Listaháskólinn óskar öllu því frábæra myndlistarfólki sem hlaut tilnefningu til Íslensku myndlistarverðlaunanna innilega til hamingju.

Sérstakar hamingjuóskir fá Bryndís Snæbjörnsdóttir prófessor í MA myndlist, Carl Boutard dósent í BA myndlist og Melanie Ubaldo nemandi í meistaranámi í myndlist sem er hluti af Lucky 3 sem jafnframt hlaut tilnefningu til hvatningarverðlaunanna.

Veitt eru verðlaun í tveimur flokkum, Myndlistarmaður ársins eru veitt myndlistarmanni sem þykir hafa skarað framúr með nýlegum verkum og sýningu á Íslandi á síðastliðnu myndlistarári. Hvatningarverðlaun verða veitt starfandi myndlistarmanni sem nýlega hefur komið fram á sjónarsviðið og vakið athygli með verkum sínum. Almenningur, myndlistarmenn og fræðimenn á sviði myndlistar tilnefna til verðlaunanna. Við val á verðlaunahöfum hefur dómnefnd í huga að verk myndlistarmanna skari framúr og að viðkomandi séu fulltrúar þess sem best er gert á sviði íslenskrar samtímamyndlistar. 

unnamed.png

 

Bryndís Snæbjörnsdóttir og Mark Wilson eru tilnefnd fyrir sýninguna Vísitasíur í Listasafninu á Akureyri. Sýningin er afrakstur margra ára rannsóknarverkefnisins Ísbirnir á villigötum sem þau hafa unnið í samvinnu við sérfræðinga á sviði þjóðfræði, náttúru- og umhverfisfræði. Verkefnið snýst um að auka þekkingu á tengslum dýra, manna og umhverfis á tímum hamfarahlýnunar. Til þess er sjónum beint að hvítabjörnum á Íslandi í fortíð og nútíð. Verkin á sýningunni varpa ljósi á spurningar um náttúruvernd, skoða frásagnir af árekstrum fólks og hvítabjarna í gegnum tíðina og hvað það er sem gerist þegar þessi tvö rándýr mætast.  

 

unnamed-2.png

 

Carl Boutard er tilnefndur fyrir sýninguna Gróður jarðar í Ásmundarsafni. Náttúran og tengsl mannsins við hana er megininntak listar hans. Á sýningunni flutti listamaðurinn náttúruna inn í sýningarrýmið með nýjum og nýlegum verkum í samtali við valin verk Ásmundar Sveinssonar. Sýningin veitti nærandi upplifun þar sem saman fór áhugaverð nálgun á viðfangsefnið og spennandi efnisnotkun. Listamaðurinn svipti hulunni af raunverulegri birtingu fyrirbæranna með nákvæmri skoðun. Maður og náttúra, skynjun, sköpunarferli, neyslumenning og endurvinnsla, tvinnast saman og mynda fagurfræðilega heild í fallegri sýningu.  

 

unnamed-4.png

Lucky 3 er hópur sem samanstendur af þremur listamönnum sem rekja uppruna sinn til Filippseyja; þeim Dýrfinnu Benitu Basalan, Darren Mark og Melanie Ubaldo. Þegar þau vinna saman nýta þau arfleifð sína og þann stöðuga menningarlega árekstur sem einkennir líf þeirra.  

 

Ljósmyndir af listafólki  ©MargrétSeemaTakyar