Rúna Thors hefur verið ráðin lektor í vöruhönnun við Listaháskóla Íslands. Rúna hefur verið stundakennari við hönnunar- og arkitektúrdeild frá árinu 2011. Árið 2016 varð hún aðjúnkt í vöruhönnun og tók jafnframt við stöðu fagstjóra.  Rúna hefur verið farsæll kennari og hefur á síðustu árum unnið að þróun námsbrautar í vöruhönnun í takt við áskoranir samtímans og þróun fagsins í alþjóðlegu samhengi.
 
Rúna er lærður iðnhönnuður og lauk B.Des gráðu frá Design Acedmy Eindhoven í Holland, en auk þess er hún með meistaragráðu í hagnýtri menningarmiðlun frá Háskóla Íslands.Í störfum sínum hefur Rúna lagt áherslu á þverfaglegt samstarf og hefur hún meðal annars unnið með myndlistarmönnum, arkitektum, skógarbændum, æðardúnsbændum og hönnunarteyminu Attikatta, auk þess sem hún hefur komið að ýmsum samfélagslegum hönnunarverkefnum. Þá hefur Rúna verið leiðandi í ýmsu norrænu samstarfi og staðið fyrir alþjóðlegum námskeiðum við erlenda samstarfsskóla Listaháskólans. Rúna hefur einnig lagt áherslu á að efla rannsóknartengd verkefni innan deildarinnar og hefur bæði átt frumkvæði og verið leiðbeinandi í ýmsum nýsköpunarsjóðsverkefnum, m.a. verkefninu Þekkirðu Fuglinn? sem hlaut Nýsköpunarverðlaun Forseta Íslands árið 2016.
 
Sem vöruhönnuður hefur Rúna lagt áherslu á  hönnun upplifunar, rýmis og samhengis í stað þess að leggja áherslu á að hanna hluti til framleiðslu. Hún hefur á sínum ferli hlotið margvísleg verðlaun og viðurkenningar. Rúna situr í stjórn Hönnunarsjóðs og í valnefnd HönnunarMars og hefur m.a. setið í dómnefnd Reykjavík Grapevine Design Award.
 
Listaháskóli Íslands óskar Rúnu innilega til hamingju með ráðninguna og hlakkar til að fylgjast með störfum hennar við hönnunar- og arkitektúrdeild.