Innan Listaháskóla Íslands hefur undanfarin misseri verið unnið að skipulagsbreytingum sem miða að því að styrkja stjórnsýslu háskólans en auka um leið svigrúm deildarforseta til listræns stefnumótunarstarfs í hverri listgrein fyrir sig. Stofnuð hafa verið tvö svið, annarsvegar svið tónlistar og sviðslista, og hins vegar svið arkitektúrs, hönnunar og myndlistar. Þriðja sviðið, svið akademískrar þróunar og rannsókna, verður stofnað í byrjun næsta árs, en þar undir fellur listkennsludeild og þróun meistaranámsbrauta þvert á háskólann.
Ljóst er að mikið uppbyggingarstarf á fræðasviði lista hefur átt sér stað á þeim tveimur áratugum sem Listaháskólinn hefur starfað. Breytingarnar sem nú er verið að innleiða eru liður í áframhaldandi þróunarstarfi sem miðar að því að þessi þverfaglegi háskóli mæti sem best kröfum samtímans um sveigjanlegt nám er byggi á framþróun þvert á listgreinar og önnur vísindi, auk þess að dýpka sérstöðu og gæði náms í hverri listgrein fyrir sig.
 
Hér má lesa nánar um störf sviðs- og deildarforseta sem og stutt árgrip um nýráðningar í þessar stöður.
 
 

Sviðsforsetar

Sviðsforsetar vinna að þverfaglegum markmiðum Listháskólans ásamt rektor, bera ábyrgð á akademískri uppbyggingu, sinna innleiðingu á stefnu Listaháskólans og hafa yfirumsjón með kennslu og rannsóknum. Þeir stýra starfsemi síns sviðs og annast stjórnun og rekstur þess.

 

Eva María Árnadóttir, sviðsforseti arkitektúrs, hönnunar og myndlistar.

Eva María Árnadóttir lauk MSc gráðu í stjórnun fyrirtækja frá Stockholm School of Economics og BA gráðu í fatahönnun frá Listaháskóla Íslands. Hún starfaði sem yfirhönnuður, framleiðslustjóri og vöruþróunarsérfræðingur hér á landi og erlendis á árunum 2009 – 2017 og býr að mikilli stjórnunarreynslu úr þeim störfum. Eva María hefur góða reynslu af akademískum störfum og kennslu á háskólastigi en hún hefur starfað fyrir Listaháskólann frá árinu 2011.

Þóra Einarsdóttir sviðsforseti tónlistar og sviðslista.

Þóra Einarsdóttir lauk MA gráðu í listkennslu frá listkennsludeild LHÍ, meistaragráðu í óperusöng frá Guildhall School of Music and Drama og BMus gráðu í söng frá sama skóla. Þóra hefur góða reynslu af akademískum störfum og kennslu á háskólastigi. Hún hefur kennt við tónlistardeild LHÍ frá árinu 2008, fyrst sem stundakennari og leiðbeinandi en frá 2014 sem aðjúnkt í söng og sem fagstjóri í söng frá árinu 2016. Í starfi sínu sem fagstjóri hefur Þóra lagt áherslu á námsþróun og þróun kennsluhátta.
 
 
 

Deildarforsetar

Deildarforsetar bera ábyrgð á listrænni og akademískri stefnumótun fagsviðs sinnar deildar og útfærslu hennar í námi, kennslu og rannsóknum. Deildarforsetar eru næstu yfirmenn akademískra starfsmanna viðkomandi deildar. Deildarforsetar bera ábyrgð á umsýslu með málefnum nemenda og fara  með úrskurðarvald innan deildar í málefnum er varða námsferil og námsframvindu nemenda.

 

Hildigunnur Sverrisdóttir er deildarforseti arkitektúrdeildar

Hildigunnur lauk Cand.Arch.-gráðu frá Kunstakademiets Arkitektskole í Kaupmannahöfn og hefur starfað sem hönnuður á arkitektastofum auk þess að starfa sjálfstætt sem fræðimaður, ráðgjafi og listrænn stjórnandi á fagsviði arkitektúrs og manngerðs umhverfis. Hún er virkur rannsakandi en eftir hana hafa birst fjölda greina og bókakafla á fagvettvangi arkitektúrs og á breiðari vettvangi lista auk þess sem hún hefur umtalsverða reynslu af þverfaglegu samstarfi í fjölbreytilegum verkefnum.
 

Kristín Valsdóttir enduráðin deildrafoseti listkennsludeildar

Kristín lauk doktorsprófi frá Háskóla Íslands árið 2019 með doktorsrannsókn á lærdómsferli listkennara, er með M.Ed.-gráðu í uppeldis- og menntunarfræðum frá Kennaraháskóla Íslands, Diploma als Musik- und Bewegung Ershier frá Orff Institut í Salzburg og B.Ed.-gráðu með áherslu á tónmennt frá Kennaraháskóla Íslands. Kristín hefur viðamikla, alhliða kennslureynslu á háskólastigi og spannar kennsluferill hennar þrjá áratugi. Hún hefur gegnt stöðu deildarforseta listkennsludeildar og fagstjóra tónlistarkennslu frá 2009.
 

Paul Bennett er deildarforseti hönnunardeildar

Paul Bennett er yfirhönnuður og stjórnandi hjá IDEO auk þess að starfa við Listaháskólann. Þar hefur hann og vinnur enn í samstarfi stofnanir, fyrirtæki og stjórnvöld víða um heim. Hann er virkur í að þróa nýjar aðferðir við kerfis- og ferlavæðingu og við nýsköpun. Paul hefur kennt og leiðbeint við KHiO - Listaháskólanum í Osló, Royal College of Art (UK), Stanford University, Columbia Business School og FIT’s (Fashion Institute of Technology, New York).
 

Steinunn Ketilsdóttir er deildarforseti sviðslistadeildar

Steinunn starfar sem dansari, danshöfundur, rannsakandi, kennari og skipuleggjandi innan danslistarinnar. Hún lauk prófi í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík árið 2002 og BA-námi í dansi frá Hunter College í New York árið 2005. Árið 2016 hlaut hún meistaragráðu í performans fræðum frá NYU Tisch School of Arts þar sem hún hlaut Perfomance Studies verðlaunin við útskrift. Steinunn á að baki alþjóðlegan feril og hefur samið fjölda dansverka sem hafa verið sýnd beggja vegna Atlantshafsins.
 
 
Fyrir eru þau Sigrún Inga Hrólfsdóttir sem er forseti myndlistardeildar og Tryggvi M. Baldvinsson forseti tónlistardeildarinnar.