Nýverið lauk velheppnaðri ferð leikaranema á 2.ári til Kaupmannahafnar. Þar tóku þau þátt í þriggja vikna námskeiði sem er samvinnuverkefni sviðslistadeildar Listháskólans, danska sviðslistaskólans og leikstjóradeildar Ernst Busch, sviðslistaskólans í Berlín.

Samstarfið hófst fyrir þremur árum en nemendur Listaháskólans bættust í hópinn í fyrra.

Á námskeiðinu er unnið með devised og site-specific aðferðir til að nálgast efnivið, sem að þessu sinni var Ofviðrið eftir Shakespeare. Nemendur tóku þátt í radd og líkamsþjálfun í húsnæði danska skólans, hlýddu á fyrirlestra um ofangreindar aðferðir, ásamt öðrum um sögulegan bakgrunn verks Shakespeare og dramatúrgíu.  En að stærstum hluta var vinnan verkleg og fór fram á Refshaleöen, sem er gríðarlega víðfeðmt svæði, sem áður þjónaði her og skipaútgerð. Þar er nú m.a. að finna „Teateröen“, þar sem listamenn geta leigt aðstöðu til sköpunar í húsnæði af öllum stærðum og gerðum. Í þessu frjóa umhverfi bjuggu og unnu nemendur að verkefnum og sýndu afrakstur með reglulegu millibili. Kennarar skólanna veittu aðhald og leiðbeiningar en aðalágæti námskeiðsins felst þó í hversu mikið sjálfstæði nemendur hafa í allri sinni vinnu. Þeir upplifa mikið frelsi og finna mjög til sín sem sjálfstæðir skapandi listamenn. Leikaranemar Listaháskólans hafa hingað til ekki haft kost á lengri námsferðum erlendis og eru þeir sammála um að þessi reynsla sé ein sú dýrmætasta sem þeir upplifa í námi sínu. Að komast úr landhelgi, kynnast og vinna með sviðslistafólki úr öðrum skólum, með ólíka reynslu og menningarlegan bakgrunn, er ómetanlegur skóli. Þarna gefst næði til að helga sig sköpunarferlinu alfarið, fjarri heimahögum, fjölskyldu og dægurþrasi.

Vert er að geta þess, að það vakti eftirtekt erlendu kennarana, hve íslensku nemendurnir voru fagmannlegir, jákvæðir, framleiðnir og drífandi í allri samvinnu.

Námskeiðinu lauk svo með sýningu, þar sem áhorfendum var boðið til magnaðarar veislu þar sem listrænar kræsingar og karakterar voru á borð borin, sem endurspegluðu afrakstur þessa þriggja vikna námskeiðs.