Miðstöð íslenskra bókmennta hefur úthlutað útgáfustyrkjum fyrir árið 2018 og er starfsfólk hönnunar- og arkitektúrdeildar afar fengsælt í þetta skiptið. Alls úthlutaði Miðstöð íslenskra bókmennta 30 milljónum króna til 55 verka en umsóknir um styrki voru 93 talsins frá 51 umsækjanda og var sótt um ríflega 90 milljónir króna.
 
Tvö verk eftir starfsfólk deildarinnar hlutu styrk að upphæð 700.000. Það eru verkin Íslensk samtímaljósmyndun 1975-2015 í ritstjórn Sigrúnar Ölbu Sigurðardóttur og Steinars Arnar Atlasonar og Sjónarfur í samhengi 1. bindi: myndmál prentsögu Íslands frá 1844 - 1918 eftir Guðmund Odd Magnússon. Listaháskólinn stendur að útgáfu verkanna beggja.
 
Þá hlaut Bryndís Björgvinsdóttir, lektor við deildina tvær úthlutanir, önnur þeirra að upphæð 500.000 krónur styður við samstarfsverkefni hennar við Gísla B. Björnsson, Birnu Geirfinnsdóttur og Ármann Agnarsson en um er að ræða ítarlegt yfirlitsrit yfir hönnun Gísla undir titlinum, Merki og form. Bryndís ritstýrir bókinni og Listaháskólinn gefur út í samvinnu við Háskólaútgáfuna. Þá hlotnaðist Bryndísi annar styrkur að upphæð 450.000 krónur fyrir ljósmyndabókina Krossgötur: Áhrif álfa og álagabletta á manngert umhverfi sem hún vinnur í samstarfi við ljósmyndarann Svölu Ragnarsdóttur og er gefin út af Bjarti.