Undanfarið hafa átt sér tímabundnar breytingar hjá starfsfólki í hönnunardeild.
 
 
Töluvert miklar breytingar hafa verið á fagstjórateyminu en Bryndís Björgvinsdóttir, lektor á fræðasviði, sagnfræðingur, þjóðfræðingur og rithöfundur gegnir nú starfi fagstjóra fræða. Rannsóknir, kennsla og skrif Bryndísar fjalla um þjóðfræði, menningarfræði, heimspeki, bókmenntir og fræði- og skáldskaparskrif. Árið 2014 gaf hún út unglingabókina Hafnfirðingabrandarann en fyrir hana hlaut hún bæði Íslensku bókmenntaverðlaunin og Fjöruverðlaunin. Hún hefur einnig ritstýrt bók hönnuðarins Gísla B. Björnssonar, Merki og tákn. Verk Bryndísar á sviði þjóðfræði og skáldskapar hafa verið birt víða um heim. Hún hefur einnig gegnt hlutverki dómara og spurningahöfundar í Gettu Betur.
 
Ragnar Freyr Pálsson, dósent og grafískur hönnuður hefur tekið við starfi fagstjóra í grafískri hönnun. Ragnar Freyr hefur starfað við grafíska hönnun með einum eða öðrum hætti í rúmlega tvo áratugi og er menntaður í grafískri hönnun og kennslufræðum frá Listaháskólanum. Samhliða því að kenna við Listaháskólann vinnur Ragnar sem sjálfstætt starfandi hönnuður. Hann sérhæfir sig í hönnun fyrir stafræna miðla með íslenskum og erlendum fyrirtækjum í tæknigeiranum en finnur persónulegri verkefnum oft farveg í gegn um prentmiðlana. Verk Ragnars hafa birst í fjölda bóka og tímarita og verið sýnd víða um heim.
 
Þá hefur Magnea Einarsdóttir sinnt starfi fagstjóra námsbrautar í fatahönnun frá og með haustönn 2020. Magnea er fata- og textílhönnuður og eigandi fatamerkisins MAGNEA. Hún lærði fatahönnun í Parsons Paris og fatahönnun með áherslu á prjón í Central St. Martins í London þaðan sem hún útskrifaðist árið 2012. Eftir námið flutti hún aftur heim og hefur unnið hér sem sjálfstætt starfandi fatahönnuður og sýnt línur, unnið að samstarfslínum og verið tilnefnd til verðlauna, bæði hér heima og erlendis. Magnea er einnig með meistaragráðu í menningarstjórnun frá háskólanum á Bifröst. Þá hefur Magnea setið í stjórnum Fatahönnunarfélags Íslands og Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs og rekið verslanir í Reykjavík í samstarfi við aðra hönnuði, nú síðast Kiosk Granda sem opnaði haustið 2020. 
 
Thomas Pausz lektor og hönnuður hefur nú tekið við sem fagstjóri meistaranáms í hönnun. Thomas starfar þvert á fagsvið bæði í hönnun og kennslu. Eftir að hafa numið heimspeki í París lauk Thomas meistaraprófi úr deildinni Design Products frá Royal College of Arts og hefur síðan starfað í London, Berlín og Reykjavík. Thomas hannar framleiðslu sem möguleika (e. speculative production scenarios), frásagnir og muni sem byggja á gagnrýnni kortlagningu núverandi kerfa. Samhliða hönnunarvinnu sinni stýrir Thomas hönnunarsýningum og skrifar um mannlega og vistkerfislega áru tækninnar.
 
Síðast en ekki síst hefur Johanna Seelemann vöruhönnuður verið ráðin tímabundið sem aðjúnkt í vöruhönnun á vorönn í fjarveru Tinnu Gunnarsdóttur sem er í rannsóknarleyfi. Johanna Seeleman er konsept hönnuður sem vinnur að vöruþróun, sýningum og vídeóum ásamt því að taka þátt í þverfaglegum samstarfsverkefnum. Áhugasvið hennar þróaðist í meistaranámi í deildinni Contextual Design við Design Academy Eindhoven og í BA námi í vöruhönnun við Listaháskóla Íslands. Hún hefur stýrt sjálfstæðum verkefnum og vann nýverið hjá Studio Formafantasma. Í verkum sínum rannsakar hún leyndardóma hversdagslegra hluta, auk þess sem hún hefur skoðað ferðalög þeirra frá upphafi framleiðslu til neytenda. Með því að greina frá hinu leynda samhengi þessara vara, sem eru hversdagslegar en um leið lífsnauðsynlegar í nútímanum, getur hún teiknað upp nýja möguleika og mögulegar framtíðir.