Listaháskóli Íslands óskar öllum þeim hönnuðum og arkitektum sem fengu úthlutun úr Hönnunarsjóði innilega til hamingju. Eins og sjá má er þetta stórglæsilegur hópur og er Listaháskólinn einstaklega stoltur með sitt fólk.

Á meðal verðlaunahafa eru bæði fyrrum nemendur sem og starfsfólk skólans.

Inngilding heima, hönnun fyrir fólk með stuðningsþarfir, samantekt á rannsóknar- og hönnunarferli á íbúðakjarna fyrir fatlað fólk eftir Birtu Fróðadóttir fagstjóri arkitektúrdeildar Listaháskólans og frá Teiknistofunni STIKU þær Eva Huld Friðriksdóttir og Magnea Guðmundsdóttir, hlaut annan stærsta styrkinn í þessari úthlutun. “Fólk með fötlun á borð við einhverfu og djúpa þroskahömlun hefur sértækar þarfir og þarf stuðning til daglegra athafna. Við hönnun íbúðakjarnans var ítarleg þarfagreining unnin í samstarfi við vinnuhóp fagaðila. Þarfagreiningin lá til grundvallar ákvörðunum hvað varðar efnisval, hljóðvist, stýringu dagsbirtu, læsileika rýma o.fl. Þróunarverkefni þetta tekur saman þessar ákvarðanir og greinir aðferðafræðina á bakvið þær, opnar og skrásetur samtal á milli hönnuða og fagaðila og að lokum fylgja eftir íbúum þegar þau flytja inn í nýtt húsnæði. Afrakstur verkefnisins nýtist hönnuðum og fagfólki í sambærilegum verkefnum og sem innlegg í umræðu í málaflokknum sem og í stærra samhengi. Mikilvægi þess að taka saman og miðla slíkri vinnu hefur ótvírætt gildi fyrir sambærileg verkefni í framtíðinni og þarft í áframhaldandi umræðu og þróun í málaflokknum.” - er sagt í umsögn verkefnisins.

Svo má nefna Rebekku Ashley Egilsdóttur sem er fyrrum nemandi í vöruhönnun við LHÍ. „Rannsókn á möguleikum endurvinnslu á rafmagnssnúrum til vefnaðar. Tæknin þróast hratt og um leið verða rafmagnssnúrur að rafrusli eftir stutta notkun. Unnið verður að því að endurvinna úreltar og ónýtar rafmagnssnúrur og þróa þær í rafvefnað til notkunar í nothæfar vefnaðarvörur.“ segir Rebekka um verkefnið Þróun rafvefnaðs.

Þær Signý Jónsdóttir og Íris Indriðadóttir eru fyrrum nemendur í vöruhönnun sem hafa starfað sem stundakennarar hjá Listaháskólanum hlutu styrk fyrir verkefnið Annarsflokks gæða æðardúnn. Það miðar að því að finna ónothæfum efnivið hlutverk. Æðardúnn sem ekki fær vottun er ekki nýttur þrátt fyrir dýrmæta eiginleika. Verkefnið varpar ljósi á hvernig hægt sé að nýta þessa auðlind með það að leiðarljósi að minnka sóun og skapa verðmæti fyrir íslenska æðarbændur. „Að hljóta þennan styrk úr Hönnunarsjóði gerir okkur kleift að blanda saman tveimur af okkar helstu ástríðum, að vinna sem æðarbændur og vinna sem hönnuðir.” segir Signý aðspurð um hvað styrkurinn þýðir fyrir þær.

Hrefna Sigurðardóttir og Birta Rós Brynjólfsdóttir eru einnig fyrrum nemendur í vöruhönnun og hafa báðar komið að kennslu sem stundakennarar hjá Listaháskólanum. Þær fengu styrk fyrir verkefnið sitt Spítalalín þar sem skoðað verður hvort hægt sé að hanna og framleiða vörur á Íslandi úr textíl sem fellur til hjá Þvottahúsi spítalanna.

Halldór Úlfarsson hlaut styrk fyrir hönnuðun á heimsins fyrsta órafmagnaða fídbakkhljóðfæri. „Fídbakk hljóðfæri eru ný tegund hljóðfæra sem eru í hröðum vexti. Slík hljóðfæri er verið að þróa víða um heim og þau eiga það öll sameiginlegt að vera rafknúin. Hér er gerð tilraun með heimsins fyrsta órafmagnað fídbakk strengjahljóðfæri.“ - er sagt í umsögn verkefnisins.

Þessi listi er alls ekki tæmandi því hönnuðir og arkitektar sem koma við sögu Listaháskóla Íslands eru fjölmargir og er skólinn virkilega stoltur af þeim öllum.

Ferðastyrki hlutu:

Thomas Pauz - fagstjóri MA hönnun

Katrín María Káradóttir - dósent í fatahönnun

Rúna Thors - lektor í vöruhönnun

Kristín Eva Ólafsdóttir - stundakennari í grafískri hönnun

Helga Lára Halldórsdóttir - stundakennari í fatahönnun

Mynd/Víðir Björnsson

Birta Fróðadóttir, Eva Huld Friðriksdóttir, Magnea Guðmundsdóttir

Birta Fróðadóttir, Eva Huld Friðriksdóttir, Magnea Guðmundsdóttir, by Mynd/Víðir Björnsson

Halldór Úlfarsson

Halldór Úlfarsson, by Mynd/Víðir Björnsson

Hrefna Sigurðardóttir og Birta Rós Brynjólfsdóttir

Hrefna Sigurðardóttir og Birta Rós Brynjólfsdóttir, by Mynd/Víðir Björnsson

Signý Jónsdóttir og Íris Indriðadóttir

Signý Jónsdóttir og Íris Indriðadóttir, by Mynd/Víðir Björnsson

Rebekka Ashley Egilsdóttir

Rebekka Ashley Egilsdóttir, by Mynd/Víðir Björnsson