unknown.png
 
Næstkomandi fimmtudag, 25. nóvember, fer fram þverfræðilegt málþing um listir, vísindi og sjálfbærni í Norræna húsinu milli kl. 16 og 18.
Viðburðurinn er sá þriðji og síðasti í viðburðaröðinni Sjálfbær samruni – samtal lista og vísinda um sjálfbærni.
Að þessu sinni koma fram Bryndís Snæbjörnsdóttir - myndlistarmaður, prófessor við myndlistardeild og fagstjóri MA náms í myndlist og sýningargerð og Karl Ágúst Þorbergsson– sviðslistamaður, lektor og fagstjóri við sviðshöfundabraut Listaháskóla Íslands ásamt fleira góðu fólki.
 
Blandað verður saman erindum, listrænum uppákomum og umræðum sem tengjast sjálfbærri þróun. Stofnun Sæmundar fróða um sjálfbæra þróun og Norræna húsið standa að viðburðaröðinni. Viðburðurinn fer fram á ensku og hægt er að mæta í sal eða fylgjast með í streymi. Málþingið er opið öllum (hugað verður að sjálfsögðu að fjöldatakmörkun og sóttvörnum) og aðgangur frír.
 
Getur listin geti eflt vísindamiðlun og læknað okkur af plöntublindu?
Með hvaða hætti má vinna með búsvæði og verndun lífvera og vistkerfa sem listrænan efnivið? Hvernig tengjast epli og heimsendir

DAGSKRÁ:

 “Apples and Apocalypse”
 Karl Ágúst Þorbergsson – sviðslistamaður, lektor og fagstjóri við sviðshöfundabraut Listaháskóla Íslands
 “Conversations from shared lands”
 Bryndís Snæbjörnsdóttir og Mark Wilson – Listrænt tvíeyki
 “Beyond plant blindness”
 Dawn Sanders – Dósent við menntavísindasvið Gautaborgarháskóla
 
Tónlistaratriði - Sóley
 
Spurningar og svör
Boðið verður  upp á veitingar og spjall í lokin!
 
Gestir að þessu sinni eru: 
Dawn Sanders er dósent við menntavísindasvið Gautaborgarháskóla þar sem hún sérhæfir sig í kennslufræðum og miðlun tengdri líffræði plantna. Hún hefur leitt þverfræðilegt rannsóknarteymi listamanna, vísindamanna og sérfræðinga í kennslufræðum í rannsóknarverkefninu “Beyond Plant Blindness: Seeing the importance of plants for a sustainable world”, sem hlaut styrk frá Sænska rannsóknaráðinu.
Bryndís Snæbjörnsdóttir og Mark Wilson er listatvíeyki sem sérhæfir sig í listrannsóknum. Gegnum listina fjalla þau um og rannsaka sögu, menningu, umhverfi og samspil mannfólks og annara dýrategunda. List þeirra hefur verið sýnd og rannsóknir þeirra birtar á alþjóðavettvangi.
Karl Ágúst Þorbergsson kennir m.a. sjálfbærniáfanga við sviðslistadeild Listaháskóla Íslands og hefur gert hnattrænar áskoranir eins og loftslagsvá, hnignun vistkerfa og ójöfnuð að efniviði sínum, meðal annars í satíru pistlunum Yfirvofandi heimsendir á Rás1. 
Sóley er íslenskt tónskáld og söngkona sem hefur vakið athygli á alþjóðlegum vettvangi. Hún hefur gefið út tónlist í eigin nafni og í samstarfi við annað tónlistarfólk og má þar nefna hljómsveitirnar Seabear og Team dreams. Hún hefur gert hnattrænar áskoranir að efnivið tónlistar sinnar með einstakri næmni og fallegum flutningi.
 
Menning og listir eru drífandi afl í stórum samfélagslegum breytingum og sinna mikilvægu hlutverki á umbrotatímum. Nauðsynlegt er að virkja skapandi hugsun og efla samstarf milli lista og vísinda til að takast á við yfirvofandi áskoranir eins og loftslagsvá, tap á líffræðilegri fjölbreytni og ójöfnuð. Markmiðið með viðburðaröðinni er að efla þetta samtal, veita innblástur og vekja athygli á hlutverki skapandi greina í vegferðinni að sjálfbærara samfélagi. Í viðburðaröðinni kemur fólk úr ýmsum skapandi greinum svo sem myndlist, tónlist, sviðslistum og ritlist saman og ræðir við fólk úr vísinda- og fræðasamfélaginu um sjálfbærni frá ýmsum sjónarhornum.