passa upp á að fá góðan svefn, borða hollan mat og að stunda reglulega hreyfingu og hugleiðslu.“ 

Uppáhaldstónskáld og -hljóðfæraleikarar?

„Ég hef aldrei haft mikla tilhneigingu til að eiga margt „uppáhalds“. Ég á mér þess vegna ekki uppáhaldstónlist rétt eins og ég á mér ekki uppáhaldslit. Mér finnst allir litir fallegir í því samhengi sem hæfir þeim. 

Ef ég þyrfti annars að velja myndi ég segja að uppáhaldstónskáldin mín séu Bach og Beethoven. Ég elska hreinlega allt eftir Bach. Og nánast allt eftir Beethoven, sérstaklega það sem hann samdi á seinni hluta ævinnar. 

Og hvað hljóðfæraleikara varðar get ég nefnt að þessa dagana er ég mjög hrifinn af fiðluleikaranum Augustine Hadelich. Ég sá hann spila Brahms fiðlukonsertinn í Aspen og svo hélt hann masterklass í skólanum mínum í haust. Hann er ótrúlegur.“

 

 

Af hverju fiðlukonsert Sibeliusar?

„Þetta er verk sem mig hefur alltaf langað til að spila með hljómsveit. Ég man líka vel eftir því að hafa verið gutti þegar Páll Palomares spilaði Sibelius eftir að hafa sigrað Unga einleikara og ég var svo þvílíkt inspíreraður að mig hefur alltaf langað til að spila hann sjálfur með hljómsveit eftir það.“ 

Hvað er mest gefandi / mest krefjandi við verkið?

„Það er gefandi að finna fyrir því hvernig manni hefur farið fram á því að takast á við verkið. Það er margslungið og tæknilega er nóg að gera fyrir báðar hendur en tónmálið sem Sibelius notar er svo fallegt að maður nánast gleymir bara að þetta sé eitthvað tæknilega erfitt. Það er líklegast það sem er svo magnað við þennan konsert“ segir Guðbjartur Hákonarson að lokum.

ungir.einleikarar.jpeg