Hrosshúðir eru mjög vannýtt hráefni hérlendis, en þeim er oftast fargað eða þær sendar utan til frekari vinnslu. Hönnunarteymið Studio Trippin, sem samanstendur af Kristínu Karlsdóttur fatahönnuði og Valdísi Steinarsdóttur vöruhönnuði, einsetti sér í ársbyrjun 2017 að rannsaka hvort hægt væri að nýta húðirnar, en báðar eru Kristín og Valdís hollnemar hönnunar- og arkitektúrdeildar Listaháskóla Íslands. Sumarið 2017 hlutu þær styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna fyrir verkefnið Trippi: Tveir ótamdir hönnuðir kanna nýtingarmöguleika íslenskra hrosshúða og var verkefnið síðar tilnefnt til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands. Sú grein sem hér birtist er unnin upp úr umfjöllun þeirra Kristínar og Valdísar um verkefnið.
 
studio_trippin.jpg
 
 
Varaðar við viðfangsefninu
Valdís og Kristín segja frá því að þeim hafi raunar ítrekað verið ráðið frá því að velja hrosshúðir sem viðfangsefni sitt, þar á meðal af feldskerum og súturum, vegna þess hve erfitt væri að vinna með þær. „Niðurstaða vinnu síðasta sumars var engu að síður sú að hrosshúðir eru fjölbreytt og vannýtt hráefni og vel til þess fallið að nýta í ýmiss konar hönnunarvöru ef farið er með það af kunnáttu og alúð,“ skrifa þær.
 
Þær útskýra að af þessum sökum hafi aðalviðfangsefni verkefnisins verið víðtæk könnun á möguleikum hráefnisins til notkunar í hönnunarvöru, t.a.m. fatnað, aukahluti og innanstokksmuni. Þá útskýra þær að sú vinna hafi aðallega falist í því „að afla þekkingar á hrosshúðum og hvernig best er að vinna með þær, m.a. með því að heimsækja íslenska sútara og læra að súta af eigin rammleik. Einnig var kannaður möguleikinn á því að lita loðnar hrosshúðir með náttúrulegum aðferðum og var niðurstaða þeirrar vinnu vel heppnað „loðið litaspjald“.“
 
„Margir þeirra sem vinna með skinn veigra sér við að súta og nýta hrosshúðir vegna eiginleika þeirra, en þær geta verið afar stífar ef þær eru ekki meðhöndlaðar á ákveðinn hátt við sútun,“ útskýra Kristín og Valdís og bæta því við að þykkt þeirra sé „jafnframt ójöfn, sem gerir það að verkum að frekari vinna með þær, t.d. sníðagerð, er flóknari en ella. Hrosshúðir eru afar þykkar við afturendann en þynnast svo upp í aflangan þríhyrning sem endar þar sem faxið tekur við. Húðin er síðan mjög þunn á hálsi og leggjum skepnunnar sem er ólíkt t.d. nautshúðum sem eru fremur jafnar að þykkt yfir allan búkinn.“
 
 
studiotrippin-slippers.jpg
 
 
Ábyrg og fjölbreytt framleiðsla
Hrosshúðir eru afgangsafurð í kjötvinnslu hér á landi og settu Valdís og Kristín sér það markmið að búa til verðmæti úr séríslensku hráefni sem er að stórum hluta álitið rusl. „Rík áhersla er lögð á að samtvinna smekklega íslenska hönnun við hugvit og verkkunnáttu í því skyni að skapa eigulega og vandaða hönnunarvöru,“ segja þær í umfjöllun sinni og greina frá því að „sambærilegustu efniviðirnir við sútaðar hrosshúðir eru annars vegar feldur af loðdýrum og hins vegar gervifeldur. Með aukinni vitundarvakningu um bágar aðstæður loðdýra í loðdýraræktun hafa margir kosið að klæðast gervifeldi fremur en alvöru skinnum. Hins vegar er raunin sú að ekta feldur brotnar niður í náttúrunni á meðan slíkt náttúrulegt niðurbrot er ekki til staðar í gervifeldi, enda uppistaðan í honum plastefni. Af þessum sökum getur það tekið gervifeld mjög langan tíma að brotna niður í landfyllingu.“
 
Þær benda á að einn stærsti kosturinn við íslenskar hrosshúðir sé sá að hesturinn er í langflestum tilfellum ræktaður sem gæludýr sem tryggir honum gott atlæti, ólíkt þeim dýrum sem ræktuð eru aðeins vegna feldsins. Þá segja þær náin tengsl okkar við hesta jafnframt veita þeim sem rækta hesta og slátra ríkt aðhald.
 
Meðal þess sem Kristín og Valdís undir merkjum Studio Trippin hafa hannað úr hrosshúðum eru pelsar, rugguhestar, kragar, inniskór, púðar og handtöskur. „Á Íslandi fyrirfinnst hráefni sem gefur Íslendingum sérstöðu í hönnunarheiminum,“ segja Valdís og Kristín og  og telja það því á ábyrgð hönnuða að finna lausnir á nýtingu ónotaðra auðlinda eins og hrosshúða í þeim tilgangi að skapa arð af einhverju sem annars er litið á sem rusl.
 
Þær ljúka umfjöllun sinni á greinargóðri niðurstöðu: „Sjálfsagt er að líta sér nær um hráefni og vörur í stað þess að leita langt yfir skammt, og flytja inn hráefni sem vel væri hægt að skapa frá grunni hérlendis og þar af leiðandi skapa hönnun sem er einstök á heimsvísu. Tækifæri til aukinnar innlendrar verðmætasköpunar felst í því að nýta húðirnar betur með því að búa til góða vöru sem er hönnuð og framleidd hérlendis. Þar með breyttist kostnaður við förgun í verðmæti.“
 
studiotrippin-blue_rocking_horse.jpg