Listaháskólinn var settur í dag í 23. sinn. 

Það var Fríða Björk Ingvarsdóttir, rektor skólans bauð nýnemana velkomna og ávarpaði samkomuna.
"Hér við Listaháskólann eigið þið eftir að róa á dýpið á fræðasviði lista. Mig langar því til að nota tækifærið á þessum fyrsta degi til að árétta við ykkur mikilvægi þess að horfa í kringum ykkur. Hvetja ykkur til að lifa og anda með þeim stóru þáttum sem eru undirstaða þess að siðmenningin þroskist áfram fyrir ykkar tilstilli og listanna. Þar er efst á blaði andrýmið til að hugsa, greina og skapa. Takið ykkur þetta andrými í ykkar daglegu önnum, utan þessa ánetjandi aðdráttarafls athyglisiðnaðarins -  því helsti hvati skapandi hugsunar er sjálfstæður og greinandi hugur.  
Það er m.ö.o. eftirsóknarverðara að vera áhrifavaldur í eigin lífi heldur en annarra.,,
fbi_skolasetning_2022.jpeg
 
Ávarp Fríðu Bjarkar má lesa í heild sinni hér fyrir neðan.
 
Hefð er fyrir því að Hollnemi veiti nýnemum innblástur og í ár var það tvíútskrifaður Hollnemi, Thelma Björk Jónsdóttir, en hún útskrifaðist 2005 með bakkalár gráðu í fatahönnun og með meistagráðu í listkennslu 2017.
"Listaháskólinn var risa gluggi fyrir mig, ég hélt reyndar að þetta væri glugginn en þegar ég opnaði hann þá blöstu enn fleiri gluggar við mér, til að opna og uppgötva.
Ekki gleyma tengingunni við ykkar innra sjálf, haldið í hana og munið að næra hjartað. List sem kemur frá hjartanu er sönn, tær og tengir við auðveldlega önnur hjörtu.,,
 
 
 
 
 
 
Kæru nýnemar - og aðrir gestir,
 
Verið þið hjartanlega velkomin í Listaháskóla Íslands. 
 
I
Í dag hefjð þið nýja vegferð á vit óvissunnar - óvissunnar sem er órjúfanlegur hluti allra sköpunarferla. Hið auða blað, tabula rasa, er upphafspunktur sem þið eigið eftir að glíma við í ykkar námi, í öllum ykkar tilraunum til að skapa eitthvað nýtt - eitthvað sem er þess virði að staldra við og getur jafnvel breytt eða umbylt hugmyndum þeirra sem njóta. Því sköpunarferli og hugmyndafræði listanna vinna að stöðugri endurskoðun viðtekinna gilda og móta því stöðu mannsandans hverju sinni langt inn í framtíðina. 
 
Ástæða þess að ég nefni hið auða blað er sú að í samtímanum hefur orðið sífellt minna svigrúm til að íhuga neindina - það sem kalla mætti "ekkertið". Minna svigrúm fyrir auðar stundir og það andlega rými sem er í raun uppspretta allra nýrra uppgötvana og frumsköpunarinnar. Þetta er umhugsunarefni vegna þess að við lifum á flóknum tímum, sem krefjast flókinna samskipta og hugsanaferla, en samt sem áður er nánast enginn tími eða svigrúm fyrir slík samskipti eða hugsanir. 
 
II
Bandaríski listamaðurinn, kennarinn og rithöfundurinn Jenny Odell hefur krufið þessa staðreynd til mergjar í bók sem heitir einfaldlega "How to do Nothing", en hún er óður til "auða blaðsins" í öllum skilningi. Óður til þeirrar lífsfyllingar sem felst í því að skynja umhverfi sitt og samferðafólk milliliðalaust, en ekki í gegnum skjáveruleika samtímans. Skjáveruleikinn er vissulega gluggi inn í áhugaverðar óravíddir, en um leið svo ánetjandi að hann étur beinlínis upp líftíma okkar, án þess að skilja eftir þá skynrænu reynslu og þann hugræna þroska sem við þörfnumst. Odell heldur því fram að sú tækni sem leiðir okkur áfram til að mynda á samfélagsmiðlum, ræni okkur þeim tíma sem við þurfum til að vera forvitin á eigin forsendum og ígrunda eigið sjálf og samhengi í tilverunni. 
 
