Á Gestagangi í nóvember býður hönnunar- og arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands alla velkomna á opna hádegisfyrirlestra í sal A, Þverholti 11. Fyrirlestrarnir hefjast allir kl. 12:15. 

Fyrsti fyrirlesarinn á Gestagangi í nóvember er Signý Þórhallsdóttir fatahönnuður.

Signý Þórhallsdóttir útskrifaðist úr Listaháskóla Íslands með BA í fatahönnun árið 2011. Síðan þá hefur hún sótt sér reynslu bæði í New York og London hjá hönnuðum eins og Zöndru Rhodes og Vivienne Westwood, þar sem hún starfaði í þrjú ár við að hanna fatnað og munstur fyrir Japansmarkað. Signý leitast við að starfa á mörkum fata og prenthönnunar, og vinnur nú að eigin verkefnum á Íslandi, þar sem hún sækir innblástur í mynd- og nytjalist, tískusögu og íslenska náttúru. Í fyrirlestrinum mun hún fjalla um vinnuaðferðir sínar og reynslu hjá ólíkum merkjum í tískuiðnaðinum, ásamt því að gefa sýnishorn af nýlegum verkefnum.

Fyrirlesturinn sem hefst 12:15 í fyrirlestrarsal A í kjallara Þverholts 11 er öllum opinn og aðgangur er ókeypis.

Með Gestagangi í nóvember er ætlunin að veita áhugasömum innsýn í þær rannsóknir og störf sem eiga sér stað í hönnun og arkitektúr bæði hérlendis og erlendis. Gestirnir koma víða að og munu varpa skýrri mynd á fjölbreytileika hönnunarsamfélags samtímans. Fyrirlesararnir eiga það allir sameiginlegt að vera stundakennarar eða erlendir gestakennarar við hönnunar- og arkitektúrdeild og leiðandi hönnuðir á sínu fagsviði. 

Viðburðurinn á Facebook