Jafnréttisdagar fóru fram 6. - 9. febrúar en með þeim gefst fólki tækifæri á að kynnast því starfi og þeim hugmyndum sem hafa verið að gerjast í jafnréttismálum í háskólasamfélaginu.
 
Laufey Axelsdóttir nýdoktor í kynjafræði við Háskóla Íslands vann greinagóða skýrslu á vegum samráðsvettvangs jafnréttisfulltrúa háskólanna og Mennta- og menningarmálaráðuneytisins þar sem skoðaðar eru staðalímyndir og jafnrétti í háskólum.
 
Eins og segir í údrætti skýrslunnar er hún „liður í framkvæmd samráðsvettvangs jafnréttisfulltrúa á verkefni 1.7 um Samstarf jafnréttisfulltrúa háskóla í framkvæmdaáætlun stjórnvalda í jafnréttismálum 2020-2023 og aðgerð 1.4 í jafnréttisáætlun HÍ 2021-2023, Kynjahlutfall nemenda. Markmið verkefnisins er að kanna mögulegar skýringar á ójöfnu kynjahlutfalli nemenda í háskólum og hvort kynbundnar staðalímyndir hafi þar áhrif. Einnig að taka saman fyrirliggjandi aðgerðir á Íslandi og erlendis til að jafna hlutfall kynja og að leggja fram tillögur að úrbótum.“
 
Í skýrslunni kemur meðal annars fram kynjahlutfall nemenda við Listaháskóla Íslands en „í október 2022 voru 621 nemendur skráðir í nám við skólann, þar af 38% karlar og 61,8% konur og einn kynsegin nemandi (0,2%)“ Laufey fer einnig yfir kynjahlutfall milli brauta og kemur í ljós að „karlar voru í meirihluta í Tónlistardeild (52%) og kynjahlutfallið var jafnt í Kvikmyndalistadeild. Í öðrum deildum var hlutfall kvenna milli 60-70%, nema í Listkennsludeild þar sem konur voru 81% nemenda.“
 
Laufey Axelsdóttir birti jafnframt, ásamt Arnari Gíslasyni og Sveini Guðmundssyni jafnréttisfulltrúum HÍ og Sæunni Gísladóttur starfsmanni jafnréttisráðs HA, grein á Vísi föstudaginn 9. febrúar s.l.sem ber titilinn Er kynjafræði lykillinn að fjölbreyttara námsvali?. Í greininni er farið yfir kynjahlutfall á háskólastigi og bent á að konur hafi verið í meirihluta á flestum námssviðum og ekki í síst í hefðbundnum kvennafögum, en karlar séu þó fleiri í STEM greinum (vísindum, tækni, verkfræði og stærðfræði). Þetta hafi svo áhrif á vinnumarkaði en meðal þess sem kemur fram, og er tekið frá Þóru Kristínu Þórsdóttur hjá BHM, er að „139 milljón króna munur gæti verið á ævitekjum gagnkynja hjóna með jafn langa menntun sem hófu störf á sama tíma hjá ríkisstofnun.“
 
Eins og kemur fram í greininni varpar skýrslan „ljósi á mikilvægi þess að leita leiða til að vinna gegn hugmyndum um kynhlutverk og kynbundnum staðalímyndum um nám og störf. Slíkar hugmyndir geta komið í veg fyrir jafna möguleika einstaklinga til námsvals, starfsframa, lífsafkomu og áhrifa. Öflugar aðgerðir og úrbætur í skólasamfélaginu með stuðningi stjórnvalda geta unnið gegn félagslegum hindrunum, stuðlað að auknu menntunarstigi í landinu og skapað tækifæri fyrir alla í samfélaginu.“ 
 
Við hvetjum áhugasama til að kynna sér niðurstöður skýrslunnar og tillögur Laufeyar að úrbótum og mögulegum aðgerðum til að jafna kynjahlutföll með því að smella á linkinn hér fyrir neðan.