Sigrún Inga Hrólfsdóttir, myndlistarmaður, hefur verið ráðin deildarforseti myndlistardeildar Listaháskóla Íslands.

Listaháskóli Íslands býður nýjan deildarforseta myndlistardeildar, Sigrúnu Ingu Hrólfsdóttur, velkomna en hún hefur störf innan tíðar. Sigrún var valin úr hópi sjö umsækjenda. 

Sigrún hefur unnið að myndlist í ýmsa miðla, aðallega teikningu, vídeó og innsetningar en hefur nú í seinni tíð snúið sér meira að málverki. Síðasta einkasýning Sigrúnar nefndist Hin ókomnu og var sett upp í Kunstschlager í Reykjavík. Þar voru sýnd málverk og innsetning. Í verkum sínum skoðar Sigrún hið óefnislega svæði tilfinninganna og samspil innri heims þess persónulega við hinn ytri heim hugmynda, hluta og tákna.

Sigrún er ein af stofnendum Gjörningaklúbbsins (1996). Verk hans eru af margvíslegum toga og unnin í alla miðla en eiga það sameiginlegt að eiga rætur í gjörningalist. Í verkum Gjörningaklúbbsins má oft sjá samspil margra ólíkra táknmynda sem kunna að virðast abstrakt við fyrstu sýn, en eru í raun kunnuglegar myndir sem eiga rætur í sameiginlegum menningararfi og varpa ljósi á kerfi og ósýnilegar reglur samfélagsins.

Verk Gjörningaklúbbsins hafa verið sýnd um allan heim og eru í eigu helstu safna á Íslandi og fjölmargra erlendra opinberra safna sem og einkasafna. Nánari upplýsingar um verkin má finna á heimsíðunni www.ilc.is

Sigrún Inga Hrólfsdóttir er fædd árið 1973 í Reykjavík. Hún stundaði myndlistarnám á listasviði Fjölbrautaskólans í Breiðholti frá 1990-93, við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1993 – 96 og mastersnám við Pratt Institute í New York frá 1996 - 97. Hún hefur einnig numið listfræði og heimspeki við Háskóla Íslands 2009-2016.

Sigrún hefur verið stundakennari við LHÍ frá árinu 2004.

Nánari upplýsingar um verk Sigrúnar má finna á heimasíðunni www.this.is/sigrunhrolfsdottir