Tryggvi M. Baldvinsson, tónskáld og forseti tónlistardeildar og Einar Sv. Tryggvason, tónskáld og stundakennari við tónlistardeild fluttu erindið „Samið saman“ á Hugarflugi 2019.
 
Í hugum flestra eru tónsmíðar ferli sem á sér stað í einrúmi og án afskipta annara uns afraksturinn birtist fullunninn á tónleikum, eða á hljóðupptöku. Þó dæmin um samstarf á sviði tónsmíða séu þó nokkur heyra þau enn til undantekninga.
 
Samið saman er kynning og ígrundun á ferlinu þegar tónskáldin og feðgarnir Tryggvi M. Baldvinsson og Einar Sv. Tryggvason sömdu saman tónlistina við sjónvarpsþáttaseríuna Flateyjargátuna sem sýnd var á RÚV í nóvember og desember s.l. Farið er yfir vinnulag, verkaskipti og reynsluna af því að hafa takmarkað frelsi yfir listsköpun sinni.
 
Tryggvi M. Baldvinsson stundaði nám í tónsmíðum og tónfræðum við tónfræðadeild Tónlistarskólans í Reykjavík og við Konservatoríum Vínarborgar. Verk Tryggva hafa verið flutt víða um heim og hefur hann hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir verk sín. Tryggvi hefur samið tónlist við nokkrar heimildarmyndir, en Flateyjargátan er í fyrsta leikna sjónvarpsefnið sem Tryggvi semur tónlist fyrir.
 
Einar Sv. Tryggvason lauk BA-gráðu í tónsmíðum frá Listaháskóla Íslands árið 2011 og MAgráðu í kvikmyndatónsmíðum við Conservatorium van Amsterdam. Einar hefur samið tónlist fyrir tvær kvikmyndir í fullri lengd, fimm sjónvarpsþáttaraðir og fjölda verðlaunaðra stuttmynda.