Verkefnið Tónlistarmenn í útlegð frá Þýskalandi og Austurríki og áhrif þeirra á íslenskt tónlistarlíf, 1935–1974, undir stjórn Árna Heimis Ingólfssonar tónlistarfræðings, fékk á dögunum úthlutað verkefnastyrk til þriggja ára úr Rannsóknasjóði.

Verður verkefnið hýst við Listaháskóla Íslands og mun Árni Heimir starfa að rannsókninni sem gestarannsakandi við tónlistardeild. Einnig mun nemendum við tónlistardeild gefast kostur á að starfa að rannsókninni auk þess sem alþjóðleg ráðstefna um tónlist og útlegð verður haldin hér á landi árið 2022. 
Þrír tónlistarmenn sem flýðu Þriðja ríkið á árunum 1935–38 fengu landvistarleyfi á Íslandi og lögðu grunn að þróun tónlistarlífs á Íslandi á mikilvægum tíma. Þetta voru þeir Robert Abraham, Heinz Edelstein og Victor Urbancic. Abraham og Edelstein voru gyðingaættar, og það var eiginkona Urbancic einnig. Á árunum kringum stofnun lýðveldis 1944 urðu miklar framfarir á sviði hljómsveitarleiks og kórsöngs hér á landi, ekki síst fyrir ötult starf þeirra þriggja.  
Verkefnið „Tónlistarmenn í útlegð frá Þýskalandi og Austurríki og áhrif þeirra á íslenskt tónlistarlíf, 1935–1974“ verður fyrsta umfangsmikla rannsókn á ævi og starfi þessara þriggja tónlistarmanna. Sérstök áhersla verður lögð á að kanna hvernig þeir tóku þátt í að móta leiðandi tónlistarstofnanir sem enn starfa í dag (Sinfóníuhljómsveit Íslands, kóra og tónlistarskóla), en einnig tiltekin svið tónlistarkennslu og flutnings (til dæmis flutning barokktónlistar og kirkjutónlistar). Framlag þeirra verður einnig skoðað í menningarpólitísku samhengi, ekki síst með tilliti til Tónlistarfélags Reykjavíkur og deilna um atvinnuleyfi handa erlendum tónlistarmönnum á árunum um 1930-40, sem bæði FÍH og BÍL drógust inn í. Með því að kanna frumgögn á söfnum og í einkaeign á Íslandi og erlendis, viðtölum við samtímamenn og yfirgripsmikilli skoðun samtímaheimilda verður í fyrsta sinn hægt að draga upp mynd af ævi og listrænu framlagi þessara mikilvægu tónlistarmanna sem hingað til hafa ekki hlotið þann sess sem þeim ber.
Árni Heimir Ingólfsson hefur fengist við rannsóknir á íslenskri tónlistarsögu um tveggja áratuga skeið. Hann hefur ritað fjórar bækur um tónlist sem allar hafa hlotið mikið lof og fjölmargar viðurkenningar, meðal annars Jón Leifs – Líf í tónum (2009), Saga tónlistarinnar (2016) og Tónlist liðinna alda (2019). Hann hefur tvívegis hlotið Íslensku tónlistarverðlaunin fyrir geisladiska með tónlist úr fornum íslenskum handritum og tvisvar verið tilnefndur til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Árni Heimir stundaði nám í píanóleik og tónlistarfræði við Oberlin-tónlistarháskólann og Harvard-háskóla, þaðan sem hann lauk doktorsprófi árið 2003. Hann hefur ritað fjölda greina og bókarkafla og haldið fyrirlestra um tónlist víða um heim, m.a. í Bandaríkjunum, Bretlandi, Svíþjóð, Sviss og Japan. Þetta er þriðja rannsóknarverkefni hans sem hlýtur styrk úr Rannsóknasjóði.
 
screenshot_2021-03-02_at_09.26.22.png

Dr. Róbert Abraham Ottósson að stjórna Sinfóníuhljómsveit Íslands og Söngsveitinni Fílharmóníu í Háskólabíói árið 1966.

Forsíðumynd: Árni Heimir Ingólfsson.