Sverrir Norland hefur skrifað á áþekkum nótum í bók sinni "Stríð og kliður - hvað verður um ímyndunaraflið". Þar reynir hann að skilgreina griðarstað fyrir sína kynslóð og barna sinna, í skjóli fyrir hinni alltumlykjandi tækni samtímans. Niðurstaða hans, líkt og Odell, er á grófum dráttum hin sama; að við verðum sjálf að taka meðvitaða afstöðu til að skapa okkur það andlega og hugmyndafræðilega rými sem þroskar okkur og viðheldur ímyndunaraflinu - undirstöðuafli allrar nýrrar hugsunar. 
 
Hér við Listaháskólann eigið þið eftir að róa á dýpið á fræðasviði lista. Mig langar því til að nota tækifærið á þessum fyrsta degi til að árétta við ykkur mikilvægi þess að horfa í kringum ykkur. Hvetja ykkur til að lifa og anda með þeim stóru þáttum sem eru undirstaða þess að siðmenningin þroskist áfram fyrir ykkar tilstilli og listanna. Þar er efst á blaði andrýmið til að hugsa, greina og skapa. Takið ykkur þetta andrými í ykkar daglegu önnum, utan þessa ánetjandi aðdráttarafls athyglisiðnaðarins -  því helsti hvati skapandi hugsunar er sjálfstæður og greinandi hugur. 
 
Það er m.ö.o. eftirsóknarverðara að vera áhrifavaldur í eigin lífi heldur en annarra. 
 
III
Ég nefni þetta vegna þess að það er mikið tilhlökkunarefni að hefja nýtt skólaár án þeirra annmarka sem heimsfaraldur hefur sett okkur undanfarin ár. Að finna fyrir þeirri tilhlökkun sem fylgir upphafi nýrrar vegferðar undir eðlilegum kringumstæðum í flæði með öðru fólki og þeim mikilvægu tækifærum sem framsækið háskólastarf býður uppá. 
 
Að heimsfaraldri loknum höfum við verið knúin til skoða nánar hugmyndir okkar um sjálfið, samhygðina og samábyrgðina. Það var til að mynda eitt meginþema eins stærsta listviðburðar heims þetta árið, Feneyjatvíæringsins í myndlist, að rýna breytingar á hugmyndum okkar um mennskuna á tímum þar sem tilvist mannsins er ógnað með margvíslegum hætti. 
 
Undirþemu sama tvíærings segja einnig mikið um þá tíma sem við lifum, en þau voru; framsetning líkama og umbreyting þeirra, tengsl einstaklinga og tækni, og loks samband líkama og jarðar. Þetta eru þemu sem nálgast hið trúarlega, hið heimspekilega og hið siðferðislega - þemu sem skilgreina mennskuna og samfélagsmyndina. Og krefjast þess um leið að við íhugum skyldur okkar gagnvart öðru fólki, öðrum lífsformum og ekki síst sjálfum hnettinum. 
 
Að lokum við ég taka það fram að stórar spurningar krefjast ekki endilega stórra svara. Svörin geta allt eins legið í því smáa; í öllum þeim óteljandi þráðum sem þið eigið eftir að greina og spinna allt eftir því hvert ykkar skapandi þrá leiðir ykkur. 
 
Ég óska ykkur velfarnaðar á þeirri vegferð - og hvet ykkur til að vera uppbyggileg innan þess mikilvæga samfélags sem Listaháskólinn er og samastendur fyrst og fremst af ykkur nemendum. Sá tími sem þið staldrið hér við hér er styttri en sýnist á upphafsdegi, en sá andi sem þið sjálf skapið á eftir að fylgja ykkur um langan veg inn í framtíð hinna skapandi greina. 
 
Að þessu sögðu er Listaháskóli Íslands haustið 2022 settur.