Stuart Skelton hefur verið ráðinn sem gestaprófessor við LHÍ. 

Stuart Skelton hefur verið ráðinn sem gestaprófessor við Listaháksóla Íslands. Stuart Skelton er í fremstu röð tenórsöngvara í óperuheiminum. Hann mun starfa með söngkennarateymi LHÍ í vetur, jafnt því sem hann sinnir áfram verkefnum sínum á alþjóðavettvangi óperulistarinnar. 

Stuart er leiðandi listamaður á sínu sviði á heimsvísu. Hann er í fremstu röð tenórsöngvara í óperuheiminum og kemur reglulega fram í burðarhlutverki í Metropolitan óperunni í New York, Royal Opera House í Covent Garden, La Scala og Opera Bastille auk þess sem hann syngur m.a. með Fílharmóníusveit Berlínar, Fílharmóníusveit Lundúna og Fílharmóníusveit breska ríkisútvarpsins BBC. Þá hefur hann hljóðritað fjölda ópera og önnur stór verk; þar af hafa komið út á þessu ári Peter Grimes eftir Britten með Fílharmóníusveitinni í Bergen og Valkyrjan eftir Wagner með Bæversku útvarpshljómsveitinni, en af eldri hljóðritunum má nefna Ödipus Rex eftir Stravinsky með Sinfóníuhljómsveit Lundúna, 2014. Hljóðritun með þátttöku hans hlaut Gramophone verðlaunin árið 2015. Hann var valinn karlsöngvari ársins 2014 í International Opera Awards og hefur hlotið fjölda annarra viðurkenninga. Hann hefur haldið fjölda masterklassa m.a. við Tónlistarháskólann í Madrid, Juilliard skólanum í New York og Listaháskóla Íslands 

Þóra Einarsdóttir sviðsforseti tónlistar og sviðslista við LHÍ segir það vera mikinn styrkur að fá Stuart til liðs við LHÍ við kennslu og námþróun. „Námið og kennsluaðferðir í LHÍ eru í stöðugri þróun. Starfsvettvangur söngvara er alþjóðlegur og því mikilvægt að við miðum okkur við hæstu listræn gæði jafnt sem framþróun í tónlistarheiminum og í kennslu. Stuart býr yfir mikilli reynslu, og er á hátindi ferilsins. Hann hefur sýnt að hann hefur brennandi áhuga á að miðla af reynslu sinni og leggja sitt af mörkum til framtíðar uppbyggingar tónlistarnáms á Íslandi” segir Þóra. 

Stuart Skelton segir það mikinn heiður að vera skipaður gestaprófessor í rödd við Listaháskóla Íslands. Það sé spennandi skref að vera falin umsjón næstu kynslóðir flytjenda og því fylgi mikil ábyrgð sem hann taki alvarlega.   

„Ég er himinlifandi að vera hluti af LHI, ekki aðeins vegna þeirrar virðingar sem ég ber fyrir samstarfsmönnum mínum sem gríðarlega reyndum og hæfileikaríkum flytjenduum, þeim Kristni Sigmundssyni, Hönnu Dóru Sturludóttur, Ólöfu Kolbrúnu og að sjálfsögðu Þóru Einarsdóttur, en einnig vegna hugmyndafræði þeirra um teymisvinnu og þeirrar alúðar sem þau setja í  kennsluna í LHI. Nemendurnir vinna með öllum kennurunum á námstímanum og hafa því hafa því aðgang að kennurunum sem leiðbeina varðandi raddheilsu, túlkun og tónlistarmennsku að alúð. Þannig er stuðlað að þroska og langlífi söngvaranna, ekki sem hluti af einangruðu sambandi meistara og lærlings, heldur frekar sem hluti af samfélagi söngvara og kennara“ segir Stuart. Stuart Skelton segist ekki geta hugsað sér betra umhverfi fyrir söngnemendur. „Ekki aðeins vegna þess að þetta skipulag líkir eftir raunverulegum aðstæðum þess starfsvettvangs sem nemendur þurfa að fóta sig í þegar þeir útskrifast, heldur líka vegna þess að svona námumhverfi hvetur nemendur til að leita eigin svara og lausna á sjálfstæðan hátt, þannig eru þau líklegri til að finna þau svör sem henta þeim best. Það er mér mikill heiður að vera hluti af þessu teymi og ég hlakka til að fylgjast með og heyra hvern og einn þessara stórkostlegu ungu listamanna flytja tónlist og sérstaklega gera söng að ævistarf sínu. "

 
Við bjóðum Stuart Skelton velkominn til starfa. 

Áhugasamir geta lesið meira um Stuart Skelton á vefsíðu hans.