Sigurður Atli Sigurðsson, umsjónarmaður prentverkstæðis í Laugarnesi, mun taka þátt í sýningunni Mótun í Gallerí i8 sem opnar fimmtudaginn 15. nóvember kl. 17:00.

Auk Sigurðar eru sýnendur á samsýningunni þau Emma Heiðarsdóttir og Una Björg Magnúsdóttir, fyrrum nemendur myndlistardeildar, Örn Alexander Ámundason og Elísabet Brynhildardóttir, stundakennarar við myndlistardeild og Magnús Ingvar Ágústsson.

Í sýningunni Mótun er teflt fram sex listamönnum af yngri kynslóðinni sem öll hafa verið virk í myndlistarlífinu. Þau skoða manneskjuna og það umhverfi sem hún hefur mótað sér, hvort heldur sem er í arkitektúr eða í heimi tækninnar. Öll nálgast þau viðfangsefnið með ólíkum hætti, hvort heldur sem er með ítarlegri rannsókn eða með gáska og húmor. Þau takast á við hefðbundna miðla af æðruleysi og skírskotað er til hefðarinnar og skoðað hvernig hún getur talað til samtímans.

Sýningin stendur yfir til 12. janúar 2019. Facebook viðburður.