Frumsamdar hljóðesseyjur, fyrirmælaverk Atla Heimis Sveinssonar og flúxus-innblásnar vinnustofur eru á meðal viðfangsefna Skerplu, nýstofnaðs tilraunatónlistarhóps LHÍ.

Hópurinn er vettvangur nemenda og kennara við tónlistardeild LHÍ sem og nemenda úr öðrum deildum til að fást við tilraunatónlist sem frumskapendur og túlkendur en hópurinn er öllum nemendum LHÍ opinn.

Berglind María Tómasdóttir, dósent í flutningi og miðlun samtímatónlistar við LHÍ, er stjórnandi og stofnandi Skerplu og svaraði nokkrum spurningum um hópinn.

Námskeið sem fór að hegða sér eins og tónlistarhópur

„Skerpla er rökrétt framhald á námskeiði sem boðið var upp á í fyrra og hét Flytjandinn/tónskáldið“ segir Berglind. „Þegar námskeiðið var farið að hegða sér eins og tónlistarhópur fannst mér eðlilegt að breyta því í tónlistarhóp.

Skerpla er ákveðinn skurðpunktur flytjenda og tónskálda.  Þar sem nemendur í flytjendanámi semja og tónsmíðanemendur flytja, og öfugt auðvitað.“

Þrjú verkefni á dagskrá Skerplu haustið 2018

„Á tónleikum í Mengi 21. september, sem einmitt ber upp á áttræðisafmæli Atla Heimis Sveinssonar, eins af fyrstu tilraunatónskáldum Íslands, verða flutt verk Atla frá 7. áratugnum For Boys and Girls“ segir Berglind María. „Einnig flytjum við tónlist eftir bandaríska tónskáldið Daniel Corral sem jafnframt verður í hlutverki flytjanda á tónleikunum en hann mun vinna með okkur í aðdraganda tónleika. Daniel kennir tónsmíðar við CalArts og er afar spennandi tónlistarmaður.“

Annað verkefni Skerplu í haust er flutningur þátttakenda á frumsömdum hljóðesseyjum á listahátíðinni Cycle en útgangspunktur verkanna verður þema hátíðarinnar "Inclusive Nation". Þeir tónleikar fara fram 27. október, einnig í Mengi.

Rúsínan í pylsuendanum þessa önnina verða svo flúxus-innblásnar vinnustofur í samstarfi við Erik Deluca, fyrrum kennara við skólann en hann hreppti á dögunum stöðu við Brown-háskóla í Bandaríkjunum. „Erik ætlar engu að síður að gera sér ferð hingað og miðla af þekkingu og andagift sinni í lok nóvember. Afrakstri þessara vinnu verður miðlað á sýningu þann 1. desember. Sem sagt nóg að gera hjá Skerplu,“ segir Berglind María.

Skerpla: Þegar líf kviknar

Tilraunatónlist er regnhlífarheiti utan um tónlist sem ekki er skrásett með hefðbundnum hætti, þar sem túlkunarleiðir flytjenda eru opnari en ella en einnig getur verið um að ræða tónlist sem staðsett er á mörkum listgreina. En hver er ástæðan fyrir nafnagift Skerplu?

„Mér fannst ómögulegt að fara af stað með nafnlaust band. Skerpla er fallegt nafn, gamalt mánaðarheiti yfir eggtíð eða varptíma, þannig vísum við í það fyrirbæri þegar líf kviknar.“ 

Eins og áður sagði er Skerpla opin öllum nemendum við LHÍ en nánari upplýsingar veitir berglindmaria [at] lhi.is (Berglind María Tómasdóttir), dósent í flutningi og miðlun samtímatónlistar.

 

Berglind María Tómasdóttir