Steinunn Ketilsdóttir hefur verið ráðin deildarforseti sviðslistadeildar Listaháskóla Íslands. 

sk.png
 

Steinunn starfar sem dansari, danshöfundur, rannsakandi, kennari og skipuleggjandi innan danslistarinnar.  

 
Hún lauk prófi í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík árið 2002 og BA-námi í dansi frá Hunter College í New York árið 2005. Árið 2016 hlaut hún meistaragráðu í performans fræðum frá NYU Tisch School of Arts þar sem hún hlaut Perfomance Studies verðlaunin við útskrift. 
 
Steinunn á að baki alþjóðlegan feril og hefur samið fjölda dansverka sem hafa verið sýnd beggja vegna Atlantshafsins. Hún hefur verið bæði verðlaunuð og tilnefnd fyrir verk sín og árið 2010 hlaut hún Grímuna í tveimur flokkum, sem höfundur og dansari í verkinu Superhero. 
 
Steinunn hefur um árabil verið í framvarðasveit í sjálfstæðu danssenunni á Íslandi og átti drjúgan þátt í að stofna til og móta starfsemi Reykjavík Dance Festival og Dansverkstæðisins. Auk þess að leiða og þróa rannsóknarverkefnið EXPRESSIONS hefur Steinunn hin síðustu misseri einbeitt sér að sólóverkefni sínu OVERSTATEMENT/OVERSTEINUNN. 
 
Frá árinu 2007 hefur Steinunn reglulega kennt við sviðslistadeild. Fyrst sem gestakennari og síðar sem aðjúnkt auk þess sem hún gengdi rannsóknarstöðu við deildina um tíma. Steinunn hefur frá upphafi árs 2019 gengt stöðu dósents og fagstjóra í samtímadansi við sviðslistadeild LHÍ.
 
 
Steinunni eru færðar hamingju- og heillaóskir með stöðu.